c

Pistlar:

5. maí 2016 kl. 22:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Venesúela - fallandi ríki

Í umræðunni er lítið talað um að Venesúela sé stýrt af öfgasósíalistum. Þó er það svo að landinu hefur sannarlega stýrt af sósíalistum og og ástandið er orðið öfgakennt, jafnvel svo að ástæða er til að óttast hvort að samfélagsgerðin þolir ástandið. Í stjórnmálaumræðunni eru andstæðurnar mikilvægar, jafnvel svo að hinar pólitísku skilgreiningar þrífast á því. Hægri - vinstri, stjórnlindi - frelsi, svo vitnað til þekktra póla í umræðunni. Þannig er mörgum tamt að ræða um öfgahægrimenn en minna fer því að rætt sé um öfgasósíalista eða öfgavinstrimenn. Má vera að einhverjir telji að ekki þurfi að gera greinarmun þar á, sósíalismi einn og sér sé nægilega öfgafullur.

Hvað sem slíkum vangaveltum líður er ljóst að mikið gengur á í Venesúela. Margir velta því fyrir sér hvort landið sé að færast í hóp fallinna ríkja (e. failed states). Við heyrum helst af ástandinu í kringum furðulegar stjórnvaldsákvarðanir vinstri stjórnarinnar sem hefur fært til klukkuna, skert vinnutíma, skammtað mat og rafmagn og þannig smám saman unnið að því að slökkva á þjóðfélaginu. Hér var ekki fyrir löngu gerð tilraun til að rekja hversu fráleit þessi niðurstaða er miðað við auðlindir og gæði Venesúela. Ekki er hægt að kenna ytri aðstæðum um ástandið núna þó fall á olíumörkuðum hjálpi ekki til. Ástandið er bein afleiðing af ákvörðunum þeirra sem hafa stýrt Venesúela undanfarin áratug. Ákvarðanir sem hafa veikt efnahag landsins svo mjög að það þolir ekki áföll og hungur og örbyrgð er handan við hornið.kolombia

Af hverju falla ríki?

En veltum aðeins fyrir okkur af hverju ríki falla. Það voru hagfræðingarnir Daron Acemoglu og James Robinson, sem saman skilgreindu slíkt ástand í bók sinni Why Nation Fails. Þar reyndu þeir að svara spurningum um það af hverju sumum ríkjum farnast vel á meðan önnur búa við fátækt. Nokkuð sem hefur verið ávarpað með margvíslegum hætti í pistlum hér.

Í bók sinni vörpuðu þeir fram áhugaverðu sjónarhorni á það af hverju ríki, sem til skamms tíma virtust vera í lagi, falla eða bregðast. Þeir gerðu það með því að horfa á stofnanir samfélagsins og hlutverk stjórn- og efnahagsmála og þeirra gerenda sem þar um véla. Miklu skiptir að þeir setja kenningar sínar í samhengi við raunveruleg dæmi og reyndu þeir þannig að meta hvað veldur frávikum eða breytingum. Hér verður auðvitað að fara varlega í að tala um frávik en hvert ríki býr að eigin sögu og menningu og það sem mætti kalla samfélagslegt festi eða einfaldlega límið í viðkomandi ríki getur verið mjög breytilegt á milli samfélaga. Að ekki sé talað um ef borin eru saman mismunandi tímabil.

En samanburður á þróun einstaka landa getur gefið leiðbeiningar um hvaða þætti bera að líta til þegar þróun samfélaga er metin. Þannig benda þeir Acemoglu og Robinson á að fullkomin skortur á eignarrétti sé ráðandi þáttur í Norður-Kóreanska samfélaginu en samanburður á Norður- og Suður-Kóreu er eitthver augljósasta leiðin til að bera saman samfélög þar sem um er að ræða sömu þjóðina með nánast sömu sögu og siði. Einnig hafa þeir bent á að vinnuþrælkun og þvingun vinnuafls í Uzbekistan, stéttarskiptin og aðskilnaðarstefna í Suður-Afríku og efnahagslegt einræði í Egyptalandi Mubaraks hafi haft sömu afleiðingar. Sagan segir okkur síðan að stöðnun og beinlínis andstaða við tæknibreytingar drógu úr framförum og samkeppnishæfni rússnesku og austurrísku keisaraveldanna á 19. öld.

Í dag er Sómalía eitt skýrasta dæmið um fallið ríki en þar er ekkert sem mætti kallast miðstjórnarvald sem hefur skapað langvinna Sturlungaöld um leið og allt sem mætti kalla réttarríki er horfið. Stríðsherrar ráða einstökum svæðum og almennir borgarar hafa verið sviptir öllu sem mætti kalla lög og réttur. Í Kólumbíu hafa stjórnvöld lengi átt erfitt með að stýra einstökum landshlutum, vandamál sem er gríðarlega útbreitt í stórum vanþróuðum ríkjum. Það hefur meðal annars í för með sér að skattheimta er tilviljanakennd og jafnvel útilokuðu. Í þeirri skattaumræðu sem nú gengur yfir á Íslandi er lítið fjallað um að innan einstakra ríkja geta myndast hálfgerð „aflandssvæði”. Staðir þar sem skattur er ekki innheimtur. Þetta mun t.d. vera vandamál í einstökum hlutum Rússlands, þar sem spilling og vanhæfni kemur í veg fyrir að skattar séu innheimtir.

Hriktir í stoðunum í Venesúela

Víkjum aftur að Venesúela, hvað er að gerast þar? Jú, smám saman virðist ríkið vera að missa getu sína til að halda landinu saman. Ekki það að landið búi við ytri ógnanir. Þær virðast sáralitlar. Nei, ógnunin kemur að innan. Gamansögur um að hermenn þurfi að stela sér til matar eru í raun grafalvarlegar. Her og lögregla eru nauðsynleg tæki til að halda samfélaginu öruggu. Nú er svo komið að morðtíðni og glæpir hafa vaxið hratt. Höfuðborgin Caracas er talin ein hættulegasta borg í heimi.

Nú eru 17 ár síðan Hugo Chaves hóf baráttu sína fyrir sósíalisma 21. aldarinnar. Aðferð hans byggðist á fráleitri efnahagsstefnu, með ríkisafskiptum og þjóðnýtingu sem að endingu keyrði upp útgjöld ríkisins og endaði í óðaverðbólgu. Þegar á hefur liðið hafa mannréttindi minnkað, um leið og efnahagslegt frelsi hefur smám saman horfið. Hve lengi samfélagið þolir þetta skal ósagt látið. Það er gömul saga og ný að þjóðfélög eru oftast bara tveimur máltíðum frá byltingu og hætt er við að hún geti orðið blóðug í Venesúela.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.