c

Pistlar:

19. júlí 2017 kl. 11:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ódýrari orka - minni mengun

Eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu hefur eðlilega orðið mikil umræða um loftslagsmál og tengsl þeirra við orkuiðnaðinn en engum dylst að hagsmunir orkuiðnaðarins eru í forgrunni hjá Bandaríkjaforseta. Það er hins vegar nauðsynlegt að skilja þær miklu breytingar sem eru að verða í orkumálum heimsins og tengslin þeirra við þróun mála í Bandaríkjunum. Á skömmum tíma hafa Bandaríkjamenn lækkað kolefnisfótspor sitt í orkuiðnaði og það fyrst og fremst með því að skipta út kolum fyrir jarðgas, samhliða upptöku sólar- og vindorku. Þetta sést ágætlega á meðfylgandi grafi en efsta línan, sú svarta, sýnir gríðarlegan samdrátt á kolanotkun. USorka

Þessi þróun hefur orðið vegna tæknibreytinga og þess að þeir leyfðu bergbrot (e. fracking sem er stytting á orðinu “hydraulic fracturing” sem mætti einnig þýða vökvaknúin sprungumyndun) sem hefur gert jarðgas (sem undirritaður hefur stundum viljað kalla leirgas) aðgengilegt. Byggt var á tækni sem kom fram fyrir 15 til 20 árum við gasvinnsluna en með láréttri bortækni og nýjum aðferðum við að brjóta upp berglögin er losað um gasið. Þetta gas hefur streymt inn á orkumarkaðinn og hefur breytt gríðarmiklu, sérstaklega í Bandaríkjunum en árið 1990 notuðu Bandaríkjamenn um 39% af orku heimsins. Jarðgas er að mestu leyti metan en einnig ethan og fleiri gastegundir. Jarðgasið er vandmeðfarið í flutningi og geymslu en til eru nokkrar mismunandi aðferðir til dreifingar á því. Gas í setlögum er gríðarlegt þó að margar þjóðir hafi lagst gegn þessari vinnslu vegna skaðlegra aukaverkanna. Vinnslan hefur þó haft þau áhrif sem margir töldu einsýnt - nefnilega að lækka eldsneytisverð.

En það sem skiptir mestu er að kolefnismengun frá jarðgasi er mun minni en frá kolum og gerði þróun bergbrotsins það meðal annars að verkum að Bandaríkjamenn voru eina þjóðin sem stóðst almennilega Kyoto-samkomulagið frá árinu 1997 sem þeir þó höfðu aldrei almennilega viðurkennt. Á sama tíma má kannski rifja upp að Kanadamenn sögðu sig síðar frá Kyoto-samkomulaginu til þess að geta haldið áfram vinnslu á olíusandi í Albertafylki. Sú vinnsla stingur í augun, ekki bara vegna þeirra skelfilegu lýta sem verða á landinu heldur einnig vegna þess að hún hefur neikvæð áhrif á kolefnisfótspor þeirra.   

Bandaríkjamenn stór útflytjandi hráolíu

Í dag eru enn á ný að eiga sér stað miklar breytingar í bandarískum orkuiðnaði og horfur á að Bandaríkjamenn séu að verða á ný stór hráolíuútflytjandi. Ný vinnslutækni - sem meðal annars má rekja til bergbrotsins - hefur gert það að verkum að mun betri nýting er að nást á olíulindum auk þess sem nýjar og öflugar lindir hafa fundist. Meðal annars í Texas en þar héldu margir að olíuvinnsla væri á niðurleið enda hefur olía verið unnin úr jörðu þar í 150 ár. Það er nú aldeilis ekki - enn finnast stórar lindir þar. En það að Bandaríkin séu að verða stórtækur útflytjandi á olíu hefur vissulega áhrif á olíuverða á heimsvísu og skulu hér endurteknar spár sem settar hafa verið fram um að olíuverð geti lækkað niður í 25 Bandaríkjadali fatið. En vitaskuld er það bara spá. Ef það hins vegar gengi eftir hefði það gríðarleg geópólitísk áhrif þar sem mörg olíuútflutningsríki þola ekki svo lágt verð. Hætt er við að slík þróun geti enn frekar aukið á óstöðugleika í Mið-Austurlöndum þar sem olíuauðugustu þjóðirnar hafa tamið sér lífshætti sem byggjast á mun hærra olíuverði.

Hröð þróun sólar- og vindorku

En samhliða lækkun á olíuverði þá er margt sem bendir til þess að innkoma sólar- og vindorku gangi hraðar fyrir sig en menn hafa spáð til þessa. Svo er nú komið, að jafnvel þó ekki kæmi til niðurgreiðsla á slíkum umhverfisvænum kostum þá eru þeir í mörgum tilfellum orðnir ódýrari en orka frá jarðefnaeldsneyti. Nú er svo komið að jaðarkostnaður við orkuframleiðslu með slíkum endurnýjanlegum orkugjöfum er að verða sambærilegur við jarðefnaeldsneyti. Og sumstaðar utan Bandaríkjanna er sólarorka orðin enn ódýrari. Það á við um lönd eins og Indland, Kína, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Saudi-Arabíu og Ástralíu. Indland hefur nýlega tilkynnt um að kolavinnsla verði nánast lögð af í landinu sem eru auðvitað gríðarleg tíðindi. Í Ástralíu er verið að gera tilraunir með að innleiða rafhlöður af áður óþekktri stærðargráðu eins og var rakið hér fyrir stuttu. Breytingarnar virðast þannig gerast hraðar en séð var fyrir.

Tölur sýna að ný orka frá sól er að verða ódýrari en önnur orka. Í lok árs 2015 var meðaltalskostnaður við innleiðingu sólarorku um 50 dalir á megavattstundina. Á sama tíma var kostnaður við aðra orkugjafa 30 til 40 dollarar á megavattsstundina. Síðan hefur sólarorka orðið stöðugt ódýrari og því horfur á að ný sólarorka sé að verða jafn dýr og ný orka af öðrum uppruna. Þetta getur þýtt að tími niðurgreiðslukerfisins sé að líða undir lok. Sem fyrr virðast Bandaríkjamenn vera þarna fremstir í flokki. Þetta getur skapað vandamál við kostnað í flutningskerfinu en ekki hefur enn verið leyst hvernig honum verður skipt niður á nýja og gamla orkugjafa.

Í pistli hér fyrir stuttu var bent á að orkuiðnaðurinn kemur áfram til með leggja fyrir okkur áskoranir. Ekki er vitað hver kemur til með að framleiða orkuna, hvernig hún verður framleidd eða hvort og hvernig hún verður geymd. Hvað þá hvernig verð á orku mun þróast. Spurningarnar eru fleiri en svörin. En allt er að breytast, það eitt er víst.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.