c

Pistlar:

17. ágúst 2015 kl. 22:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vandi olíuútflutningsríkja

Það hefur löngum verið vinsæl kenning í stjórnmálafræði að með sameiginlegu átaki Bandaríkjanna og Saudi-Arabíu hafi tekist að halda olíuverði svo lágu í lok níunda áratugar síðustu aldar að Sovétríkin liðuðust í sundur. Eftir að Saudi-Arabía ákvað að auka framleiðslu sína umtalsvert 1985 byrjuðu Sovétríkin að tapa 20 milljörðum Bandaríkjadala á ári. Tekin var pólitísk ákvörðun um að halda verðinu fyrir neðan sársaukamörk og Sovétríkin lögðu upp laupana, þau þoldu ekki efnahagslegar afleiðingar lágs olíuverðs í svo langan tíma. Eftir 70 ára uppbyggingu miðstýrðs hagkerfis í Sovétríkjunum var það hrun á hráefnismörkuðum sem feldi þetta mikla herveldi sem státaði þrátt fyrir allt af miklum þungaiðnaði. Augljóslega byggir kenningin á nokkurri einföldun en er hún með öllu fráleit?  Og er það með öllu fráleitt að halda að nýlegur samningur við Írani um afléttingu viðskiptaþvingana sé hluti af stærra plani. Við blasti að með því að veita Írönum aftur óheftan aðgang að olíumörkuðum myndi framleiðslan aukast og verðið falla. Íran þolir lækkandi verð sem og Arabaheimurinn (og Norðmenn þó þeir þurfi að grípa til olíusjóðsins) en Rússar þola það ekki. Og reyndar ekki Nígería og Venesúela sem eru hluti af OPEC samstarfinu en Rússar ekki. OPEC ríkin framleiða um 40% af olíu heimsins en virðast ekki vera fær um að stýra framleiðslunni en þar hafa Saudi-Arabar langmest áhrif.

Víða hefur verið tekið undir þessa kenningu um að olíuverðslækkun hafi orsakað fall Sovétríkjanna en ástæða er til að rifja hana upp núna þegar Rússland er augljóslega eitt þeirra olíuútflutningsríkja sem eiga í hvað mestum erfiðleikum. Um 60% af útflutningstekjum Rússa koma frá útflutningi á hráolíu, bensíni og gasi. Helmingur tekna ríkissjóðs Rússland kemur frá sköttum á hráefnaiðnað landsins, svo sem námugrefti og olíuvinnslu. Það er því ljóst að að helmingslækkun á olíuverði hittir efnahag og ríkissjóð Rússa illa. Ekki kannski eins illa og Nígeríu sem hefur 90% útflutningstekna sína af olíuútflutningi og hafa nánast lokað á allan innflutning til landsins á meðan gjaldeyrisvarasjóður þeirra brennur upp en ekki er langt síðan farið var yfir stöðu mála í Nígeríu í pistli hér.

Verst af öllu er þó ástandið í Venesúela sem alfarið treystir á tekjur af olíu. Þar er neytendamarkaður horfin og vöruskortur alger og almenningur eyðir dögunum í biðröðum. Á sama tíma safnar Venesúela gríðarlegum skuldum hjá Kínverjum og verðbólga í landinu er sú hæsta sem finnst á byggðu bóli. Breytir engu þó þó landið státi af miklum olíubirgðum sem hafa gert vinstri sinnuðum forsetum landsins kleift að slá um sig í stjórnmálalífi Suður- og Mið-Ameríku.Russiian-flag-oil
 

Útflutningur Rússa

En skoðum útflutning og efnahag Rússa nánar. Helstu útflutningslönd þeirra eru: Holland (15 prósent og líklega vegna umskipunar), Ítalía (8,6%), Þýskaland (8,1%) og Kína (7,8%). Árið 2014 nam útflutningur Rússa 492,1 milljörðum Bandaríkjadala ($), aukning um 23,9% frá 2010. Samkvæmt tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er landsframleiðsla Rússa áætluð vera $3.548 trillion í ár. Af því leiðir að útflutningur jafngildir 13,9% af landsframleiðslu. Mannfjöldi í Rússlandi er 142,5 milljónir manna, þannig að heildarútflutningur upp á $492,1 milljarða árið  2014 jafngildir $3,454 á hvern landsmann.

Lítum á helstu útflutningsvörur Rússa eins og það reiknaðist á síðasta ári:

  1. Olía og olíuafurðir: US$288,361,702,000 (58,6% af heildarútflutningi)
  2. Járn og stál: $20,202,919,000 (4,1%)
  3. Gimsteinar, góðmálmar og mynt: $11,579,099,000 (2,4%)
  4. Vélar: $8,985,440,000 (1,8%)
  5. Áburður: $8,909,523,000 (1,8%)
  6. Timbur: $7,638,190,000 (1,6%)
  7. Korn: $6,972,489,000 (1,4%)
  8. Ál: $6,298,128,000 (1,3%)
  9. Efnavörur: $5,079,839,000 (1,0%)
  10. Kopar: $4,873,518,000 (1%)

Af þessu má sjá hve gríðarlegu máli olía og olíuafurðir skiptir fyrir útflutningstekjur Rússa.

