c

Pistlar:

22. september 2015 kl. 13:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísland - meira best í heimi

Fyrir rúmu ári skrifaði undirritaður pistil um stöðu Íslands undir fyrrisögninni Ísland best í heimi. Það var síðan endurtekið í upphafi árs og höfðu margir gaman af. Þetta er saga sem aðrir segja því umsagnirnar eru fengnar að láni héðan og þaðan.fotbbestjpg

Hér verður gerð tilraun til að uppfæra upptalninguna og rakin þau tilvik sem hafa annað hvort bæst í flóruna eða önnur þau sem hafa endurnýjast á einhvern hátt.  Þetta er sem fyrr sett fram til fróðleiks og gamans og ekki tæmandi á nokkurn hátt. Reynt er þó að geta sem flestra. Úttektin gefur að mestu röðun Íslands eins og hún er í dag og er hér stuðst við upplýsingar sem hafa birst í íslenskum fjölmiðlum undanfarin misseri:  

  • Líklega gleður það marga að Ísland er nú í 23. sæti á styrkleikalista FIFA í knattspyrnu karla. Liðið færir sig upp um eitt sæti á septemberlistanum og jafnar árangurinn frá í júlí og er það hæsta staða sem liðið hefur náð á listanum. Til upplýsinga má nefna að Frakkland er í sætinu fyrir neðan Ísland. Listinn nær til 4 ára í senn og er reiknaður þannig að meðalfjöldi FIFA-stiga úr leikjum síðustu 12 mánaða er lagður saman við meðalfjölda FIFA-stiga úr leikjum eldri er 12 mánaða.
  • Ísland er númer sjö á lista yfir þau lönd þar sem er best að vera aldraður samkvæmt alþjóðlegri  skýrslu. Best ku vera að verða gamall í Sviss, á hæla þess kemur Noregur og Svíþjóð. Verst er að vera aldraður í Afganistan. Sé eingöngu litið til Evrópulanda er Grikkland í neðsta sæti.Það eru samtökin HelpAge International sem birta þessar niðurstöður í 28 síðna skýrslu. Samtökin berjast fyrir bættum aðbúnaði aldraðra á heimsvísu.Í rannsókninni voru borin saman efnahagsleg og félagsleg lífsskilyrði aldraðra í 96 löndum. Meðal þess sem skoðað var voru gæði ellilífeyriskerfa viðkomandi landa, sjúkrastofnana og aðgengi að almenningssamgöngum. RÚV greindi frá þessu.
  • Í ágúst síðastliðnum upplýstist að Reykjavík er í tíunda sæti yfir vingjarnlegustu borgir í heimi í vali hins fræga ferðatímarits Condé Nast. Þar segir að borgin beri þess fagurt vitni hvernig Íslendingum hafi tekist að búa um sig í heldur fjandsamlegu loftslagi með „djúpri tilfinningu fyrir menningu, gáfum, fágun og vingjarnlegheitum“. Þetta eru stór orð, en þarna segir líka að gestrisnin sé stórkostleg hvert sem farið er. Reykjavík sé líka „hip“ og íbúarnir hafi gaman af því að skemmta sér.Aðrar borgir sem komast á þennan lista eru Auckland, Búdapest, Kyoto, Edinborg, Brügge, Kraká, Queenstown, Dublin og Sidney. Hún er talin vingjarnlegust. En þarna eru líka valdar óvingjarnlegustu borgirnar. Á þeim lista eru Cannes, Jakarta, Moskva, Kairó, Nýja-Delhi, Nairobi, Guatemalaborg, Guangzhou, Casablanca og svo er það Caracas í Venesúela sem er valin óvingjarnlegasta borgin. Segir að hún hafi einu sinni verið skemmtileg og heimsborgaraleg, en nú einkennist lífið þar af glæpum, skorti og lélegum lífsgæðum. Þar sé engum tekið með opnum örmum.
  • Í júní upplýsti Hagstofanmeðalævi karla á Íslandi var í fyrra 80,6 ár og kvenna 83,6 og lífslíkur Íslendinga eru með þeim mestu í Evrópu. Meðalævi karla á Íslandi hefur lengst um rúmlega sex ár á síðustu þremur áratugum og kvenna um fjögur ár.  Karlar í Sviss og á Íslandi hafa síðasta áratuginn getað vænst þess að verða evrópskra karla elstir en meðalævilengdin á þeim tíma var 79,1 ár. Í Evrópu er meðalævi karla styst í Eystrasaltslöndunum. Í Litháen var hún 66,1 ár.
  • Í júní upplýstist einnig að Ísland sit­ur í efsta sæti á lista Efna­hags- og friðar­stofn­un­ar­inn­ar (e. Institu­te for Ecomomics and Peace) yfir friðsæl­ustu ríki heims, fimmta árið í röð. Í frétt Global fin­ance um út­tekt stofn­unn­ar­inn­ar kem­ur fram að þrátt fyr­ir að öld­in sé sú friðsæl­asta í sögu mann­kyns hafi friðsæld heims­ins hrakað á síðustu sjö árum. Stofn­un­inn gef­ur ár­lega út list­ann „The Global Peace Index“. Sam­kvæmt hon­um búa þegn­ar 111 landa við minni frið en árið 2008 og aðeins rík­ir meiri friður en áður í 51 landi. Í frétt Morgunblaðsins segir að Ísland sé með 1,189 stig á lista stofn­un­ar­inn­ar en þar gild­ir: því lægri tala því betra. Dan­mörk er í öðru sæti með 1,193 stig og Aust­ur­ríki verm­ir þriðja sætið með 1,2 stig. Nor­eg­ur og Finn­land eru einnig meðal tíu friðsæl­ustu landa heims sam­kvæmt list­an­um en þar verm­ir Finn­land sjötta sætið og Nor­eg­ur það tí­unda. Svíþjóð er þannig eina Norður­landið sem ekki kemst á blað en landið deil­ir 11. sæt­inu með Tékklandi.
