c

Pistlar:

13. mars 2024 kl. 20:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þögult þjóðarmorð í Nígeríu

Fá lönd búa við jafn víðtæk átök og ofbeldisglæpi og Nígería, fjölmennasta land Afríku. Hvergi eiga kristnir íbúar jafn mikið undir högg að sækja enda ofsóttir af miklu offorsi eins og áður hefur komið fram hér í pistlum. Samkvæmt nýrri skýrslu Human Rights Watch hafa margir vopnaðir hópar haldið áfram drápum og mannránum og þannig stofna lífi og lífsviðurværi milljóna manna um alla Nígeríu í hættu. Í norðvesturhlutanum stunda glæpagengi víðtæk dráp, mannrán, kynferðisofbeldi og rán, en í norðausturhlutanum hafa árásir íslamska ríkisins í Vestur-Afríku (Islamic State's West Africa Province - ISWAP) verið fyrirferðamestar en það er hópur sem hefur klofið sig frá meginhópnum, hinum illræmdu Boko Haram samtökum. Abubakar Shekau, fyrrverandi leiðtogi Boko Haram, féll í átökum milli þessara hópa árið 2021.Nigerian-Slaughter

Samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna International Society for Civil Liberties and Rule of Law (Intersociety) var síðasta ári það blóðugasta í Nígeríu og árásir íslamista á kristna menn aldrei verri. Meira en 8.000 kristnir menn voru myrtir árið 2023 segir í skýrslunni sem opinberuð var fyrir nokkrum vikum. Skýrslan gefur hryllilegar lýsingar á drápum, mannránum og hvarfi kristinna íbúa í nokkrum hlutum Nígeríu.

Undanfarið hafa fjölmiðlar sagt fréttir af Borno-ríki, þar sem áhrifa Boko Haram klofningsins, ISWAP, gætir hvað mest. Þar hafa íbúar undanfarið orðið fórnarlömb endurtekinna árása og mannrána vopnaðra hópa. Í mars voru yfir 30 fiskimenn og bændur drepnir á hræðilegan hátt í árás á Ngala svæðinu. Í júní voru um 36 manns, þar á meðal bændur, drepnir í Dambo, Jere og Mafa sveitarstjórnarsvæðum.

Samkvæmt frétt í fjölmiðlum setti ISWAP bann við búskap, fiskveiðum og beit búsmala förufólks á Marte sveitarstjórnarsvæðinu. Tilgangurinn til að stöðva landbúnaðarstarfsemi var greinilega til að refsa bændasamfélögunum fyrir meintar njósnir um þau fyrir herinn sem hafði beitt loftárásum gegn ISWAP.

Endalaus fjöldamorð á kristnum

Sem fyrr eru nánast endalaus fjöldamorð á kristnum mönnum að eiga sér stað í Nígeríu en heimurinn virðist furðu áhugalítill um það. Morðin eru oft algerlega tilviljanakennd og beinast hverju sinni að þeim sem verða í vegi vígamanna. Fyrir síðustu jólahátíð keyrði um þverbak og á annað hundrað kristnir menn voru drepnir þegar morðæði rann á vopnaða ræningjar íslamista. Samkvæmt tölum Amnesty International voru þá um 140 kristnir menn drepnir í um 20 samfélögum víðsvegar um miðhluta Nígeríu. Í landi þar sem jafnan er erfitt að komast yfir nákvæmar tölur hafa sumar heimildir sagt að tala látinna sé nærri 200.

Drápin á kristnum mönnum eiga sér stað á stóru svæði sem nánast er dregið með ósýnilegri línu sem skilur að hið múslímska norður og hið kristna suður inn í miðju landsins. Kristnir eru rétt innan við helmingur íbúa Nígeríu.nigeria dráp

Morðin síðastliðið ár eru hluti af langvarandi stríði gegn kristnum mönnum sem ná allt aftur til ársins 2009 þegar Boko Haram hóf morðherferð sína gegn þessari fjölmennustu þjóð Afríku. Samtökin boða nú jihad um alla Nígeríu og Mið-Afríku. „Í Nígeríu er orðið annað mannskæðasta þjóðarmorð í heiminum en síðan 2009 hafa meira en 150.000 varnarlausir borgarar verið drepnir vegna trúar sinnar,“ segir í skýrslunni en til hennar er vitnað í Catholic Herald, blaði Vatíkansins í Róm.

„Þögult þjóðarmorð“

Þar segir að um 100.000 kristnir einstaklingar hafi verið á meðal þeirra 150.000 sem voru drepnir í landinu síðan 2009. Það eru ekki aðeins kristnir sem verða fyrir ofsóknunum en um 46.000 hófsamir múslimir eru meðal hinna látnu. 4.000 meðlimir annarra trúarbragða hafa látið lífið. Þetta eru hærri og nákvæmari tölur en þegar um málið var fjallað hér í desember síðastliðnum. Sem fyrr verður að minna á að slík tölfræði er ekki nákvæmnisvísindi í þessum heimshluta.niger dræap

Í skýrslunni er bent á að tala látinna í Nígeríu sé að nálgast það sem var í Sýrlandi en þar hefur ríkt hrikalegu borgarastyrjöld síðan 2011 sem hefur haft í för með sér dauða á milli 300 og 350 þúsund manna eins og fjallað hefur verið um hér í pistli. Í Sýrlandi búa nú um 24 milljónir manna en í Nígeríu eru 228 milljónir. Skýrsluhöfundar ganga svo langt að líkja hinum kerfisbundnu morðum á kristnum mönnum í Nígeríu við „þögult þjóðarmorð,“ og að það undirstrikist af fjarveru fjölmiðlaumfjöllunar og afskiptaleysi heimssamfélagsins. Það tónar við önnur svæði Afríku sem hefur verið fjallað um í pistlum hérna, svo sem Suður-Súdan og Sahel-svæðinu, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku, en þar er helsta átakasvæði heims í dag og blandast inn í ástandið í Nígeríu.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum stóð Sahel-svæðið frammi fyrir djúpstæðum mannúðaráskorunum í upphafi árs með tæplega 40 milljónir manna í brýnni þörf fyrir lífsbjörgunaraðstoð og vernd. Hallað hefur á verri hliðina en þetta er 3 milljónum manna fleiri en í fyrra. Fátt bendir til að ástandið sé að batna þarna.