Mikilvægi gasútflutningsins

Rússland er stærsti útflytjandi gas í heiminum en OAO Gazprom, sem er í eigu ríkisins, seldi ríflega  195 milljarða rúmmetra af eldsneyti til ESB, Tyrklands og annarra Vestur-Evrópulanda á síðasta ári. Það var um 10% minna en 2013 en 75% gassins fer til landa utan landa fyrrum Sovétríkja. Á Sovéttímanum var það hlutverk Sovétríkjanna að skaffa hjálendum sínum ódýrt eldsneyti. Gasviðskiptin í dag eru gríðarlega mikilvæg fyrir báða aðila og hafa ekki truflast svo mikið vegna þvingunaraðgerðanna. Um 11 til 12% útflutningstekna Rússa koma frá gasinu. Norðmenn eru helstu samkeppnisaðilar Rússa á þessum mörkuðum en aðeins varð um 1,5% samdráttur á gassölu þeirra í fyrra. Rússar hafa uppi mikil áform um að selja gas í austurátt og afla sér þannig nýrra markaða. Gert er ráð fyrri að hefja sölu til Kína 2019 og 2020 þegar nýjar gasleiðslur verða komnar í gagnið. Þannig ætla þeir að efla samkeppnisstöðu sína en Vestur-Evrópa hefur um leið unnið markvisst að því að minnka kaupin frá Rússlandi. Það tókst ágætlega á síðasta ári en þá minnkuðu gaskaup Vestur-Evrópu af Rússum um 9%. Sömuleiðis hafa Úkraínumenn minnkað gaskaup sín af Rússum verulega.

En Rússar eru ekki aðeins stærsti framleiðandi gas í heiminum, engin þjóð framleiðir meiri hráolíu. Næst koma Saudi-Arabía og Bandaríkin og horfur eru á að Bandaríkin muni framleiða meiri olíu ár en þeir hafa nokkru sinni gert síðan 1972. Eins og rakið var í upphafi þá telja margir að sameiginlegar aðgerðir þeirra á olíumörkuðum fyrir 25 árum hafi fellt Sovétríkin.crude all year long

Tapa gríðarlegum fjármunum

Fjármálaráðherra Rússa, Anton Siluanov, lét hafa eftir sér í lok nóvember síðastliðins að rússnesk yfirvöld gerðu ráð fyrir að tapa um 40 milljörðum Bandaríkjadala á ári vegna viðskiptaþvingana vesturveldanna. Það kom til viðbótar áætluðu tapi upp á 90 til 100 milljónir Bandaríkjadala á ári vegna lækkandi olíuverðs en þá hafði olían lækkað um 30%. En meiri lækkanir hafa orðið síðan þá. Eins og áður hefur komið fram mun olíuverðslækkunin skaða Rússa verulega en fjárlög yfirstandandi árs miðuðust við að olíutunnan seldist á $96 en hæsta verð síðasta árs var $115,71 á tunnu þann 19. júní. Undir þeim kringumstæðum réðist ríkisstjórnin í 10% niðurskurð á fjárlögum. Nú er hráolía (e.brent) undir $50 en dollarinn hefur styrkst á móti. Verðþróunin er ekki í andstöðu við spár en kemur örugglega óþægilega við fjármálaráðherra Rússa. Því er spáð að samdrátturinn í Rússlandi geti orðið allt að 3-4% af landsframleiðslu og jafnvel enn meiri á næsta ári. Neysla hefur dregist verulega saman og má sem dæmi taka að helmingi færri bílar seljast þar nú en fyrir ári. Rússneskur almenningur finnur verulega fyrir ástandinu, verðbólgan mælist í tveggja stafa tölu og rúblan hefur hríðfallið. Það verður dýrara og dýrara fyrir Rússa að ferðast til annarra landa en hugsanlega eru þeir duglegri að heimsækja Krím á meðan. Margt bendir til þess að Rússar hafi ekki nýtt sér tekjuauka undanfarinna ára nógu skynsamlega og til dæmis ekki fjárfest nægjanlega í innviðum landsins og eflt nýsköpun og aðrar atvinnugreinar. 

Norðurslóðapólitík Rússa skiptir máli fyrir efnahaginn

Rússar eru því í miklum vanda og sá vandi snertir margar þjóðir, nú síðast okkur Íslendinga með áberandi hætti. Það er ekki bara á sviði viðskiptaþvingana sem stefna Rússa skiptir miklu. Þar má nefna norðurslóðastefnu Rússlands, en uppi hafa verið áætlanir í Rússlandi um að svæðið verði lykilsvæði fyrir efnahagsvöxt landsins frá árinu 2020. Hugmyndir Rússa um mikilvægi svæðisins í efnahagslegu tilliti undirstrika hversu miklar vonir eru bundnar við auðlindir sem þar má finna. Rússum er nefnilega gjarnt að hugsa um auðlindir og landsvæði, að því leyti hafa þeir ekki með öllu fallið frá því að hugsa eins og nýlenduveldi. Um norðurslóðir hafa verið deilur og þekkt er það atvik sem varð um yfirráðarétt á svæðinu árið 2007 þegar Rússar komu fána sínum fyrir á hafsbotni undir Norðurpólnum með kafbáti. Þessi aðgerð var hugsuð sem táknræn aðgerð til að sýna fram á yfirráðarétt þeirra á svæðinu. Það er því skiljanlegt þegar kaldastríðssérfræðingar eins og Einar Benediktsson sendiherra, Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri lýsa yfir áhyggjum sínum af þróun mála.  Hafa verður þó í huga að Rússar njóta annars konar samúðar á vesturlöndum en Sovétríkin áður fyrr. Þrátt fyrir allt hefur pólitíkin breyst nokkuð.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.