„Seðlabanki Íslands mun aldrei nokkurn tímann halda því fram að ríkissjóður Íslands geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Af hverju er þá verið að spyrja hann?" Þannig spyr Örvar Arnarsson, viðskiptafræðingur, í vorhefti Þjóðmála 2011. Í grein sinni var Örvar að velta fyrir sér ófullkomleika opinberra eftirlitsaðila, sjálfsagt haft í huga það sem menn hafa haft áhyggjur af síðan á tímum Rómverja. Þá var spurt: Quis custodiet ipsos custodes? (Hver á að gæta varðanna?)
Nú spyrja menn; hver á að gæta Seðlabankans? Sérstaklega þegar hann virðist nokkurn veginn haga seglum eftir vindi. Hvað er átt við með því? Jú, er ekki einkennilegt að Seðlabankinn, þvert á orð Örvars hér að framan, skuli nú loksins vara við greiðsluhæfi íslenska þjóðarbúsins. Og er það ekki sami Seðlabanki sem í tvígang taldi að Íslendingar gætu vel tekið á sig klyfjar Icesave-samninga? Og samt verið greiðsluhæfur! Skoðum þetta nánar:
Í formálsorðum Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra að skýrslunni Fjármálastöðuleiki 2013/1 segir:
„Í sem stystu máli felst vandinn í því að miðað við óbreytt gengi nægir fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána. Því mun íslenska þjóðarbúið ekki skapa nægan gjaldeyri að óbreyttu gengi krónunnar til að losa út krónueignir búa gömlu bankanna til erlendra kröfuhafa og það jafnvel þótt þær yrðu verðlagðar mjög lágt í erlendum gjaldmiðlum."
Þetta er hið nýja andlit Seðlabankans. Margir hafa fagnað því að hann tali skýrt, nú þegar hverju mannsbarni má vera ljóst að hagstærðir ganga ekki upp. Friðrik Jónsson hagfræðingur skrifar af þessu tilefni á Eyjuna:
„Það hefur í raun verið viðvarandi vandi allt síðastliðið kjörtímabil að ríkt hefur ákveðin afneitun um raunverulegt umfang þess efnahagsvanda sem við er að eiga. Gjaldeyrishöftin blekktu mönnum sýn og lengi vel leiddu menn vandann hjá sér eða vanmátu hann stórlega. Hér var bæði við stjórnvöld, Seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að sakast. Í flestum efnahagsskýrslum var hin svokallaða snjóhengja sett í sviga og meðhöndluð sem seinni tíma vandamál. Það mætti náttúrulega ekki dragast of lengi, en aðrir hlutir yrðu að ganga fyrir. Lengi vel voru gjaldeyrishöftin líka allt of götótt."
Af hverju skyldi þessi afneitun hafa verið. Gæti það haft eitthvað með þjónkun Seðlabankans við fráfarandi ríkisstjórn að gera? Skoðum aðrar álitsgerðir Seðlabankans, þar sem kvað við annan tón en í nýjustu stöðugleikaskýrslu (sem ætti auðvitað að heita óstöðugleikaskýrsla!). 15. júní 2009, ríflega mánuði eftir að Svavars-samningurinn vegna Icesave-málsins var undirritaður, skilaði Seðlabankinn inn álitsgerð þar sem sagði:
„Ljóst er að hagstjórnarákvarðanir næstu ára munu ákvarða í hvaða mæli Icesave-skuldbindingarnar verða byrði á komandi kynslóðum. Ef áhersla verður lögð á hagvöxt þurfa efnahagsleg áföll að dynja yï¬r til að Icesave-skuldbindingar einar og sér leiði til þess að ríkissjóður geti ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar."
Á þessum tíma mat Seðlabankinn það svo að ríkissjóður væri að taka á sig a.m.k. 340 milljarða króna skuldbindingu vegna Icesave-samningsins. Núvirt var þetta um 17% af vergri landsframleiðslu. Seðlabankinn taldi á þeim tíma að ríkissjóður þyldi það án þess að fjármálastöðugleikanum væri ógnað. Og til að sýna að bankanum var full alvara þá endurtók hann þetta í minnisblaði, sem hagfræðisvið og alþjóða- og markaðssvið Seðlabankans sendi frá sér um Icesave-skuldbindingar og erlenda stöðu þann 14. nóvember 2009. Þar segir Seðlabankinn um áhrif jákvæðs viðskiptajöfnuðar:
„Ef afgangur er á viðskiptajöfnuði þá er sparnaður umfram fjárfestingu í landinu sem leiðir til þess að eignastaða þess gagnvart útlöndum batnar. Ef áætlunin um undirliggjandi viðskiptajöfnuð í töflu 3 gengur eftir þá mun afgangur á viðskiptajöfnuði gefa færi á því að greiða niður erlendar skuldir um sem nemur rúmlega fimmtungi landsframleiðslu ársins 2009."
Þegar kom að því að leggja mat á Buchheit-samninginn, sem hefði kostað ríkissjóð um 4,3% af vergri landsframleiðslu (núvirt 3,1%), þá kvað við svipaðan tón hjá Seðlabankanum:
„Að mati Seðlabanka Íslands er ljóst að nýir Icesave-samningar eru töluvert hagstæðari en fyrri samningar. Núvirði skuldbindingar íslenska ríkisins vegna samkomulagsins er að mati bankans um 69 milljarðar kr. eða sem nemur 4,3% af áætlaðri landsframleiðslu ársins 2010. Þrátt fyrir að hér sé um miklar fjárhæðir að ræða og óvissa nokkur um framtíðina er það mat bankans að væntanlega muni margt vinnast með samkomulaginu, ekki síst bætt aðgengi að alþjóðlegum fjármálamarkaði og hraðari endurreisn atvinnulífsins. Að því viðbættu að niðurstaða EFTA-dómstólsins í hugsanlegum málaferlum vegna Icesave-deilunnar gæti orðið Íslandi í óhag telur Seðlabanki Íslands sterk rök hníga til þess að leysa beri deiluna um uppgjör Icesave-reikninga Landsbanka Íslands með þeim hætti sem nú er lagt til að gert verði."
Þegar alls þessa er gætt, er ekki nema von að menn setji sig í ákveðnar stellingar þegar Seðlabankinn sýnir landsmönnum nýtt andlit.