c

Pistlar:

6. maí 2013 kl. 10:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Woodstock kapítalistanna

Tvennt vaki athygli í heimi kapítalista um helgina. Annars vegar átti Hannes Hólmsteinn Gissurarson endurkomu í Silfur Egils og hins vegar hélt bandaríska fjárfestingafélagi Berkshire Hathaway aðalfund sinn í Omaha í Nebraska í Bandaríkjunum. Þar mættu 35 þúsund manns til að hitta átrúnaðargoð sitt, fjárfestirinn Warren Buffett, sem kallar aðalfundi gjarnan Woodstock kapítalistana. Aðalfundurinn hefur verið haldinn með þessum hætti síðan 1982 en á fyrsta fundinn mættu aðeins 15 manns. Í dag er fundurinn líklega eina skiptið á árinu sem Bill Gates getur gengið óáreittur um sali.

Warren Buffett hefur um árabil verið goðsögn meðal fjárfesta en skarpskyggni hans í fjármálum gerir það að verkum að hann er gjarnan kallaður véfréttin frá Omaha. Á fundinum er hann meðhöndlaður eins og rokkstjarna sem er reyndar í andstöðu við alþýðlega framkomu hans. Hann taldi það heldur ekki eftir sér að stíga á svið með Jon Bon Jovi og syngja dúett með honum fyrir gestina. Berkshire Hathaway er metið á um 270 milljarða Bandaríkjadala en félagið hefur fjárfest í ríflega 80 fyrirtækjum og eru vörur þessara félaga gjarnan áberandi á aðalfundum Berkshire. Buffett hefur látið hafa eftir sér að hann fjárfesti ekki í neinu sem hann skilur ekki sjálfur og því hefur hann gjarnan sneitt hjá tæknifyrirtækjum. Á tíma netbólunnar héldu menn að hann væri búinn að missa af lestinni en auðvitað skilaði hann afbragðsávöxtun árið sem netbólan sprakk. Buffett gerir góðlátlegt grín að aldri sínum og reyndar einnig helsta fjármálaráðgjafa sínum, hinum 89 ára gamla Charlie Munger. Miðað við Charlie er hinn 82 ára gamli Warren algert unglamb, eða svo segir hann sjálfur! En þó ekki sé neinn bilbug á þeim félögum að finna beinast einmitt helstu áhyggjur fjárfestanna að því hvað gerist eftir þeirra dag. Buffett hefur verið að undirbúa fyrirtækið undir það og meðal annars sett son sinn Howard í ábyrgðastöðu þó fjárfestar séu tortryggnir á að hann hafi erfitt snilli föðursins. Um leið hefur mátt sjá breytingu á fjárfestingastefnu Berkshire. Að hluta til kemur það af sjálfu sér. Stærð fyrirtækisins er með þeim hætti að það er nokkurn veginn sama hvar það hreyfir sig, viðskiptin eru risavaxinn. Buffett hefur alltaf haft tilhneigingu til að safna sjóðum og tekur helst ekki lán fyrir fjárfestingum. Þetta sást best í lausafjárkreppunni 2008 þegar Hank Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, bað hann að styðja við Lehman bankann. Verðhugmyndir Buffetts voru hins vegar þannig að stjórnendur Lehman vildu ekki selja og því fór sem fór. Buffett fjárfesti hins vegar í Goldman Sachs og sú fjárfesting virðist ætla að koma vel út.

Góður hagnaður gleður

Það gladdi fjárfesta að Berkshire Hathaway skilaði prýðilegum hagnaði á fyrsta ársfjórðungi og var hann 51% hærri en á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins nam 4,9 milljörðum dala eða 2.977 dölum á hlut, borið saman við 3,2 milljarðadala hagnað eða 1.966 dali á hlut fyrir ári. Félagið er sem fyrr vel í stakk búið til að fjárfesta í nýjum tækifærum.

En aftur að aðalfundinum. Buffett vill gjarnan hressilegar umræður og bauð því Doug Kass, stofnanda og forseta Seabreeze Partners Management fjárfestingafyrirtækisins, að mæta. Kass hefur lengi haft uppi efasemdir um verðlagningu Berkshire og ráðlagt skortsölu. Buffett gaf honum því færi á að koma og halda uppi gagnrýni. Af fréttum að dæma kom Buffett vel út úr því og Kass endurtók líka aðdáun sína á honum þó hann hafi ekki horfið frá skortstöðu sinni. Sagði Berkshire svo stórt að það eltist við fíla fremur en gasellur. Buffett tók fram að hann hygðist ekki fara að dæmi Kass og skortselja í Berkshire! Hann tók hins vegar undir að ólíklegt væri að Berkshire myndi vaxa með sama hætti í framtíðinni.

Að venju þyrstir fjárfesta í að spyrja Buffett um allt milli himins og jarðar þegar hann situr fyrir svörum. Þar kom meðal annars fram að Buffett telur að bankarnir verði ekki ábyrgir fyrir næstu bólu!