c

Pistlar:

7. maí 2013 kl. 23:03

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Úr séreign í húseign

Nýlegar tillögur Sjálfsstæðisflokksins varðandi leiðir til að lækka höfuðstól húsnæðislána á Íslandi verða vonandi eitt af þeim málum sem verða sett í forgang á þessu ári.

Skattaafsláttur

Ein leiðin er að veita sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af íbúðaláni. Í stað þess að fjármagnið fari út í meiri neyslu í samfélaginu þá er afslátturinn nýttur til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána, sem Sjálfstæðisflokkurinn "lofaði" yrði allt að 40 þúsund krónur á mánuði eða tæplega hálfa milljón króna á ári.

Þetta er í raun merkileg stefnubreyting frá því kerfi sem hefur verið við lýði í mörg ár, þar sem að ríkið nánast hvatti til skuldsetningar með vaxtabótakerfi (sem átti að mínu mati vel að merkja rétt á sér nú nýlega í skugga kreppu). Langtímasjónarmið skynsamrar stefnu hlýtur hins vegar að liggja í hvatningu til sparnaðar en ekki skuldsetningar og vonandi er þetta upphafið að slíkri breytingu.

Með því að örva uppgreiðslu lána sem fer einungis í að lækka höfuðstól lána myndast einnig önnur jákvæð áhrif, sem eru þau að slíkt dregur úr verðbólguþrýsting. Aukning peningamagns í íslenska hagkerfinu var ein af helstu birtingarmyndum þess að þensla hér fór úr böndunum í undanfara Hrunsins. Í áhugaveðri bók eftir George Cooper, The Origin of Financial Crises: Central Banks, Credit Bubbles, and the Efficient Market Fallacy, er sýnt með skemmtilegum hætti hvernig uppgreiðsla lána verður til þess að peningar í hagkerfinu nánast hverfa eins og um galdur sé að ræða.

Með sama hætti myndi hvatning til uppgreiðsla lána flýta þá þróun að hérlendis nái peningamagn því jafnvægi aftur til að verðbólga hjaðni. Loforð Framsóknarflokksins um "leiðréttingu" lána ætti með sama hætti að takmarkast við lækkun höfuðstól almennings í stað þess að senda tékka heim til þess með tilheyrandi eftirkasta þenslu og eyðslufyllirís.

Séreignasparnaður

Hin leiðin er að nota framlag séreignasparnaðar til að lækka höfuðstól láns. Sumir aðilar eru andvígir þessari stefnu og telja að þetta dragi úr sparnaðarvitund fólks. Ég tel aftur á móti að hún þvert á móti auki hana þar sem að hún stuðlar að eignamyndun heimilanna í húsnæði. Fólk á augljóslega minni séreignasparnað þegar það fer á eftirlaun en á móti kemur að afborganir og vaxtagreiðslur vegna húsnæðis eru lægri og munar jafnvel miklu.

Auk þess eru raunvextir almennt af húsnæðislánum á Íslandi svo háir að vart er hægt að finna betri fjárfestingarkost en að greiða niður slík lán. Lífeyrissjóðslán vegna húsnæðiskaupa bera að jafnaði í kringum 3,5-4,0% raunvexti (Lífeyrissjóður Verzlunarmanna veita betri kjör, sjá www.live.is) á meðan að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa er í kringum 2,5-2,9%. Það þýðir að árlega fær fólk 1% betri ávöxtun af því að greiða niður lán sín.

Þessi rök eiga augljóslega ekki við um aðila sem gert hafa langtímasamninga varðandi séreignasparnað í gegnum tryggingarfélög eins og til dæmis Allianz. Þeirra hagur liggur augljóslega í því að halda sinni stefnu.

Rétt eins og með tillögur um lækkun höfuðstóls með því að veita skattaafslátt, þá myndar notkun séreignasparnaðar til lækkunar á höfuðstól húsnæðislána aukin stöðugleika í íslenskt samfélag, eykur sparnað og dregur úr verðbólgu.

MWM

Bók Cooper fæst til dæmis í Bóksölu Stúdenta - http://www.boksala.is/DesktopDefault.aspx/tabid-8/prodid-48908/ - Bagus og Howden fjalla um aukningu peningamagns í undanfara Hruns í bókinni Deep Freeze en hægt er að nálgast hana hér löglega í pdf formi ókeypis eða gegni vægu gjaldi í formi e-bókar -  http://mises.org/document/6137/Deep-Freeze-Icelands-Economic-Collapse - og ég og Þröstur Olaf Sigurjónsson fjölluðum líka um þenslu því tengdu í grein okkar Áfram á rauðu ljósi sem er aðgengileg hérna - www.efnahagsmal.is/.../2010/12/1_2_Afram-a-raudu-ljosi_final1.pdf.

Ég hefur áður fjallað um séreignasparnað til greiðslu húsnæðislána, t.d. hérna - http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/1257494/ - og hér er (held ég) fyrsta greinin þar sem þessari hugmynd var komið á framfæri í Viðskiptablaðinu tæpu ári eftir Hruni - http://www.slideshare.net/marmixa/20090922-sereignarsparnadur-husnaedislan.

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Dósent í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

People Need Housing to Live in - https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/02673037.2024.2339920

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Dósent í fjármálum við Háskóla Íslands

Stjórnarmaður í Almenna

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira