Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur fallist á beiðni Gunnars Jakobssonar um lausn úr embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands. Gunnar mun láta af embætti í lok júní á þessu ári.
Forsætisráðherra skipaði Gunnar, á grundvelli niðurstöðu lögbundinnar hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra, í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika til fimm ára frá og með 1. mars 2020.
Staða varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika verður auglýst laus til umsóknar á næstunni, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.