Tryggvi Karl Valdimarsson hefur tekið við sem framkvæmdastjóri Verifone á Íslandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem þjónustar fjölda fyrirtækja með greiðslulausnir bæði í verslunum og í netverslunum. Verifone er alþjóðlegt fjártæknifyrirtæki og starfar í yfir 165 löndum þar sem fyrirtækið þjónustar ein þekktustu vörumerki heims.
Tryggvi hefur 15 ára reynslu á fjármálamarkaði og hefur leitt teymi bæði á Íslandi og í Evrópu í fyrri störfum sínum. Reynsla hans og þekking mun nýtast vel í að leiða áframhaldandi vöxt Verifone á Íslandi og efla viðskiptasambönd félagsins við samstarfsaðila og viðskiptavini. Tryggvi kemur frá Arion banka þar sem hann sinnti vöruþróun fyrir fyrirtæki síðastliðin þrjú ár. Þar áður starfaði hann í 13 ár hjá Borgun hf, (nú Teya) við viðskiptatengsl og þróun vöru- og þjónustuframboðs.
„Það er heiður að taka við starfi framkvæmdastjóra Verifone á Íslandi. Í fyrri störfum mínum hef ég fengið að kynnast starfsemi félagsins og ég mun nýta þá reynslu til að leiða félagið áfram í komandi verkefnum,“ segir Tryggvi Karl.