Reykjavíkurborg hefur ýmist fellt niður eða frestað skuldabréfaútboði fimm sinnum á árinu. Þá hefur eftirspurn fjárfesta eftir skuldabréfum Reykjavíkurborgar verið dræm og kjörin slök bæði á þessu ári og því síðasta.
Í svörum frá Reykjavíkurborg við fyrirspurn ViðskiptaMoggans kemur fram að ástæðan fyrir frestun á skuldabréfaútboðinu í síðustu viku hafi verið að á þeim degi hafi farið fram í borgarstjórn seinni umræða um fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 og fimm ára áætlun 2025-2029.
„Reykjavíkurborg hefur alla jafna ekki verið með skuldabréfaútboð í sömu viku og uppgjör eða fjárhagsáætlanir eru birtar og þess vegna var ákveðið að fresta útboðinu um viku,“ segir í svörum borgarinnar. Umrætt skuldabréfaútboð mun fara fram í dag.
Þórður Gunnarsson, hagfræðingur og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að borgin hafi líklega slegið útboðunum á frest í þeirri von að kjör á markaði batni síðar. Hann bendir á að dótturfélög innan samstæðu borgarinnar hafi ekki átt í vandræðum með að sækja sér lánsfé.
Samkvæmt útkomuspá verður rekstrarafgangur ársins í ár rúmlegar hálfur milljarður króna og á næsta ári um 1,7 milljarðar. Lántökuáætlun fyrir næsta ár hljóðar upp á 16,5 milljarða króna sem er sama fjárhæð og gert er ráð fyrir í ár. Einar Þorsteinsson borgarstjóri gaf út í byrjun síðasta mánaðar í samtali við mbl.is að Perlan væri í söluferli og „ágætar viðræður í gangi í kringum það“.
„Ef rétt reynist að ein forsenda útkomuspár borgarinnar fyrir þetta ár sé að Perlan seljist þá er ekki sérstaklega líklegt að sú spá standist. Fasteignamat Perlunnar er rétt tæpir 4 milljarðar króna og því gæti endanleg afkoma ársins 2024 orðið verri en gefið hefur verið út,“ segir Þórður.
Spurður hvort hann telji þau markmið sem borgin hafi sett sér vera raunhæf segist Þórður efast um það.
„Varðandi það hvort markmiðin sem borgin setur fram séu raunhæf nægir að benda á að áætlanir Reykjavíkurborgar hafa ekki verið nálægt því að standast um margra ára skeið,“ segir Þórður að lokum.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.