Í september árið 2000 hétu fulltrúar 147 ríkisstjórna að stuðla að því að fátækt í heiminum myndi minnka um helming fram til ársins 2015. Þetta var eitt af þeim mörgu markmiðum sem sett voru fram undir formerkjum aldamótamarkmiða (Millennium Development Goals - MDGs) Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórnir um allan heim hétu því þá að berjast fyrir menntun og eyða hungri, fátækt og mannskæðum sjúkdómum fyrir árið 2015. Ýmsum þeirra markmiða sem þar voru sett hefur ekki verið náð. Svo sem að draga úr dauða sængurkvenna um ¾ og ungbarnadauða um tvo þriðju. Því miður eru ekki horfur á að þessum markmiðum verði náð í bráð. Betur gekk hins vegar með fátækt eins og komið hefur fram í undanförnum pistlum. Það sem meira er, það markmið náðist fimm árum fyrr en ætlað var. Samkvæmt heimasíðu átaksins tókst 38 löndum að ná markmiðum um útrýmingu hungurs fyrr en ætlað var. Því ber að sjálfsögðu að fagna sérstaklega.
Hin miklar breyting sem varð á örbirgð í heiminum á milli áranna 1990 og 2010 orsakaðist fyrst og fremst af auknum hagvexti. Á þessu árabili jókst verg landsframleiðsla (Gross national product, GNP) þróunarlandanna um 6% á ári sem er 1,5% meiri aukning en sást á árabilinu 1960 til 1990. Þetta gerðist þrátt fyrir að bankakrísan 2008-2009 hefði fallið inn þessa tímaramma. Þau svæði sem höfðu mesta örbirgð vaxa mest. Hagvöxtur var að jafnaði um 8% á ári í Austur-Asíu, 7% í Suður-Asíu, 5% í Afríku. Gróft viðmið segir að hvert prósent í hagvexti dragi úr fátækt sem nemur 1,7%.
Neyslustökk
En hagvöxtur og aukning þjóðarframleiðslu er ekki endilega besta leiðin til þess að mæla aukin lífsgæði og minni fátækt. Oftast er betra að horfa til neyslu heimila eins og það birtist í neyslukönnunum. Martin Ravallion, sem þar til nýlega stýrði rannsóknum hjá Alþjóðabankanum, gerði 900 slíkar kannanir í 125 þróunarlöndum. Útreikningar hans sýndu að neysla hafði aukist um sem svaraði 2% á árið síðan 1980. Umtalsverð aukning varð síðan um og uppúr árinu 2000. Fram að því var árlegur vöxtur neyslu um 0,9% en eftir það stökk hann upp í 4,3%. Þessi breyting var vísbending um að eitthvað hefði gerst sem studdi við vöxt í þróunarlöndunum þó menn séu ekki sammála um hvað nákvæmlega það var.
Vöxtur einn og sér dugar ekki til þessa að draga úr fátækt. Hvernig tekjurnar dreifast skiptir líka máli eða aukin jöfnuður. Í nýlegri úttekt breska viðskiptatímaritsins The Economist kemur fram að rannsóknir sýni að tvo þriðju minnkandi fátæktar megi skýra með hagvexti en ein þriðji skýrist af auknum jöfnuði. Í löndum þar sem meiri jöfnuður ríkir minnkar fátækt hraðar og meira en í öðrum. Rannsóknir Ravallion sýna að 1% aukning í tekjum dregur 0,6% úr fátækt í ójöfnustu ríkjunum en hlutfallið er hins vegar 4,3% í þeim sem búa við mestan jöfnuð.
Getur Bangladess útrýmt fátækt?
Sem gefur að skilja gengur misjafnlega vel að útrýma fátækt eftir löndum og enn verðum við að slá varnagla þegar talað er um að útrýma fátækt. Hér er átt við hina skilgreindu algeru örbirgð (exstreme poverty) sem er fólk sem reynir að komast af á 1,25 Bandaríkjadölum á sólarhring. Samkvæmt skýrslu sem unnin var af Oxford háskóla, Glopal MDI 2013, eru þjóðir eins og Rúanda, Nepal og Bangladess líklegar til að geta útrýmt fátækt á næstu tuttugu árum. Aðrar þjóðir þar sem dregur hratt úr fátækt eru Gana, Tansanía, Kambódía og Bólivía.
Rannsóknin leiddi í ljós að 1,6 milljarður manna býr við margþætta fátækt. Fátækasti milljarðurinn býr í yfir 100 löndum. Flestir þeirra búa í Suður-Asíu, þar af 40% á Indlandi. Í Afríku sunnan Sahara búa 33% þeirra sárafátækustu. Skýrslan sýnir líka að 9,5% af þessum milljarði býr í þróuðum ríkjum, í því sem myndi falla undir efri hluta meðaltekjuríkja. Það gefur okkur tilefni til að skoða nánar hvaða mælikvarðar eru notaðir þegar kemur að því að skilgreina fátækt.