c

Pistlar:

17. september 2014 kl. 21:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rosling og hið sanna ástand heimsins

Fyrirlestur Hans Rosling í Hörpunni á mánudaginn var einstaklega áhugaverð upplifun. Rosling hefur ekki beinlínis útlit poppstjörnu og enska hans er með þessari hörðu skandinavísku framsögn sem margir hafa gaman af. En upplýsingarnar, framsetningin og persónutöfrarnir vógu þetta allt upp. Rosling hélt salnum föngnum í einn og hálfan tíma og meira að segja uppteknustu menn sátu rólegir. Að lokum varð að stoppa fyrirspurnir þegar fundarmenn vildu augljóslega meiri upplýsingar, reyndar eftir að Rosling hafði hvatt fundarmenn til að efast - meira að segja um það sem kom fram í fyrirlestrinum. Sannur vísindahyggjumaður þar á ferð. 

Það var félagið Afríka 20:20, Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Landlæknisembættið sem stóðu fyrir komu Rosling en hann tók ekkert fyrir, sagði að fjármögnun hans biði upp á slíkt, meðal annars vegna þess að hann getur rukkað ,,svívirðilega" háar upphæðir þegar hann heldur fyrirlestra fyrir fjármálastofnanir. 

Um bakgrunn Hans Rosling er það að segja að hann er læknir, prófessor við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð í alþjóðaheilbrigðisvísindum og hefur vakið heimsathygli á síðustu árum fyrir framsetningu sína á tölfræðilegum gögnum. Hann hefur skapað nýja nálgun og aðferðarfræði þegar kemur að meðhöndlun gagna um lýðfræðileg málefni og búið til forritið Gapminder sem hann dreifir með aðstoð Google. Sjálfsagt þekkja flestir Rosling af fyrirlestrum hans á TED (Technology, Entertainment & Design) en í þessum pistlum hefur verið minnst á hann nokkru sinnum. 

rosling_hans_2

Villandi heimsmynd 

Það sem Rosling afhjúpar öðru fremur er hve villandi heimsmynd almennings er. Það gerir hann meðal annars með því að láta gesti á fyrirlestrum sínum svara til þess að gera einföldum spurningum. Það gera þeir í upphafi fyrirlestrarins með litlu tæki. Rosling tekur síðan svörin, vinnur úr þeim samstundis og fléttar þeim inn í fyrirlesturinn. Með því að sýna niðurstöður gesta í samanburði við aðra svarhópa fást upplýsingar um þekkingu fólks. Þar kom í ljós að íslenska þýðið (gestir í Hörpu) var á líku róli og svarhópar í Svíþjóð og Noregi. Það er sameiginlegt öllum þessum vel upplýstu skandinavísku löndum að heimsmyndin er dökk. Þegar við erum spurð um mannfjöldaþróun, heilsufar, efnahagsástand eða samfélagsþróun þá höldum við undantekningarlaust að ástandið sé miklu verra en það er. Og væntanlega er það einhverjum áminning að ,,illa upplýstir" Bandaríkjamenn virtust hafa talsvert heilbrigðari sýn á ástand mála heldur en ,,upplýstir" Skandínavar! Sem dæmi um þekkingarblekkingu fólks þá virðist það telja að ástandið sunnan Sahara sé mun verra en það er, mannfjöldaþróunin skelfileg og misskipting auðs sé óleysanlegt vandamál. Rosling bendir á allt aðra þróun þegar hann greinir lýðfræðileg gögn. Ekki þar fyrir, nóg eru vandamálin og Rosling var sjálfur nýkominn frá svæðum þar sem ebólu-faraldurinn geisar. Grimm áminning um að menn verða að halda vöku sinni. En fræðsla Rosling er líka áminning um að aðstoð í hvaða formi sem er skiptir máli, það er árangur af slíku starfi enda hefur hann unnið náið með alþjóðlegum og einkareknum hjálparstofnunum.  Rosling leggur líka mikla áherslu á mikilvægi hins frjálsa markaðar sem tækis til að hjálpa þjóðum út úr fátækt og ekki var annað að heyra en að hann teldi að einkarekið hjálparstarf væri árangursríkara en hið opinbera. Eins og gert hefur verið hér í pistlum gat hann framtaks þeirra Bill og Melindu Gates (Bill & Melinda Gates Foundation) að góðu einu enda unnið mikið með þeim. 

En af hverju er það svo að  heimsmyndin er svona dökk. Hans Rosling benti á fjölmiðla. Undir það er hægt að taka, hin eilífa leit að hinu sérstaka og því sem hefur farið úrskeiðs gerir það að verkum að endurvarpið af veruleikanum verður bjagað. Um það má skrifa langa pistla en verður ekki gert hér. En ástæða er til að hvetja þá sem ekki komust í Hörpuna til að skoða fyrirlestra Rosling á TED.  Þar má meira að segja sjá hann gleypa sverð en hann á það til ef hann er í stuði! 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.