9. ágúst 2014 kl. 12:12
Einhverra hluta vegna þykir mörgum gaman að raða öllu mögulegu og ómögulegu upp flokka og raðir. Um þetta hefur skapast talsverð iðja hjá mörgum og ein angi þeirrar iðju gengur út á að raða þjóðlöndum í hópa. Væntanlega til fróðleiks og skemmtunar og jafnvel sumum til hvatningar. Oft ratar það í fréttir hvar Ísland stendur í þessum samanburði þó vissulega megi gera athugasemdir við aðferðafræði og áreiðanleika slíkra samantekta. Oftast nær virðist Ísland koma vel út í slíkum samanburðir og deilir þar velgengni með hinum norðurlöndunum. Norræna módelið virðist njóta tiltrúar þegar kemur að mannréttindum og velferð íbúa. Annað mengi sem einnig gengur vel - og við erum hluti af - er Norður-Evrópa. Þær þjóðir virðast næst á eftir Norðurlandaþjóðunum og stela stundum sætum af þeim. Í einum málaflokki virðist Ísland standa sig einstaklega vel en það er í jafnréttismálum.
Við skulum líta á nokkur dæmi um stöðu Íslands sem eru sett hér fram til fróðleiks og gamans. Sem gefur að skilja er þetta ekki tæmandi úttekt en hún gefur að mestu röðun Íslands eins og hún er í dag og er hér stuðst við upplýsingar sem hafa birst í íslenskum fjölmiðlum undanfarin misseri:
- Ef við byrjum á því hvar best er að búa í heiminum. Þar er Ísland í 3. sæti en Norðurlöndin raða sér í 10 efstu sætin. Um er að ræða svokallaðan Social Progress Index sem settur er saman af teymi hagfræðinga undir stjórn Michael Porter, prófessors í hagfræði við Harvard háskóla. Við uppröðun á listann er horft framhjá hefðbundnum mælikvörðum hagfræðinnar á borð við hagvöxt og þess í stað litið til lífsgæða og tækifæra til velgengni. Styðst listinn við opinber gögn frá alþjóðastofnunum og er meðal annars litið til heilsufars, mannréttinda og menntunar, auk annarra þátta. Listinn var fyrst settur saman í fyrra og samanstóð af 50 ríkjum, en hann hefur nú verið útvíkkaður og telur nú 132 ríki. Frá þessu var greint í mars 2014.
- Ísland er sautjánda besta land í heimi ef miðað
er við hve mikið Íslendingar hafa lagt
af mörkum til framþróunar mannkyns og
jarðar. Þetta eru niðurstöður
rannsóknar sem birt var í júní 2014 en hún nýtir 35 ólíkar mælingar frá
Alþjóðabankanum, Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðlegum stofnunum til að raða
löndum heims upp í lista. Þetta eru niðurstöðvar rannsóknar sem Simon Anholt,
ráðgjafi í stefnumótun og hugmyndasmiður á bakvið vísitölu góðra landa, hefur
unnið. Anholt hefur komið hingað til lands og haldið erindi á ársfundi Viðskiptaráðs og verður að segjast eins og er að aðferðafræði hans er umdeild. Að sögn Anholts er ætlunin að
breyta því hvernig lönd stunda viðskipti með því að hvetja fólk til að hugsa um
hnattrænar afleiðingar gjörða sinna frekar en eiginhagsmuni. Mælingum var raðað
í sjö flokka og var staða Íslands í þeim mjög mismunandi. Ísland var til að
mynda í fyrsta sæti í flokknum „Pláneta og loftslag", en í 101. sæti í flokknum
„Velmegun og jafnrétti" er þar var til dæmis tekið tillit til mælinga á fjárhæð
þróunaraðstoðar, þess hve opið hagkerfið er og þess hve mikið Íslendingar
fjárfesta erlendis. Um þetta má fræðast nánar hér.
-
Ísland mælist friðsælasta land í heimi, þriðja skiptið í röð, í samantekt
Hagfræði- og friðarstofnunarinnar (Institute
for Economics and Peace) sem birt var í í júní 2014. Í könnuninni kom jafnframt fram að heimurinn hefur orðið talsvert hættulegri á hverju ári síðan
2008. Í samantektinni er meðal annars litið til þess að á Íslandi er
tiltölulega lág tíðni morða og ofbeldisglæpa, lítill hluti þjóðarinnar er
fangelsaður og aðgengi að vopnum er ekki gott.
Frændur okkar Danir eru í öðru sæti listans en fjögur af fimm efstu
löndunum eru í Evrópu. Neðsta sæti listans af 162 skipar Sýrland en þar stendur
enn yfir borgarastyrjöld sem kostað hefur á annað hundrað þúsund manns lífið.
-
The Economist
Intelligence Unit birti í júní 2014 lista yfir stöðu lýðræðis í ríkjum heimsins og er Ísland í þriðja sæti listans
með 9,65 stig af 10 mögulegum. Noregur er í efsta sæti með 9,93 stig, Svíþjóð í
öðru sæti með 9,73 stig og Danmörk í fjórða sæti með 9,38 stig. Til að meta
stöðu lýðræðisins er byggt á 60 spurningum í fimm flokkum en þeir eru framkvæmd
kosninga, þátttaka í stjórnmálum, stjórnmálalíf, stjórnarhættir
ríkisstjórnarinnar og almenn mannréttindi. Sumar spurningar vega meira en aðrar
í matinu. Meðal þeirra mikilvægustu eru: Eru kosningar frjálsar og heiðarlegar?
