c

Pistlar:

25. mars 2013 kl. 11:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þróunaraðstoð og mannvinir

Bill Gates stofnandi Microsoft tölvurisans var í eina tíð táknmynd alls þess vonda í tölvuiðnaðinum. Hann stýrði stærsta fyrirtækinu sem hafði einokunartilburði á ýmsum sviðum og var þar að auki skelfilega auðugur. Árlega var heimsbyggðin minnt á þetta þegar auðmannalisti Forbes var birtur en Bill Gates var þar efstur frá 1995 til 2009, að undanskildu árinu 2008. Um tíma var talið að hann ætti yfir 100 milljarða Bandaríkjadala eða 12.500 milljarða króna. Að sjálfsögðu eru þetta afstæðar tölur þar sem auður hans var bundinn í hlutabréfum Microsoft en segja má að hann hafi gefið frá sér efstu stöðuna. Í dag hefur Bill Gates lítil sem engin afskipti af Microsoft og hefur að mestu helgað sig góðgerðarmálum, í fyrstu undir áhrifum þess sem auðmennirnir Andrew Carnegie og John D. Rockefeller gerðu en síðar hefur hann þróað sína eigin aðferðarfræði. Margir telja hann mannvin og að það sem hann og Melinda kona hans eru að reyna að gera sé einstakt.

Þegar við skoðum verk Bill Gates fáum við sýn á tvennt, þróunaraðstoð og auðsæld. Hvoru tveggja hefur verið til umræðu hér á landi. Nýlega lét Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í ljós efasemdir um að það væri rétt fyrir Íslendinga að stunda þróunaraðstoð þegar svo margt væri ógert hér heima. Það má til sanns vegar færa en aðstæður okkar eru eigi að síður miklu betri en í stórum hlutum heimsins og því má ætla að við - meira að segja á okkar erfiðustu stundum - getum látið eitthvað af hendi rakna. Ummælin voru áminning um að það er alltaf auðvelt að vera góðmenni fyrir annarra manna peninga. Auður og fátækt eru síðan vinsælt umræðuefni sem sprettur upp með jöfnu millibili, þökk sé Ríkisútvarpinu. Þó umfjöllun þar sé fremur einsleit þá eru þetta mikilvæg umræðuefni. Þess vegna er áhugavert að sjá hvernig auðugasti maður heims ber sig að.

Framtak á heimsvísu

Bill Gates hefur gefið út að hann ætli að beita öllum sínum auði til þess að bæta hag fólks um allan heim, bæði heima í Bandaríkjunum en þó ekki síst í fátækari hlutum heims. Framtak hans er orðið svo umsvifamikið að hann fær þjóðhöfðingjamóttökur víðast þar sem hann kemur. Það hve árangursríkt og markvisst starf hans er hefur vakið athygli annarra auðmanna og hefur til dæms fjárfestirinn frægi Warren Buffett ákveðið að láta auð sinn renna til Bill & Melinda Gates Foundation. Það er Buffett líkt að telja óþarft að byggja upp nýja stofnun einfaldlega til að halda nafni hans á lofti. Báðir hafa þeir sagt að þeir hyggist gefa 95% af auði sínum svo að þeir verða líklega ekki sakaðir um að gera þetta í skattahagræðingarskyni. Um leið hafa þeir hvatt aðra auðmenn til þátttöku í þróunarverkefnum.

Það hefur verið aðalstarf Bill Gates síðan 2006 að stýra Bill & Melinda Gates Foundation og verður starfið stöðugt umfangsmeira. Segja má að aðferðafræðin snúist um að bjarga sem flestum mannslífum á sem ódýrastan hátt. Með öðrum orðum; Gates reynir að nýta takmarkaða fjármuni til að ná hámarksárangri. Hann hefur einbeitt sér að dreifingu og þróun bóluefna, menntunarmálum og aðgerðum til að auka lífslíkur barna. Það síðast nefnda hefur einnig verið sérstakt áhugaefni Melindu konu hans sem lætur sig málefni kvenna miklu varða. Auk þess hefur Gates reynt að koma að skapandi lausnum sem geta nýst fátæku fólki til að vernda uppskeru og umhverfi betur.

Brauðmolahagfræði

Bill Gates hefur unnið með margvíslegum alþjóðlegum  stofnunum, svo sem Sameinuðu þjóðunum, UNICEF og Alþjóðabankanum. Þessar stofnanir sækjast nú eftir aðkomu hans, ekki síst vegna þess hve góðum árangri hann hefur náð. Gates hefur gefið um helming auðæfa sinna nú þegar og um leið byggt upp stofnun sem er fær um að koma að hjálpar- og þróunarstarfi um allan heim. Framlag hans hefur eitt og sér skipt sköpum við að hefta útbreiðslu lömunarveiki í heiminum. Þróunaraðstoð hans er umfangsmeiri en það sem flest þjóðríki gera og í mörgum tilvikum árangursríkari en haldið er úti sérstökum vef sem heldur utan um framlag Gates. Samkvæmt nýjustu talningu þar hefur hann bjargað 5.812.000 mannslífum og bætt líf og lífsskilyrði enn fleiri.

Þegar kemur að aðstoð og styrkveitingu auðmanna eða stórfyrirtækja er oft gripið til orða eins og brauðmolahagfræði eða auðmannaþjónkun. Nær sé að skattleggja þess aðila ríflega svo að fulltrúar almannavaldsins geti sjálfir útdeilt brauðmolum, en vitaskuld í nafni almennings. Starf Bill Gates sýnir hins vegar að meira að segja á þessu sviði er einstaklingsframtakið miklu líklegra til að nýta takmarkað fjármagn vel og ná árangri.