Það er eftirminnilegt atriði í einum Downton Abbey þættinum þegar Robert Grantham lávarður ræðir við Matthew Crawley, tengdason sinn, um rekstur landeignarinnar. Satt best að segja var lávarðurinn ekki að standa sig mjög vel í rekstrinum, standandi annars vegar í fortíð bresku yfirstéttarinnar um leið og nútíminn sótti að með breyttum vinnubrögðum, nýrri tækni, hreyfingu á vinnuafli, sem meðal annars orsakaðist af breyttri verkaskiptingu, en umfram allt, breyttri skattheimtu. Tengdasonurinn fór varlega að tengdaföður sínum en neyddist þó til hvessa sig gagnvart honum þegar hann vildi fara að fjárfesta í ævintýrum Charles Ponzi sem vestur í Bandaríkjunum lofaði ávöxtun sem vitaskuld ekkert stóð á bak við. Sömuleiðis reyndi Matthew að kynna fyrir lávarðinum afleiðingar þess að halda úti miklu vinnuafli við það eitt að þjóna sér persónulega. Eitt skipti spurði hann hvort ekki væri rétt að segja upp einkaþjóninum Mosley. Líklega fannst Matthew að hann gæti klætt sig sjálfur. Lávarðurinn spurði hann þá hvort það væri sanngjarnt gagnvart Mosley kallinum, allir hefðu sínu hlutverki að gegna. Grantham lávarður leit svo á að hann væri ekki eigandi, heldur vörslumaður þess forréttindaríkis sem breska yfirstéttin lifði og stýrði. Hann bæri ábyrgð á sínu fólki. Og það gerði hann enda ekkert nema góðmennskan. En allt var á hverfanda hveli og lávarðurinn ljúfi stundum ráðalaus.
Eins og oft áður snýst þetta um að þekkja sinn vitjunartíma. Dæmigerður árangur kapítalismans, sagði hagfræðingurinn Joseph Schumpeter um svipað leyti, „er ekki að útvega drottningum fleiri silkisokka heldur að gera verksmiðjustúlkum kleift að eignast þá fyrir sífellt minni vinnu.“ Einnig er vert að hafa í huga að tekjudreifing í Bretlandi og í Bandaríkjunum var að jafnast eins og hún hefur gert á meirihluta síðustu tveggja alda.
Það var ekki við hæfi hjá yfirstéttinni að tala um peninga - það gerðu bara þeir nýríku og svo auðvitað Bandaríkjamenn sem en nýlegt ríkidæmi þeirra gerði bresku yfirstéttina stundum orðlausa. Og skipti engu þó hún seldi þeim eignir og titla í von um að framlengja forréttindi sín. En tímans þungi niður bankaði uppá hjá yfirstéttinni. Rekstrarkostnaður eignanna hækkar stöðugt og launin líka. Á sama tíma er erfiðara halda við helstu tekjulindinni sem kom af jarðnæði. Nú í upphafi þriðju og síðustu þáttaraðarinnar, sem hefst árið 1925 og er nú sýnd á sunnudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu, glímir Grantham lávarður við miklar launahækkanir. Laun höfðu þrefaldast frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Mannfallið í styrjöldinni og breyttir atvinnuhættir juku eftirspurn vinnuafls og komu róti á hlutina.
Og skattarnir komu og komu
Það sem þó reið baggamun fyrir bresku yfirstéttina voru nýir og auknir skattar. Eigna- og erfðaskattar héldu innreið sína og hækkuðu stöðugt. Grantham lávarður kallaði þá réttilega skatta á dauða hluti (e. death taxes.)
Bretland tók upp erfðarfjárskatt 1894. Í fyrstu í fremur hóflegum mæli eða upp á 8 prósent. En í heimstyrjöldinni fyrri jukust skuldir Bretlands upp í 150 prósent af landsframleiðslu. Með sérstökum lögum 1919 (Finance Act) var efsta stig erfðarfjárskatts hækkað upp í 40% af verðmæti landeigna sem voru verðmetnar yfir 2 milljónir punda. Slíkur skattur nálgast að vera eignarupptaka.
Dyggir áhorfendur þáttanna muna vel eftir dapurlegum endalokum Matthew Crawley, sem lést af slysförum, en hafði áður náð að skrifa einskonar erfðaskrá þar sem hann ánafnaði helming Downton til Mary eiginkonu sinnar. Í dag skipti það engu máli þar sem ekki er gert ráð fyrir að maki greiði erfðarfjárskatt og eignin sé fyrst skattlögð þegar hún gengur til næstu kynslóðar. Því var ekki að heilsa á dögum Grantham fjölskyldunnar. Mary fékk sem svaraði 100 punda skattfrelsi en að öðru leyti varð hún að greiða erfðarfjárskatt af öllum eignarhlut sínum. Það þýddi í raun að þessi uppáhaldsyfirstéttarfjölskylda íslensks almennings lenti í því að greiða tvisvar erfðarfjárskatt af sömu eigninni. Fyrst þegar Matthew dó og síðan aftur við dauða Mary, áður en sonurinn George fengi notið góssins. „Þetta er svolítið skrítið,” sagði hinn tengdasonurinn, hinn byltingasinnaði írski bílstjóri Tom Branson. Að lokum varð það að ráði að selja land fyrir skattaskuldum.
Í síðasta þætti sáum við að einn nágranni Downton Abbey-fjölskyldunnar neyddist til að selja herrasetrið og landeignir og flytja til London. Augljóst var að það þóttu grimm örlög og ekki síður sú niðurlægjandi aðgerða að setja innanstokksmuni í nokkurskonar bílskúrssölu. Þetta var ekki óalgengt. Að því er komið hefur fram í London Telegraph neyddist fjölskyldan sem lifði á Highclere setrinu, þar sem Downton er myndað, til að selja einstakt listasafn sitt árið 1926 til að halda landareignum og húsum. Þar á meðal voru verk eftir da Vinci og Gainsborough.
Breska yfirstéttin stóð undir nafni en talið er að breskir aðalsmenn hafi verið 15 sentímetrum hærri en meðal Breti árið 1800. Nú eru þeir innan við fimm sentímetrum hærri og hlutfallið hefur víst lítið breyst frá 8. áratug. En nýtur yfirstéttin margvíslegra forréttinda, svo sem sætis í lávarðadeildinni. Um þau forréttindi er að sjálfsögðu deilt og má í því sambandi rifja upp brandara sem sagður var um Íslandsvininn David Cameron, sem lærði í Eaton, og er stundum legið á hálsi fyrir að skilja ekki aðstæður lágstéttarinnar. Sagt er að þegar hann horfi á Downton Abbey spóli hann hratt yfir þá kafla sem gerast hjá vinnuhjúunum! Við unnendur þáttanna vitum að það er ekki skynsamlegt, þar eru ekki síður spennandi hlutir að gerast.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.