Guðmundur valinn frumkvöðull ársins hjá EWMA

Guðmundur Fertram, stofnandi og forstjóri Kerecis, ásamt Kirsi Isoherranen, forseta …
Guðmundur Fertram, stofnandi og forstjóri Kerecis, ásamt Kirsi Isoherranen, forseta EWMA sem afhenti verðlaunin. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, hlaut útnefninguna frumkvöðull ársins á árlegri ráðstefnu Evrópsku sárasamtakanna, EWMA, sem haldinn var í London í vikunni.

Markmið verðlaunanna er að verðlauna einstaklinga fyrir einstakt frumkvöðlastarf og fyrir að stuðla að stórtækum framförum á sárameðferð og lífsgæðum sárasjúklinga.

Í fréttatilkynningu EMWA segir að störf Fertram hafi valdið straumhvörfum í þeirri grein sárameðhöndlunar sem byggir á vefjaendurnýjun.

Markmiðið að verða algengasta meðferðarúrræðið

Undir stjórn hans  hefur Kerecis þróað lækningavörur úr fiskroði, sem m.a. eru notaðar við meðhöndlun þrálátra sára – t.d. vegna sykursýki - brunasára, skurðsára og áverka af ýmsu tagi. Sáraroðið er náttúrleg vara sem unnin er úr þorskroði í hátæknisetri Kerecis á Ísafirði.

Varan hjálpar mannslíkamanum að endurnýja skaðaðan líkamsvef og græðir sár. Klínískar rannsóknir sýna að sáraroð græðir sár hraðar en samanburðarvörur og styttir meðferðartíma sem gerir vöruna afar hagkvæma.

Tugþúsundir einstaklinga hafa fengið meðhöndlun með sáraroði Kerecis með góðum árangri, flestir í Bandaríkjunum.

„Það er ótrúleg tilfinning að sjá uppfinninguna bæta heilsufar og lífsgæði sjúklinga. Það er mesta hvatningin og þess vegna er markmiðið að koma sáraroðinu á markað um allan heim, þannig að það verði algengasta meðferðarúrræðið um heim allan fyrir alvarleg sár,“ sagði Fertram þegar hann tók við verðlaununum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK