Gunnar á leið til Norður-Ítalíu

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands.
Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, hefur þegið starf í Mílanó á Ítalíu.

Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is en kveðst þó ekki geta upplýst um nafn fyrirtækisins sem hann heldur til.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði fallist á beiðni Gunnars um lausn úr embætti. 

Gunnar var skipaður í embætti til fimm ára í mars 2020 og var því tæpt ár eftir af skipunartíma hans. 

„Mér bauðst annað starf erlendis. Ég var ekki að leita mér að starfi heldur kom þetta bara upp. Ég fékk símtal og eitt leiddi að öðru. Svo varð ég að meta hvort þetta væri eitthvað sem ég vildi taka. Ég hef verið mjög sáttur innan Seðlabankans en nú er svo að þú ert skipaður til fimm ára og ég er búin að vera í rúm fjögur. Þannig að þá fer maður að velta fyrir sér: Ætla ég að sækjast eftir að vera önnur fimm ár eða ætla ég eitthvað annað. Svo blandast inn í þetta fjölskyldan og fleiri þættir,“ segir Gunnar.

Ekki að verða of sein

Það er ekkert launungarmál að þú hefur verið hlynntur vaxtalækkun en peningastefnunefnd ákvað síðast að halda stýrivöxtum óbreyttum. Hvaða áhrif heldur þú að það hafi? Erum við að verða of sein að lækka vexti?

„Ég held við séum ekkert að verða of sein. Hins vegar togast þarna á kraftar, annars vegar er það krafturinn að það er of mikil verðbólga, og við sjáum það, og svo er það hins vegar hvaða áhrif eru vextirnir að hafa á framtíðar hagvöxt, fjárfestingu, íbúðafjárfestingu, eða fjárfestingu í atvinnuvegum og atvinnutækifærum – áhrifin líka á heimilin í landinu og fjármálastöðugleika,“ segir Gunnar og heldur áfram:

„Vaxtatækið er mjög skilvirkt til þess að hafa áhrif á vöxt í hagkerfinu og kraft í hagkerfinu. Síðan er það líka svo að vaxtatækið hins vegar tekur átján til 24 mánuði fyrir vextina til þess að miðla. Við erum búin að vera að hækka ansi skarpt undanfarna 24 mánuði þannig að að mínu mati eru áhrifin bara enn að koma fram og auðvitað veit maður aldrei fyrr en eftir á hvað er rétt og röng ákvörðun.“

Ber ekki mikið í milli

Gunnar segir ekki bera mikið í milli hans og annarra í peningastefnunefnd Seðlabankans. Hann leggi einfaldlega mat á gögnin með eilítið öðrum hætti en hinir nefndarmennirnir.

„Þú þarft að greiða atkvæði eins og þetta sé svart og hvítt en þetta er mjög grátt. Það má segja að þú sért með sextíu prósent sannfæringu um eitthvað og fjörutíu prósent sannfæringu um annað en þú ákveður að greiða atkvæði á einn veg.“

Hann kveðst jafnframt bera mikla virðingu fyrir ákvörðun þeirra sem eru í meirihlutanum í nefndinni.

„Því að það er ekki eins og það sé einhlítt rétt svar. Þetta er ekki stærðfræðidæmi sem við þurfum að leysa.“

„Þetta eru félagsvísindi, ekki raunvísindi“

Myndirðu segja að þessi ágreiningur hefði haft áhrif á ákvörðun þína að hætta?

„Bara með engu móti. Það eru ekki nokkur tengsl þar á milli. Enda er seta okkar í peningastefnunefnd byggð á því að við eigum að hafa okkar skoðanir og leggja mat á gögnin með okkar hætti,“ segir Gunnar og bendir á að það sé ekki sé óalgengt að nefndarmenn peningastefnunefndar séu ósammála og greiði atkvæði með .

„Þetta eru félagsvísindi, ekki raunvísindi.“

Ásgeir staðið sig vel

Þá segir hann endurskipun Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra hafa verið mjög skynsama ákvörðun.

„Ásgeir hefur staðið sig vel sem seðlabankastjóri og ég held að það sé nauðsynlegt fyrir seðlabanka að vera ekki að skipta um of um fólk í brúnni. Ég hef hrifist af því hvað hann hefur haft kjark í mörgum af þeim skrefum sem hann hefur stigið í starfi sínu sem seðlabankastjóri. Við náttúrulega getum aldrei haft rétt fyrir okkur um allt þannig að ég er algjörlega sannfærður um að þetta hafi verið rétt ákvörðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK