c

Pistlar:

26. apríl 2015 kl. 21:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísland best í heimi - svona næstum því!

Þetta getur bara ekki verið, sagði fréttakonan unga í morgunútvarpi Bylgjunnar síðastliðin föstudag. Tilefni undrunar fréttakonunnar voru upplýsingar um að íslenska þjóðin hefði færst úr ní­unda sæti upp í annað sætið yfir ham­ingju­söm­ustu þjóðir heims. Þetta kemur fram í ár­legri sam­an­tekt Sustaina­ble Develop­ment Soluti­ons Network fyr­ir Sam­einuðu þjóðirn­ar. Afstaða fréttakonunnar breyttist fljótlega þegar þeir eldri og reyndari bentu henni á að um margt værum við Íslendingar öfundsverðir. Það þyrfti bara að horfa á hlutina í réttu samhengi. En undrun fréttakonunnar er að mörgu leyti skiljanlega enda vitnaði hún sjálf til þjóðfélagsumræðunnar eins og hún birtist okkur flestum, svona heldur á neikvæðari nótunum. Að Íslendingar væru hamingjusamir virtist á skjön við það sem margir skynja, sérstaklega þegar eyrað er lagt við klið samfélagsumræðunnar á netinu.

Fyrir rúmu hálfu ári gerði undirritaður það að gamni sínu að tína saman helstu samanburðaflokka sem birst höfðu þar sem Ísland var getið. Fyrirsögnin: Ísland - best í heimi? fór í taugarnar á sumum en var að mörgu leyti táknræn fyrir þá niðurstöðu sem fæst þegar staða Íslands er skoðuð í samanburðarhópum.

Ég ætla að leyfa mér að líta á nokkur dæmi um stöðu Íslands eins og hún hefur birst í erlendum samantektum frá því fyrrnefnd grein birtist í ágúst síðastliðnum. Þetta er sem fyrr sett fram til fróðleiks og gamans og ekki tæmandi á nokkurn hátt. Reynt er þó að geta sem flestra. Úttektin gefur að mestu röðun Íslands eins og hún er í dag og er hér stuðst við upplýsingar sem hafa birst í íslenskum fjölmiðlum undanfarin misseri:  

  • Sem áður er rétt að byrja á því hvar best er að búa í heiminum. Þar er Ísland í 4. sæti en Norðurlöndin raða sér sem áður í 10 efstu sætin. Um er að ræða svokallaðan Social Progress Index sem settur er saman af teymi hagfræðinga undir stjórn Michael Porter, prófessors í hagfræði við Harvard háskóla og birtist listinn nú í marsmánuði. Aðferðafræðin að baki Social Progress Index tekur öðrum fram en við uppröðun á honum er horft framhjá hefðbundnum mælikvörðum hagfræðinnar á borð við hagvöxt og þess í stað litið til almennra lífsgæða og tækifæra til velgengni. Styðst listinn við opinber gögn frá alþjóðastofnunum þar sem litið er til heilsufars, mannréttinda og menntunar, auk annarra þátta. Listinn var fyrst settur saman árið 2013 og samanstóð þá af 50 ríkjum, en hann hefur nú verið útvíkkaður og telur nú ríflega 130  ríki. Ástæða er til að fjalla sérstaklega um nálgun Social Progress Index við tækifæri.
  • En þegar kemur að heilsufarið virðumst við Íslendingar hafa af ýmsu að státa. Á degi heilbrigðisins (World Health Day), 7. apríl síðastliðin, birti þessi vefsíða skýrslu um heilsufar þar sem Ísland var í 6. sæti í heiminum. Þar virðist skipta mestu lífslíkur, ungbarnadauði, útgjöld til heilbrigðismála og atvinnuleysi.
  • Á Íslandi er talið best að veikjast í fríi, sé yfirhöfuð ástæða til að tala um best í því sambandi. Fyrirtækið In­ternati­onal SOS birti um svipað leyti kort yfir þá staði þar sem hættu­leg­ast er að veikj­ast. Þar kom fram að Svíþjóð, Bret­land og Ísland eru þau lönd þar sem minnst hætta fylg­ir veik­ind­um. Kortið er sér­stak­leg ætlað fyr­ir fólk á far­alds­fæti sem vill meta hvaða hætt­ur þarf að tak­ast á við í hverju landi fyr­ir sig. Til­gang­ur korts­ins er að aðstoða al­menn­ing við að átta sig á raunverulegri hættu við ferðalög.
  • Í febrúar birtu samtökin Blaðamenn án landamæra lista þar sem lagt er mat á skilyrði til blaðamennsku að teknu tilliti til ástands í landi hverju, þá einkum að teknu tilliti til tjáningarfrelsis. Ýmsir þættir geta haft þar áhrif á. Í fyrra var Ísland í 8. sæti en hrapar nú niður í það 21 og er ástandið talið ívið betra hér á landi en í Afríkuríkinu Ghana eins og sagði í frétt Vísis um málið.  Í skýrslu sem fylgir kemur fram að Ísland er meðal þeirra landa sem lækka hraðast og er talað um að ástæðan liggi í snarversnandi samskiptum fjölmiðla og stjórnmálamanna. Óhætt er að segja að þessi niðurstaða hafi komið á óvart enda lítið vitað um hvaða upplýsingar eða aðferðafræði lá að baki.
  • Þessi niðurstaða var í raun í hróplegri andstöðu við aðra skýrslu sem kom um sama leyti. Þar var Ísland talið öruggasta landið í heiminum. Þetta er mat stofnunarinnar Institu­te for Economics and Peace (IEP)  en frá þessu er greint á síðu Press Cave. Lág glæpatíðni hér á landi setur Ísland í efsta sæti. Sú staðreynd að enginn her er hér á landi gerir það einnig að verkum að Íslendingar og þeir sem búsettir eru hér á landi eru mjög öruggir og talað er um Ísland sem fallegan og góðan stað til að setjast að.
  • Í febrúar síðastliðnum komu fram upplýsingar um að staða eftirlaunaþega væri ágæt hér á landi. Þá var greint frá því að Ísland væri í fjórða sæti yfir þau lönd þar sem eft­ir­launaþegar hafa það best og vitnað til nýrrar könnunar. Ísland var í ell­efta sæti á síðasta ári og fer því upp um sjö sæti á milli ára. Sviss held­ur topp­sæt­inu, Nor­eg­ur er í öðru sæti og Ástr­al­ía í því þriðja. Þetta kom fram í um­fjöll­un á vef Washingt­on Post en það er Natix­is Global As­set Mana­gement sem tek­ur list­ann sam­an en alls eiga 150 þjóðir sæti á hon­um. Nokkr­ir þætt­ir voru skoðaðir sem voru síðan notaðir til að reikna út heild­ar­ein­kunn hverr­ar þjóðar, en út­reikn­ing­ur­inn bygg­ir á fjár­hags­stöðu fólks við starfs­lok, heilsu, lífs­gæði og efn­is­leg gæði.
  • Þetta tónar vel við aðra úttekt á íslenska lífeyriskerfinu sem einnig birtist í febrúar. Þar kom fram að kerfið stenst með ágætum stefnumarkandi tilmæli Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um uppbyggingu lífeyriskerfa. Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að Íslands skeri sig úr að því leyti að nærri 77% af lífeyrisgreiðslum muni koma úr sjóðum sem hafi safnað eignum til greiðslu lífeyris. Í öðrum OECD-ríkjum sé hlutfallið á bilinu 5 til 46%.
  • Það ætti ekki að koma okkur á óvart að Ísland er friðsælasta land í heimi. Samkvæmt rannsóknum Global Peace Index (GPI), hefur heimurinn orðið hættulegri með hverju árinu síðan 2008.  En sem betur fer eru til friðsöm lönd. Þar trónir Ísland í efsta sæti.
  • Netfrelsi var talið minnka víða um heim á síðasta ári. Bandaríska hugveitan Freedom House, sem gefur sig út fyrir að vakta þróun lýðræðis- og mannréttindamála í heiminum, gaf út skýrslu í desember síðastliðnum sem greindi frá því að frelsið hafi minnkað í 36 af 65 löndum sem könnuð voru. Fleiri eru fangelsaðir um þessar mundir en nokkru sinni fyrr fyrir það sem þeir láta frá sér fara á netinu, segir í skýrslunni. Í nítján löndum taldi Freedom House að ríkti  netfrelsi og var það niðurstaða þeirra að hvergi væri ástandið betra en á Íslandi og í Eistlandi. Minnst er netfrelsið í Íran.
  • Ímyndarsérfræðingar landsins gátu glaðst í nóvember síðastliðnum en þá upplýstist að Ísland hefði fært sig upp um sjö sæti og sit­ji í fimmtánda sæti á ár­leg­um lista fyr­ir­tæk­is­ins Fut­ur­eBrand yfir þau lönd sem þykja verðmæt­ustu vörumerk­in. Við gerð list­ans eru lönd­in met­in á sama hátt og fyr­ir­tæki og lagt er mat á viðhorf manna til þeirra. 75 lönd voru í úr­tak­inu. Í fyrsta sæti list­ans er Jap­an þá Sviss og Þýska­land í því þriðja.
  • Ísland reyndist vera í fyrsta sæti sjötta árið í röð í árlegri úttekt alþjóða efnahagsráðsins, World Economic Formum, á jafnrétti karla og kvenna sem kynnt var í október síðastliðnum. Mæld eru efnahagsleg og pólitísk völd, menntun og heilbrigðismál. Norðurlöndin raða sér í fimm efstu sætin, Finnland er í öðru sæti, Norðmenn eru í því þriðja, Svíar fjórðu og Danmörk rekur lestina af norrænu þjóðunum, er í fimmta sæti. Ísland er í fyrsta sæti menntunarflokknum - fær þar fullt hús stiga.  Hvað heilbrigðismál er Ísland sömuleiðis í fremstu röð - hársbreidd frá hæstu einkunn.   Ísland er í fyrsta sæti hvað pólitísk völd varðar þrátt fyrir að heildareinkunn landsins í þeim flokki hafi ekki verið lægri síðan í sömu könnun frá árinu 2009. Hvað efnahagsleg völd varðar er Ísland í sjöunda sæti og hefur aldrei staðið sig betur í þessari könnun World Econmic Forum í þeim flokki.  Ísland er í nítjánda sæti yfir launajafnrétti og tuttugasta og öðru sæti yfir konur í æðstu stöðum. Í þessum flokki hoppar Ísland upp um fimmtán sæti frá síðustu könnun þegar landið var í tuttugusta og öðru sæti - heildareinkunnin í þessum flokki hefur aldrei verið hærri.

Sem gefur að skilja vantar hér ýmsar samantektir en yfirleitt virðist okkar litla land koma ágætlega út í slíkum samanburði. 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.