  • Ísland er í 20. sæti mannauðsvís­is Alþjóðaefna­hags­ráðsins (World Economic For­um) að því er upplýst var í á mbl.is maí. Með hon­um er meðal ann­ars lagt mat á hvernig lönd þróa og nýta mannauð sinn og hvaða mennt­un, hæfni og störf standa fólki til boða. Ísland er neðst Norður­land­anna á list­an­um en Finn­ar tróna á toppi hans. Mannauður en ekki fjár­magn verða lyk­ilþætt­ir í ný­sköp­un, sam­keppn­is­hæfni og hag­vexti á 21. öld­inni, að því er kem­ur fram í for­mála Klaus Schwab, for­manns Alþjóðaefna­hags­ráðsins. Í skýrslu ráðsins er tekið sam­an hvernig lönd þróa og nýta mannauð sinn og hvaða mennt­un, hæfni og störf standa fólki til boða í nokkr­um ald­urs­hóp­um. Skýrsl­an nær til 124 landa þar sem 92% mann­kyns búa.
  • Ísland er í þriðja sæti af þeim lönd­um þar sem best er að vera móðir í heim­in­um sam­kvæmt skýrslu Barna­heilla – Save the Children á Íslandi sem opinberuð var í maí. Nor­eg­ur er í fyrsta sæti en Norður­lönd­in skipa fimm efstu sæti list­ans. Sómal­ía rek­ur lest­ina annað árið í röð – og er það land þar sem verst þykir fyr­ir mæður að ala börn sín. Af botnsæt­un­um 11 eru níu skipuð Afr­íku­lönd­um. Skýrsl­an um stöðu mæðra kom nú út í 16. sinn en í ár var staða mæðra og barna í borg­ar­sam­fé­lög­um til sér­stakr­ar skoðunar.
  • Og það eru ekki bara afrek knattspyrnulandsliða okkar sem gleðja okkur. Íslensk­ar kon­ur og karl­ar voru þau hröðustu að meðaltali í 72 maraþon­hlaup­um í tólf borg­um á tíma­bil­inu 2009 til 2014, sýndu mest­ar fram­far­ir og þá hlupu ís­lensk­ir maraþon­hlaup­ar­ar að meðaltali hraðast á síðasta ári. Þetta kem­ur fram í nýrri rann­sókn á maraþon­hlaup­um. Litið er til maraþon­hlaupa á tíma­bil­inu 2009 til 2014 í Chicago, Mar­ine, Bost­on, London, Par­ís, Berlín, Frankfurt, Aþenu, Amster­dam, Búdapest, Var­sjá og Madríd. Mark­mið könn­un­ar­inn­ar var að kanna hvernig áhuga­hlaup­ar­ar standa sig og því voru niður­stöður af­reks­hlaup­ara ekki tekn­ar með. Þrátt fyr­ir að Íslend­ing­ar hafi að meðaltali átt besta tím­ann í heim­in­um í maraþoni í fyrra og ís­lensku kon­urn­ar og karl­arn­ir hafi hlaupið hraðar en hinar þjóðirn­ar hafa ís­lensk­ir hlaup­ar­ar ekki ratað á verðlaunap­alla í maraþon­hlaup­un­um. Í könn­un­inni er litið til meðaltals og því gef­ur hún þess­ar niður­stöður.
  • Íslenska þjóðin hopp­ar úr ní­unda og upp í annað sætið yfir ham­ingju­söm­ustu þjóðir heim í ár­legri sam­an­tekt Sustaina­ble Develop­ment Soluti­ons Network fyr­ir Sam­einuðu þjóðirn­ar. Sviss trón­ir á toppi list­ans en eins og áður seg­ir er Ísland í öðru sæti. Dan­mörk og Nor­eg­ur fylgja í humátt á eft­ir, þá Kan­ada og Finn­land og loks eru það Hol­land, Svíþjóð, Nýja Sjá­land og Ástr­al­ía sem skipa sér í neðstu sæti topp tíu list­ans. Í fimmta neðsta sæti list­ans er Af­gan­ist­an, þar á eft­ir koma Rú­anda og Benín. Þriðju minnstu lífs­ham­ingj­unn­ar njóta íbú­ar Sýr­lands, þá íbú­ar Búrúndí og loks eru það íbú­ar Tógó sem reka lest­ina. Ham­ingja þjóða er ákvörðuð út­frá ýms­um þátt­um. Meðal ann­ars er hún met­in út­frá vergri þjóðarfram­leiðslu, fé­lags­leg­um stuðningi, lífs­lík­um, ein­stak­lings­frelsi, gjaf­mildi og upp­lif­un af spill­ingu.Í skýrsl­unni má lesa að Íslend­ing­ar halda ágæt­lega í við Sviss­lend­inga og eru í raun aðeins um 26 stig­um frá fyrsta sæt­inu. Íslend­ing­ar virðast áber­andi gjaf­mild­ari en Sviss­lend­ing­ar en hins­veg­ar virðast fleiri upp­lifa spill­ingu hér á landi en í Sviss, hvað sem veldur því.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.