c

Pistlar:

9. febrúar 2016 kl. 22:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Borgaralaun - útópískur draumur?

Þann fimmta júní næstkomandi ganga Svisslendingar að kjörborðinu til að kjósa um skilyrðislausa grunnframfærslu eða svokölluð borgaralaun. Ef tillagan verður samþykkt yrði Sviss fyrsta ríkið í heiminum til að bjóða upp á borgaralaun. Þjóðaratkvæðagreiðslan myndi tryggja öllum borgurum ákveðna lágmarksframfærslu óháð stöðu. Tillagan sem liggur fyrir er upp á 2.500 svissneska franka framfærslu eða 320 þúsund íslenskar krónur á mánuði. Þetta er talsvert hærri upphæð en rætt var um t.d. í Finnlandi þar sem talið var að hver borgari fengi sem svaraði 110 þúsund íslenskra króna.

Fyrir Alþingi liggur núna þingsályktunartillaga frá þremur þingmönnum Pírata um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun). Flutningsmenn eru: Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson og Birgitta Jónsdóttir. Þar er lagt til að Alþingi álykti að fela félags- og húsnæðismálaráðherra, í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra, að skipa starfshóp til að kortleggja leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og útrýma fátækt.mannfj

Er fátækt afleiðing velferðarstefnunnar?

Í greinargerð með frumvarpinu er að finna eftirfarandi skilgreiningu á fátækt: Fátækt á Íslandi er að miklu leyti afleiðing íslenskrar velferðarstefnu sem byggist á skilyrtri velferðarforsjá í formi lágmarksaðstoðar og áherslu á góðgerðarstarfsemi og ölmusu fyrir þá verst settu. Íslenska ríkið hefur í gegnum árin sett lög og reglugerðir sem veita fólki svo lágar bætur að upphæðirnar eru innan fátæktarmarka.” Í greinargerðinni er einnig vísað til enska heimspekingsins Thomas More sem skrifaði bókina Útópíu árið 1516. Í bókinni lýsir More hugmynd sinni að eins konar fyrirmyndarsamfélagi þar sem áhersla er lögð á að fyrirbyggja glæpi með útrýmingu fátæktar frekar en að notast við refsikerfi í samfélagi þar sem beinlínis er stuðlað að glæpum með gífurlegum ójöfnuði. Það vekur reyndar athygli hve líkar tilvitnanir og röksemdafærslur má finna í greinargerðinni og í útskýringu alfræðivefsins Wikipedia.

Vitaskuld er hægt að gera athugasemd við þá skilgreiningu sem segir að fátækt sé afleiðing velferðarkerfisins (eða stefnunnar í velferðarmálum). Margir myndu fremur halda að velferðarkerfinu hafi mistekist að fást við fátækt fremur en að hægt sé að kenna því um fátækt. Víðast er orsök fátæktar rakin til veikinda, þjóðfélagsstöðu eða annarra þátta sem geta haft áhrif á líf fólks til skemmri eða lengri tíma. Í pistlum hér hefur áður verið bent á að nýtt upphaf hafi orðið í umræðu um fátækt þegar Harpa Njáls félagsfræðingur gaf út bók sína Fá­tækt á Íslandi við upp­haf nýrr­ar ald­ar, árið 2003. Meg­inniðurstaðan er sú að fá­tækt er staðreynd á Íslandi,” var dómur Hörpu við þetta tilefni og fullyrti hún um leið að 7 til 10% landsmanna lifi og búi við fátækt. Niðurstöður hennar voru sláandi en um fjórðung­ur bók­ar­inn­ar var byggður á viðtölum við fólk sem bjó við fá­tækt­araðstæður samkvæmt skilgreiningum Hörpu. Það er al­ger­lega nýtt inn í þessa umræðu að radd­ir þeirra fá að heyr­ast,” sagðir Harpa í samtali við Morgunblaðið við þetta tækifæri. Hún sagði það ný­mæli að hún mæli fá­tækt út frá al­gild­um fá­tækt­ar­mörk­um. Mæl­ing­in felst m.a. í því að rann­saka hvort lág­marks­tekj­ur, sem mótaðar eru af hinu op­in­bera með ákvörðunum um upp­hæðir líf­eyr­is­greiðslna al­manna­trygg­inga, fram­færslu­styrk­ur fé­lagsþjón­ustu sveit­ar­fé­laga og einnig tekj­ur ófag­lærðra á vinnu­markaði sem í mörg­um til­vik­um vinna hjá ríki og borg, dugi fyr­ir lág­marks­fram­færslu­kostnaði,” eins og skýrt er í bók­inni. Segja má að bók Hörpu og sú umræða sem hún skapaði hafi rammað inn fátækt sem félagslega staðreynd hér á landi.

