c

Pistlar:

31. október 2014 kl. 17:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ridley og Rosling - tilbrigði við batnandi heim

,,Þessi bók er um hinar hröðu, samfelldu og linnulausu breytingar sem mannleg samfélög hafa tekið á sama tíma og samfélög annarra dýra hafa ekki breyst. Líffræðingi finnst þurfa að skýra þetta. Ég hef síðustu tvo áratugi skrifað fjórar bækur um hve líkur maðurinn er öðrum dýrum. Þessi bók er hins vegar um hve ólíkur hann er öðrum dýrum. Hvað gerir manninum kleift að umbylta sífellt lífi sínu á svo mikilfenglegan hátt?"

Þannig lýsir Matt Ridley tilurð bókar sinnar, Heimur batandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves), sem nú er komin út í íslenskri þýðingu hjá Almenna bókafélaginu. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna þá stýrir bjartsýnismaður penna. Ridley er óumdeilanlega bjartsýnismaður (optimisti) en kennir sig einnig við skynsemishyggju (rationalisma). Þetta eru ekki eins sjaldgæfir eiginleikar hjá fræðimanni og maður gæti haldið því hér var fyrir stuttu sænski læknirinn Hans Rosling sem gæti fallið í sama hóp. Boðskapur Rosling hefur verið til umræðu hér nokkru sinnum. Eftir að hafa hlustað á fyrirlestra hjá þeim báðum þá blasir við að þeir eru í mörgum tilvikum að horfa á sömu tölfræðigögn þegar þeir meta stöðu og horfur í heiminum. Báðum varð þeim tíðrætt um þá dökku mynd sem almennt er dregin upp af stöðu mála og hefur fengið viðurkenningu álitsgjafa og fjölmiðla. Þetta er mynd sem þeir ganga á hólm við.

Líklega verður þó Ridley að teljast umdeildari í nálgun sinni og þá kannski ekki síst vegna greiningar hans á ágæti erfðavísinda og þó ekki síst efasemda hans um hlýnun jarðar eða réttara sagt; efasemda um viðbrögð við hlýnun jarðar. Þar telur hann lækninguna verri en sjúkdóminn. Það er hins vegar ánægjulegt að lesa að það sé full ástæða til bjartsýni um framtíð mannkyns, sé rétt á málum haldið. Rödd Ridleys er þar kærkomin tilbreyting frá öllu svartagallsrausinu.

 

Víxlfrjóvgun hugmynda

Styrkur Matt Ridley er hve víða nálgun hann hefur á efni sitt. Hann nálgast það í senn sem vísindamaður og rithöfundur. Hann á auðvelt með að setja hluti í hugmyndasögulegt samhengi eins og birtist í þessum orðum hans:

,,Væri menning það eitt að tileinka sér siðvenjur annarra myndi hún fljótt staðna. Til þess að menning geti hlaðið utan á sig verða hugmyndir að mætast og tímgast. „Víxlfrjóvgun hugmynda“ er tugga, en sú tugga er óvænt afar frjósöm." Hér vísar hann til þess hve gríðarleg breyting hefur orðið í hugmyndaheiminum þar sem hugmyndir geta mæst á örskotsstundu fyrir tilverknað netsins. Áður þurfti jafnvel að sigla milli landa til að koma slíkri víxlverkun af stað.

Heimur-batnandi-fer-LQ_large

Sú bók, sem hér birtist í íslenskri þýðingu, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves), kom fyrst út á ensku 2010. Hlaut Ridley fyrir hana Julian Simonverðlaunin, sem Competitive Enterprise Institute veitir, og Hayek-verðlaunin, sem Manhattan stofnunin veitir. Bill Gates, auðugasti maður heims, skrifaði um verkið í Wall Street Journal 26. nóvember 2010. Gates kvaðst þar vera sammála Ridley um tvær meginhugmyndir. Önnur væri, að auðlegð þjóðanna væri vegna viðskipta og verkaskiptingar. Hugmyndin væri ekki ný, en Ridley tækist vel að útfæra hana, og sum dæmi hans væru skemmtileg, og nyti hann þar þekkingar sinnar í dýrafræði. Hins vegar sagðist Gates vera ósammála Ridley um þróunaraðstoð til Afríku og hlýnun jarðar. Þróunaraðstoð gæti haft góð áhrif, ekki síst á heilsufar Afríkuþjóða, en við það drægi einnig úr fólksfjölgun. Einnig væri rétt að setja strangar reglur um losun gróðurhúsalofttegunda. Ridley svaraði Gates í Wall Street Journal daginn eftir. Hann kvað ágreining þeirra Gates helst um það, hvort líklegt væri til árangurs að verja miklum fjármunum í þróunaraðstoð og til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Hann væri sjálfur sannfærður um, að heppilegra væri að treysta sköpunarmætti mannsandans en embættismönnum inni á opinberum skrifstofum. Hér gæti verið freistandi að telja að báðir hafi þeir nokkuð til síns máls en hér á þessum vettvangi hefur í nokkur skipti verið sagt frá hinu merka starfi sem Gates hefur staðið fyrir og tekur hefðbundinni þróunaraðstoð fram.

Tengsl við Ísland

 

Í umsögn um höfundinn í bókinni kemur fram að Ridley er áhugasamur um útivist og stundar laxveiði í tómstundum. Hann hefur margsinnis veitt í íslenskum ám og nefnir raunar Ísland þrisvar í bók sinni, á 33. bls., þar sem hann minnist á afleiðingar bankahrunsins 2008, á 266. bls., þar sem hann hrósar kvótakerfinu í sjávarútvegi, og í eftirmála, þar sem hann bendir á, að gosið í Eyjafjallajökli 2010 kostaði ekki eitt einasta mannslíf. Í fyrirlestir í gær var hann einnig nestaður út með upplýsingar um íslenska kvótakerfið sem um margt falla að hugmyndum Ridleys um tengsl sjálfbærni og einkaréttar.


Ridley flutti hér fyrirlestur um rökin fyrir bjartsýni 27. júlí 2012 í boði Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, RNH, og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands. Var fyrirlesturinn fjölsóttur og vakti mikla athygli, en hann má skoða á Youtube. Hann var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Ridley hélt fyrirlestur hér í Reykjavík í gærkvöldi og var sérlega áheyrilegur.

Bækur Ridleys hafa komið út á fjölmörgum tungumálum og selst í nær milljón eintaka samtals og hægt er að taka undir að hann skrifar af fjöri, leikni og víðtækri vísindalegri þekkingu um mikilvæg, áleitin og brýn mál.

Útgefandi bókarinnar er Almenna bókafélagið. Það er Elín Guðmundsdóttir sem þýðir en ritstjóri íslensku útgáfunnar er dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Bókin er 360 bls.

 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.