Eru kjósendur öruggir þegar þeir fara á kjörstað? Hafa erlend ríki vald yfir
ríkisstjórninni? Geta opinberir starfsmenn framfylgt opinberum stefnum?
-
Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA- Europe), birtu nýlega úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu. Samkvæmt
úttektinni hlýtur Ísland 64 stig af 100 möguleikum og er í níunda sæti í Evrópu,
á pari við Svíþjóð og Frakkland. Réttarstaða hinsegin fólks á Íslandi hefur
tekið framförum frá síðustu mælingu en þá hlaut Ísland 56 stig og var í tíunda
sæti. Staða hinsegin fólks í Evrópu er mjög misjöfn og fær Bretland hæstu
einkunnina, 82 en Rússland fær sex stig. Þessar upplýsingar eru frá því í maí 2014.
-
Atvinnuþátttaka
kvenna er mest á Íslandi og berum við af í alþjóðlegum samanburði að því er kemur fram í samantekt Samtaka atvinnulífsins sem greint var frá í maí 2014.
Þannig er atvinnuþátttaka kvenna 40% meiri hér á landi en að meðaltali á
evrusvæðinu. Mikil atvinnuþátttaka kvenna stendur undir góðum lífskjörum
þjóðarinnar, um það þarf varla að deila. Ef atvinnuþátttaka kvenna væri sambærileg við það sem gerist á
evrusvæðinu væri landsframleiðsla Íslands 15-20% minni og lífskjör þar af leiðandi verri.
-
Ísland er í fyrsta sæti þegar mat er lagt á jafnrétti kynja í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic
Forum) sem tekur til 136 landa. Matið byggist á þáttum eins og
stjórnmálaþátttöku, þátttöku í atvinnulífinu og efnahaglegum jöfnuði og
tækifærum til þess að njóta menntunar og heilbrigðisþjónustu. Næst á eftir
Íslandi koma Finnland, Noregur og Svíþjóð. Í niðurstöðum úttektarinnar segir að
Norðurlandaþjóðirnar fjórar sem raða sér í efstu sætin hafi náð að brúa um
81%-87% af því bili sem mismunar kynjunum. Að meðaltali er mismunun kynja
minnst hjá löndunum sem úttektin tekur til þegar mat er lagt á þætti sem snúa
að heilsufari en mest þegar litið er til stjórnmálaþátttöku. Þessar upplýsingar eru frá því í október 2013.
-
Samkvæmt úttekt bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes eru Íslendingar í 9. sæti á lista yfir hamingjusömustu þjóðir heims. Fram kemur í greininni að lág
íbúðatala geti útskýrt hvers vegna landið var í fyrsta sæti fyrir þá sem töldu
sig geta reitt sig á stuðning vina og nágranna. Frá þessu var greint í júní 2014.
-
Ísland er í 5. sæti fyrir lönd með heilbrigðustu lífsgæði samkvæmt sömu úttekt Forbes.
-
Ísland er í fyrsta sæti af 72 ríkjum samkvæmt svokallaðri umhverfis- og kynjavísitölu
(Environment and Gender Index) sem
kynnt var á 19. aðildarríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Varsjá.
Með vísitölunni er lagt mat á frammistöðu ríkja varðandi stöðu kvenna og
kynjasamþættingu í stefnumótun í umhverfismálum. Holland er í öðru sæti listans
og Noregur í því þriðja en Kongó í því neðsta. Þetta er í fyrsta sinn sem
listinn er gefinn út en að baki honum er Alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN -
International Union for Conservation of Nature and Natural Resources). Frá þessu var greint í nóvember
2013 eins og sjá má hér.
-
Ísland er í 6. sæti yfir frelsi fjölmiðla í heiminum samkvæmt Freedom House eins og greint var frá í maí 2014.
-
Ísland er í fyrsta sæti yfir hlutfall starfa við rannsóknir. Eurostat, tölfræðistofnun ESB, hefur
birt rannsókn á hlutfalli þeirra sem starfa við rannsóknir í aðildarríkjum ESB,
en einnig eru skoðuð nokkur fleiri ríki, svo sem Ísland, Noregur, Tyrkland,
Rússland og Japan. Niðurstaðan er sú að hlutfallið er hæst á Íslandi, 2,24% af
öllu starfandi fólki á íslenskum vinnumarkaði starfa við rannsóknir. Næst hæst
er hlutfallið í Finnlandi, 2,09%. Meðaltalið innan EES er 0,86%. Ef einungis er
skoðaður einkageirinn er Ísland í þriðja sæti, með 0,81%, en Finnland í efsta
sæti með 1,13% og Lúxemborg í öðru sæti með 0,86%. Meðalatalið innan EES er
0,35%, ef eingöngu er horft til einkageirans.
