Í Morgunblaðinu í dag mátti lesa alvarlega frétt um ástand lífríkisins við Mývatn. Þar segir að Umhverfisstofnun muni í fyrsta sinn setja Mývatn og Laxá á rauðan lista yfir svæði í hættu, vegna ástandsins þar á síðasta ári. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins eru ástæðurnar einkum óvissa vegna áhrifa Bjarnarflagsvirkjunar, hnignun kúluskíts, ágangur ferðamanna og áhyggjur af frárennsli frá íbúðum og hótelum.
Þetta er að sjálfsögðu eitthvað til að hafa áhyggjur af en svipað ferli er í gangi með Þingvallavatn. Í hvorugu tilfelli hafa virkjanir eða stóriðja með málið að gera og þess vegna hafa svokallaðir náttúrverndarsinnar engan áhuga á málinu. Það að vera á móti stóriðju virðist þannig mikilvægara en að standa vörðu um merkustu náttúruminjar landsins. Það er heldur ekki traustvekjandi að hengja aftan við rauða spjald Mývatns að virkjun, sem ekki er einu sinni komin í framkvæmd, valdi þessum skaða. Það segir hugsanlega eitthvað um afstöðu starfsmanna Umhverfisstofnunar en ekkert um ástandið eins og það er núna.
Fréttin minnir á þá staðreynd að aukin ágangur, einkum ferðamanna, er að hafa áhrif á okkar merkilegustu vatnasvæði. Einnig skiptir auðvitað máli að náttúrufar tekur stöðugum breytingum og þéttleiki byggðar og ágangur landsmanna hefur þar óhjákvæmilega áhrif. Ekkert af þessu virðist fá athygli þeirra sem eru með náttúruvernd á vörunum alla daga. Ef ekki er hægt að kenna stóriðjunni um þá er er ekki ástæða til að hefja upp umræðu. Skemmst er að minnast þess ramakveins sem var rekið upp fyrir skömmu þegar einhverjir töldu Lagarfljótið gruggugra en það hafði verið áður. Auðvitað er það þannig að náttúruverndarsinnar eins og aðrir verða að vera sjálfum sér samkvæmir svo þeir séu teknir alvarlega.