Allir voru á einu máli um mikilvægi þess að allir leggist á eitt í baráttunni við verðbólguna á Stöðugleikunum sem Samtök atvinnulífsins héldu í Hörpu í vikunni. Allra augu beinast nú að opinbera markaðinum sem undanfarin ár hefur verið leiðandi í launaþróun.
Á fundinum benti Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á að ef horft væri til kostnaðarmats nýundirritaðra kjarasamninga, þá væru þeir í ágætu samræmi við sögulegt meðaltal. Kostnaðarmatið segi þó ekki alla söguna, því sögulega séð hafi launavísitalan að jafnaði þróast vel umfram kostnaðarmat kjarasamninga, eða um 90%.
„Þar getur ýmislegt komið til, svo sem innbyggt launaskrið þar sem starfsfólk færist upp í töflum vegna starfsaldurs en einnig getur spenna á vinnumarkaði þrýst markaðslaunum upp þar sem hörð samkeppni ríkir um starfsfólk.“
Það skipti því máli hvernig launavísitalan muni koma til með að þróast á næstu árum. Sagan sýni okkur þó að launaþróun hafi frekar speglað hækkun lægstu launa heldur en kostnaðarmat kjarasamninga.
„Í Stöðugleikasamningunum leituðumst við, við að ná betra jafnvægi í launastefnunni, meðal annars til að halda aftur af launaskriði og þar af leiðandi verðbólguþrýstingi. Framundan eru því fjögur ár af mun minna bili á milli almennra hækkana og hækkana á lægstu launum, þó vissulega sé munur,“ sagði Sigríður.
Þá ræddi Sigríður harða samkeppni almenna markaðarins við hið opinbera en laun opinberra starfsmanna hafa hækkað umfram laun á almennum vinnumarkaði frá undirritun Lífskjarasamningsins. Þar hafa starfsmenn sveitarfélaga verið með afgerandi forystu. Hún sagði ekki nóg að horfa einungis til launaþróunar í þeim efnum.
„Opinberir starfsmenn njóta einnig réttinda sem eru talsvert umfram það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, hvort sem það snýr að viðveruskyldu, orlofi, veikindarétti eða uppsögnum.
Það kann ekki góðri lukku að stýra að opinberi markaðurinn sé leiðandi í launaþróun né að hann veiti almenna vinnumarkaðinum of harða samkeppni um starfsfólk, enda er það almenni markaðurinn sem fjármagnar hið opinbera, en ekki öfugt,“ sagði hún.
Í pallborðsumræðum ræddi Sigríður við þau Sigurð Inga Jóhannsson fjármálaráðherra, Einar Þorsteinsson, borgarstjóra Reykjavíkur, Vilhjálm Birgisson, formann Starfsgreinasambandsins og Jónínu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Coripharma.
Sigurður Ingi sagði það vera miður að hið opinbera væri oft leiðandi í launaþróun. Hins vegar væri það mikilvægt að ríki og sveitarfélög væru að vinna þétt saman, sem einn samningsaðili, gagnvart viðsemjendum sínum.
Þetta væri mikilvæg breyting undir þessum kringumstæðum, þar sem búið væri að ná langtímakjarasamningum, með hófsömum kjarabótum og stuðningsaðgerðum frá hinum opinbera, sem séu sumpart meiri en launahækkanirnar, fyrir þá hópa barnafjölskyldna sem njóta þeirra.
„Aðgerðum sem tóku ekki bara tillit til þeirra sem voru að semja á almenna markaðnum, heldur líka opinbera markaðarins. Við erum því búin að segja hvað við getum gert. Það er búið að senda út merkið. Þetta er það sem að allir geta samið um og verða að semja um,“ sagði Sigurður Ingi og beindi því svo til samningsaðila á opinberum vinnumarkaði að drífa sig að ljúka samningum.
Vilhjálmur Birgisson áréttaði mikilvægi þess að hátekjuhópar hjá hinu opinbera mættu ekki kasta spreki á verðbólgubálið.
„Ég bara neita að trúa því að það muni gerast, en hef svo sem heyrt því fleygt að eitt af stóru ágreiningsefnum hins opinbera og viðsemjenda þess sé jöfnun launa á milli markaða,“ sagði hann og bætti því við að hann gæti farið yfir tuttugu atriði þar sem hallaði á almenna markaðinn í þeim samanburði.
„Það þarf að horfa á heildarpakkann þegar verið er að tala um að jafna laun á milli almenna og opinbera markaðarins. Því miður hefur það verið þannig í gegnum árin og áratugina að hið opinbera hefur verið leiðandi í kjarastefnu á íslenskum vinnumarkaði, enda eru réttindin hjá hinu opinbera margfalt betri heldur en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.“
Jónína Guðmundsdóttir nefndi að atvinnurekendur hefðu að öllum líkindum gert ráð fyrir launahækkunum við áætlanagerð á haustmánuðum, enda hafi ekki séð fyrir endann á kjarasamningunum þá.
„Við verðum að tala til atvinnurekenda að endurskoða þessar áætlanir, hugsanlega er hagræðing í kortunum. Ef við förum að elta launaskriðið, þá hef ég áhyggjur af því hvar við endum. Við þurfum að halda línunni - atvinnurekendur, jafnt sem sveitafélögin,“ sagði hún.
Borgarstjóri kom inn á það í máli sínu hversu mikilvægt það hefði verið í kjaraviðræðunum nú í vetur að sterk skilaboð hefðu komið frá hinu opinbera og einstökum atvinnurekendum. Hann telur það hafa hjálpað mikið til að þau skilaboð hefðu verið send að vænta mætti þess að verðbólgan færi niður ef að þessir samningar tækjust.
„Þess vegna tek ég undir að það er gríðarlega mikilvægt að við, sem erum núna í samningum, höldum okkur við merkið. Það er ekkert annað í boði. Það er bara allt undir og liður í því er að koma hérna saman og ræða áfram um verkefnið, af því við verðum að halda okkur við markmiðin,“ sagði Einar Þorsteinsson.