Hvað kosta borgaralaun?

En víkjum aðeins að skilyrðislausri grunnframfærslu (borgaralaunum). Í fyrstu virðast þau viðbrögð vil flækjustigi bótakerfisins/velferðarkerfisins. Að því leyti gætu þau verið hentug leið til að núllstilla kerfi sem er orðið svo flókið og óskiljanlegt að efast má um að það sé að gera það gagn sem að er stefnt. Stuðningsmenn þess að taka upp borgaralaun ganga út frá því að borgaralaun krefjist engra reiknikúnsta eða eftirlitsiðnaðar. Bótakerfi verða aflögð og þar með sparast vinna opinberra stofnana. Vinnutekjur leggjast ofan á borgaralaun. Ekki er gert ráð fyrir neinum skerðingum. Annað hvort eigi fólk rétt á þeim eða ekki og um sé að ræða sömu upphæð fyrir alla. Því séu borgaralaun plain and simple, gagnsæ og sanngjörn,” eins og einn stuðningsmanna þeirra orðaði það á spjallvef.  

En kostnaðarhliðin. Hvernig skyldi hún koma út? Í þingsályktunartillögunni er engin tilraun gerð til að meta kostnað. Þar er aðeins vísað í að samkvæmt Hagstofu Íslands voru á árinu 2013 rúmlega 42 þúsund manns, eða 13,7% landsmanna, undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun. Hvað þeirri upphæð er ætlað að svara er erfitt að segja en greinargerðin segir lítið um útfærsluna sjálfa. Píratar virðast ætla að láta öðrum eftir það sem gæti virst erfiðast í málinu, að ákveða hve há upphæð verður til skiptanna og hvernig hún verður fjármögnuð. Í stefnuskrá Pírata segir um fjármögnun lágmarksframfærsluviðmiða/borgaralauna: Fjármagna skal áðurtaldar aðgerðir með núverandi fjárveitingum til atvinnu- og menntamála fyrir bótaþega, endurskoðun á bótakerfinu samhliða eflingu á virkni einstaklinga og framtaks hans til sköpunar og atvinnu, endurskoðun á núverandi skattkerfi með það að markmiði að einfalda kerfin og þarafleiðandi minnka yfirbyggingu þeirra (stjórnsýsla), og betri skilvirkni innan velferðar- og heilbrigðiskerfisins.” Það er hins ljóst að margir verða fyrir vonbrigðum ef menn ætla að láta duga að taka þá peninga sem renna núna til velferðarkerfisins og borga það út sem borgaralaun.

Að setja alla Íslendinga á borgaralaun kostar nefnilega sitt. 300 þúsund krónur á mánuði til 250 þúsund manns er um 900 milljarðar króna á ári. Finnska útgáfan myndi kosta um einn þriðja af því eða um 300 milljarða króna. Það er því spurning hvort Íslendingar hafa efni á svissnesku eða finnsku leiðinni eða yfir höfuð að fara þessa leið. Inni á Wikipediu má finna útreikninga sem draga fram 180 þúsund á mánuði en er það ásættanlegt fyrir þá sem þyggja hærri bætur í dag? Jú, vissulega er freistandi að einfalda kerfið svo að þú getir tekið allan kostnað við að reka almannatryggingakerfið og breytt þeim kostnaði í bætur. Það er hins vegar ekki víst að það reynist svo einfalt. Þeir sem styðja borgaralaun eiga því eftir að svara mörgum spurningum, sérstaklega þegar kemur að útfærslunni.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.