-
Ísland í þriðja sæti í evrópskri rannsókn á árangri af heilbrigðisstefnu. Í
samanburðarrannsókn þessari á árangri af heilbrigðisstefnu 43 Evrópuríkja sem greint
var frá í apríl 2013 lenti Ísland í
þriðja efsta sæti. Fjallað er um rannsóknina í grein sem birtist í European Journal of Public Health,
tímariti evrópsku lýðheilsusamtakanna EUPHA. Í rannsókninni var borin saman
stefna ríkjanna á tíu mismunandi sviðum, þ.e. varðandi tóbaksvarnir,
áfengisvarnir, matvæli og næringu, frjósemi, meðgöngu og fæðingar, heilsufar
barna, smitsjúkdóma, greiningu og meðferð háþrýstings, skimun fyrir
krabbameinum, umferðaröryggi og loftmengun. Einnig voru rannsakaðir
stjórnmálalegir, efnahagslegir og félagslegir áhrifaþættir heilbrigðisstefnu
ríkjanna. Til að meta frammistöðu ríkjanna voru þróaðir 27 mælikvarðar um ferli
og árangur á þessum sviðum og voru þessir mælikvarðar síðan skoðaðir með
hliðsjón af sex bakgrunnsþáttum, þ.á m. vergum þjóðartekjum, skilvirkni
stjórnsýslu og pólitísku landslagi í ríkjunum. Þau gögn sem voru notuð í
rannsókninni eru frá árinu 2008 eða sem næst því ári.
-
Íslendingar eru í öðru sæti hamingjusömustu þjóða Evrópu, á eftir Dönum. Þetta kom fram á
Evrópuráðstefnu um jákvæða sálfræði sem haldin var í Amsterdam í júlí 2014. Um er að ræða nýjar tölur úr rannsókninni European Social Survey 2012-2013 sem sýndi að hamingjustig
Íslendinga hefði aftur náð yfir 8 á skalanum 0-10.
-
Árið 2012 var ungbarnadauði á Íslandi 1,1 af 1.000 lifandi fæddum samkvæmt tölum
Hagstofunnar. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn lágur og hér árið 2012.
Næstir Íslandi komu Slóvenar en þar var ungbarnadauði 1,6 af 1.000 lifandi
fæddum. Annars staðar á Norðurlöndum var ungbarnadauði á bilinu 2,4-3,4.
Heildarmeðaltal Evrópusambandsríkja ásamt EES þjóðum var 3,8 fyrir árið 2012.
-
Íslenskir karlar eru langlífastir í Evrópu 2012 samkvæmt samantekt Hagstofunnar sem birtist í júlí
2014. Þar kemur fram að lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum. Frá árinu
2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd. Árið 2012 var
meðalævilengd íslenskra karla 81,6 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið meðal
Evrópuþjóða það ár. Næst lengst geta karlar búist við að lifa að jafnaði við
fæðingu í Sviss (80,6) og Svíþjóð (79,9). Styst er meðalævilengd evrópskra
karla í Litháen (68,4), Lettlandi (68,9) og Búlgaríu (70,9 ár).
-
Íslenskar konur í sjötta sæti samkvæmt sömu samantekt. Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hæstar í
heiminum en þær hafa dregist nokkuð afturúr stallsystrum sínum í Evrópu á
þessari öld. Ástæðan fyrir því er hraðari aukning ævilengdar í nokkrum Evrópulöndum.
Árið 2012 var meðalævilengd íslenskra kvenna 84,3 ár og skipuðu þær sjötta
sætið meðal Evrópuþjóða. Elstar evrópskra kvenna verða konur á Spáni (85,5 ár),
Frakklandi (85,4 ár) og Liechtenstein (85,2 ár). Meðalævilend evrópskra kvenna
er styst í Makedóníu (76,9 ár), Serbíu (77,5 ár) og Búlgaríu (77,9 ár).
-
Ísland er í áttunda sæti yfir stöðugustu ríki heims samkvæmt listanum
Fragile States Index fyrir árið 2014 en frá því var greint í júlí síðastliðnum.
Listinn, sem birtur hefur verið tíu sinnum, gefur ákveðna mynd af því hversu
brothætt eða stöðug ríki heimsins eru. Listinn byggir á mörg þúsund greinum og
skýrslum um ríkin 178. Ríkjunum eru gefnar einkunnir í nokkrum flokkum, svosem
fátækt, mannréttindi, lögmæti stjórnvalda, utanaðankomandi afskipti og fleira.
Brothættustu ríkin samkvæmt listanum eru Suður-Súdan, Sómalía,
Mið-Afríkulýðveldið, Kongó og Súdan. Finnland er hins vegar stöðugasta ríkið. Hin Norðurlöndin; Svíþjóð, Danmörk og Noregur koma þar á eftir og virðast heldur stöðugari en Ísland. Hugsanlega eru það eftirköst Búsáhaldabyltingarinnar sem valda því.
Sem gefur að skilja vantar hér margvíslegan samanburð - sérstaklega á sviði efnahagslegrar frammistöðu - enda ekki um tæmandi samantekt að ræða. Það bíður betri tíma.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.