Ástralir óttast að ljósin slokkni hjá þeim eftir tvö ár og Elon Musk, stofnandi Tesla, hefur boðist til að bjarga þeim. Ef honum tekst það ekki þurfa þeir ekkert að borga. Þetta er kannski ein af þeim fjölmörgu sögum sem heyrast úr orkugeiranum og eru væntanlega til marks um þá gríðarlegu gerjun og þróun sem þar á sér stað um þessar mundir. Í raun veit engin hvað verður. Ekki er vitað hver kemur til með að framleiða orkuna, hvernig hún verður framleidd eða hvort og hvernig hún verður geymd. Hvað þá hvernig verð á orku mun þróast. Spurningarnar eru fleiri en svörin.
Þrátt fyrir viðleitni olíuframleiðsluríkja er fátt sem bendir til þess að verð á jarðefnaeldsneyti sé að hækka. Á meðan skila olíuauðugasta þjóð heims, Saudi-Arabar, fjárlögum með gríðarlegum halla og hafa gripið til þess ráðs að láta íbúa landsins borga skatta. Venesúela er gjaldþrota og við það að hrynja og ljóst að olíuauður þeirra mun ekki bjarga þeim frá afleiðingum stjórnarfars sósíalista. Nígería á í stórkostlegum vandræðum þrátt fyrir að eiga bestu olíu í heimi og mikið af henni. Fyrir vikið geta Nígeríumenn ekki keypt þurrkaðan fisk frá Íslandi vegna skorts á gjaldeyri sem síðan rýrir tekjur margra framleiðenda hér á landi. Rússland berst við að ná sinni fyrri stöðu sem stórveldi en á meðan olíuverð er eins og það er núna geta þeir ekki lokað fjárlögum í plús. Hætt er við að einhver eigi eftir að vakna upp við vondan draum þegar menn átta sig á kostnaðinum við HM 2018 og önnur gæluverkefni Pútíns. Raddir heyrast að kostnaðurinn við HM í Rússlandi verði 15 milljarðar Bandaríkjadala, þrisvar sinnum hærri en ráð var fyrir gert.
Að geyma orkuna
En þetta er útúrdúr, hverfum aftur til heims orkunnar. Land eins og Ástralía er eins og áður sagði í stórfeldum vandræðum en horfur eru á að núverandi gaslindir séu að tæmast. Þeir munu ekki bjarga sér eins og Bandaríkjamenn með „vökvaknúinni sprungumyndun" (e. hydraulic fracturing) þrátt fyrir að eiga gríðarleg tækifæri í nýtingu leirgas. Ekki er sátt um það í Ástralíu að beita slíkum aðferðum sem hefur hins vegar gjörbreytt orkulandslaginu í Bandaríkjunum eins og var rakið hér í pistli fyrir stuttu. Ástralía hefur verið að byggja upp gríðarmikla sólarorku- og vindgarða en vandinn við það er að sólin skín ekki alltaf og vindurinn er kenjóttur. Þá kemur Elon Musk til hjálpar. Hann telur sig geta reist stærsta rafhlöðugarð í heimi í Nýju-Suður Wales og þannig geymt orku þar til orkuþyrst heimili Ástralíu þurfa að nota hana. Spennandi, og Musk er maður sem getur mótað framtíðna. Að því tilskyldu að hann fari ekki á hausinn fyrst en hann hefur þurft að glíma við skortsölumenn undanfarið.
Lausnin í nýrri tækni
Margir velta því fyrir sér að hugsanlega verði vandi bruna jarðefnaeldsneytis með tilheyrandi loftslagsbreytingum leystur af sjálfu sér. Ný tækni muni stíga inn á sviði og ódýr og mengunarlaus orka taka yfir. Við getum ekki leyft okkur að treysta á það en vissulega er margt að breytast. Fyrir tveimur árum fór fjárfesting í grænum orkuiðnaði framúr fjárfestingu í jarðefnaeldsneyti. Í nýliðinni viku var fyrsti dagurinn í 135 ár sem kolum var ekki brennt í Bretlandi. Þessi vagga iðnbyltingarinnar getur nú treyst á aðrar uppsprettur orku til að hita hús sín. Reyndar er það ekki svo að kolunum hafi verið með öllu útrýmt en það stefnir allt í það enda reka Bretar einarða orkustefnu. Þar er nú orka sótt með umhverfisvænum hætti frá sól og vindi sem nú sinna um 25% af orkuþörf Breta. Einnig hafa þeir aukið notkun á gasi, sem er mun kolefnisvænna en kol, og síðast en ekki síst sótt orku til kjarnorku. Notkun á kolum hefur reyndar verið að dragast saman allt síðan 1970 í Bretlandi og stefnt er að því að hætta notkun kolaorkuvera þar árið 2025. Skotland hætti alfarið notkun kola á síðasta ári. En við Íslendingar vitum að Bretar eru nú að leita allra leiða til þess að afla sér orku með umhverfisvænum hætti og hafa því leitað til okkar með skoðun á sæstreng í huga.
Vetni eða rafhlöður?
Í öðru rótgrónu iðnríki Evrópu, Þýskalandi, er nú svo komið að þar koma dagar þar sem borgað er með orkunni. Þá fer framleiðsla á sólar- og vindorku framúr þörfum markaðarins. Ekki endilega heppilegt fyrirkomulag og því leita menn leiða til að geyma orkuna. Rafhlöðulausnir Musk eru spennandi en Þjóðverjar hafa varið gríðarlegum fjármunum í þróun á framleiðslu vetnis. Vetni er þá hugsað sem leið til að geyma orkuna án þess að auka kolefnissporið. Ráðgert er að opna 1.000 vetnisstöðvar á næstunni í Þýskalandi og þýskir bílaframleiðendur vinna að þróun vetnisbíla af sama ákafa og rafmagnsbíla.
Talandi um rafmagnsbíla. Þeir eru hin augljósi kostur þegar kemur að orkuskiptum á Íslandi í samgöngum og því var varpað upp í pistli hér fyrir stuttu að hugsanlega yrði 2017 ár rafmagnsbílsins. Í Noregi er helmingur nýrra bíla rafmagnsbílar enda njóta þeir margskonar fríðinda. Því hlýtur að ljúka um síðir enda er það svo að stöðugt verður ódýrara að framleiða rafmagnsbíla. Mesti kostnaðurinn hefur tengst rafhlöðunni en þróunin hefur verið sú að hún verður stöðugt ódýrari.
Í Bandaríkjunum eru menn farnir að velta því fyrir sér hvort rafmagnsbílar geti staðið á eigin fótum en stuðningur með hverjum rafmagnsbíl þar nemur nú um 7.500 Bandaríkjadölum. Það hafa reyndar verið miklar vangaveltur um hvaða áhrif stuðningur (e.incentives) hefur á söluna. Þar er Georgía áhugavert dæmi en fylkið borgaði aukalega 5.000 dali með hverjum rafmagnsbíl og sala þeirra var komin upp í 4% af heildarsölunni. Þegar stuðningurinn var tekin í burtu dró verulega úr sölu rafmagnsbíla. Að undanskildum Teslu bílunum. Þeir virðast einfaldlega standast samanburð við aðra bíla og virðast ekki vera metnir beinlínis sem rafmagnsbílar. Það sést best á því að Tesla Model S er nú mest seldi lúxusbíllinn í Bandaríkjunum. Það er áhugaverð staðreynd sem hefur haft áhrif á nálgun margra framleiðenda þegar kemur að rafmagnsbílum.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.