c

Pistlar:

1. apríl 2024 kl. 13:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vaxandi ofsóknir gegn kristnum mönnum

Á páskunum minnast kristnir menn dauða og pínu Krists en fylgjendur hans mynda stærsta söfnuð heims. Páskarnir eru reyndar gömul hátíð gyðinga en kristnir menn hafa að hluta til slegið eign sinni á þá. Það er hins vegar ekki öllum ljóst að nú er talið að kristnir menn séu opinberlega ofsóttir í hvorki fleiri né færri en 139 löndum. Þúsundir kristinna manna falla í ofsóknum á hverju ári um víða veröld. Því til viðbótar eru hundruð þúsunda í fangelsi vegna trúar sinnar. Víða þar sem áður stóð vagga kristninnar verða kristnir nú fyrir beinum ofsóknum og „hreinsunum“. Má þar nefna kirkjudeildir bæði í Sýrlandi og Írak. Með ofbeldi er reynt að hrekja hina kristnu á brott, frá heimahögum sínum. Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Svíþjóð, hefur djúpa þekkingu á sögu kristninnar og trúarbragða en hann sagði fyrir stuttu í pistli á Facebook síðu sinni að ef fram fer sem horfir verði kristnum útrýmt á þessum svæðum. „Þeir þurfa því á bráðri hjálp að halda þar sem þeir eru, og það strax,“ er ákall frá Þórhalli.kristni

Bandaríski blaðamaðurinn og rithöfundurinn John L. Allen hefur mikið fjallað um þetta ástand en hann er höfundur bókarinnar Hnattrænt stríð gegn kristninni (The global war on Christians). Þar kemur fram að í dag beinast 80% af öllum trúarbragðaofsóknum í heiminum gegn kristnum minnihlutahópum.

Breska þingið skoðar málið

Margir fylgjast með þessari þróun og hafa áhyggjur af. Bresk þingnefnd tók málið til skoðunar í upphafi árs í kjölfar þess að árleg skýrsla birtist en hún er tekin saman af Open Doors, félagasamtökum sem styður kristna menn um allan heim, og listar þau fimmtíu lönd þar sem kristnir menn verða fyrir verstu ofsóknunum. Kynning nýjustu skýrslunnar var í breska þinginu 17. janúar 2024.

Hafa verður í huga að það er engin alþjóðlega viðurkennd skilgreining á ofsóknum. Því er það svo að aðferðafræði Open Doors skilgreinir ofsóknir með eftirfarandi hætti: Sérhver fjandskapur sem upplifaður er vegna samsömunar manns við Krist. Þetta getur falið í sér fjandsamleg viðhorf, orð og gjörðir í garð kristinna manna. Þessi víðtæka skilgreining felur í sér (en takmarkast ekki við) takmarkanir, þrýsting, mismunun, andstöðu, upplýsingafölsun, óréttlæti, hótanir, illa meðferð, jaðarsetningu, kúgun, umburðarleysi, brot, útskúfun, fjandskap, áreitni, misnotkun, ofbeldi, þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð.

Í skýrslunni eru einnig dregin fram ofbeldisatvik og athafnir sem hafa áhrif á einkalíf, fjölskyldu, samfélag, þjóðlíf og kirkjulíf, og hverju landi er raðað eftir fjölda og eðli tilkynntra atvika. Í skýrslunni fyrir 2023 segir að um 365 milljónir kristinna manna verða fyrir „miklum ofsóknum og mismunun“. Til samanburðar voru ofsóttir um 340 milljónir árið 2021.

Listinn er sláandi í skýrslunni en einn af hverjum sjö kristnum um allan heim er ofsóttur, þar af einn af hverjum fimm í Afríku og einn af hverjum sjö í Asíu. Þá samanborið við 1 af hverjum 8 á heimsvísu árið 2021.kristni2

Ástandið í Nígeríu

Á síðasta ári voru alls 4.998 kristnir menn drepnir vegna trúar sinnar segir í skýrslunni. 90% þeirra sem létust voru í Nígeríu, þar sem árásir á kristna hafa orðið sífellt algengari síðari ár. Það tengist auknu ofbeldi gegn almennum borgurum eins og fjallað hefur verið um hér í pistlum. Open Doors áætlar að fjöldi kristinna manna sem drepnir hafi verið vegna trúar sinnar um allan heim hafi verið 5.898 árið 2022 og 4.761 árið 2021. Ráðist var á 14.766 kirkjur og kristnar eignir á þessu tímabili. Norður-Kórea, Sómalía, Líbýa, Erítrea og Jemen, ásamt Nígeríu, voru með hæstu tíðni tilkynntra ofsókna gegn kristnum mönnum.

Einhverra hluta vegna eru fjölmiðlar heimsins ekki mjög áhugasamir um þetta ástand en hér hefur áður í pistlum verið vikið að þessum ofsóknum sem eru mestar í Miðausturlöndum, Mið-Afríku og víða um Asíu. Þórhallur segir sterk öfl reyna að draga upp þá mynd að hér sé um að ræða styrjöld milli kristinna og múslíma eða íslam. „En það er afbökun á stöðunni. Aðeins brot af múslímum heimsins taka þátt í þessum ofsóknum. Verstu ofsóknirnar gegn kristnum einstaklingum og kirkjum í dag eru stundaðar af hindúum á Indlandi. Stjórn Norður-Kóreu hefur látið myrða um 300.000 kristna ef marka má bók Allen. Fjórðungur þeirra sem eftir lifir í Norður-Kóreu dregur fram lífið í fangabúðum.“kristni3

Kirkjuleiðtogar þegja

Þórhallur bendir á að þó ekki sé rétt að kenna íslam eða múslímum um ofsóknirnar, mega menn heldur ekki vera svo frjálslyndir og pólitískt rétthugsandi að menn loki augunum fyrir því sem er að gerast. „Baráttuhópar á Vesturlöndum, sem venjulega hafa sig í frammi þegar taka þarf upp hanskann fyrir lítilmagnanum víða um heim, láta sig ofsóknirnar litlu máli skipta. Margir kirkjuleiðtogar þegja einnig þunnu hljóði. Um leið og talið berst að kristninni og ofsóttum kristnum minnihlutahópum, er eins og margir sjái fyrir sér heimsvaldastefnu 19. aldar, krossferðirnar og nýlenduveldin og kirkjur þeirra.“

Þórhallur segir undarlegt að menn vilji ekki kannast við að kirkjan í dag eða kristnir einstaklingar geti verið kúgaður og ofsóttur minnihlutahópur. Hvað þá að margar af þessum kirkjum sem hér um ræðir séu þjóðkirkjur sem hafa verið til í viðkomandi löndum um 1500 til 2000 ára skeið. Þannig rekur til dæmis kirkjan á Indlandi rætur sínar til fyrstu aldar eftir Krist.

Ofsóknir í Suður-Súdan

Ef við skoðum eitt tiltekið dæmi þá er forvitnilegt að horfa til Suður-Súdans sem er yngsta ríki heims. Lýðveldið Suður-Súdan hlaut sjálfstæði frá Súdan í júlí 2011 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu sama ár. Eftir að hafa sloppið undan yfirráðum norðursins, sem að mestu er er undir yfirráðum múslima, liðu ekki nema tvö ár þar til braust út borgarastyrjöld í Suður-Súdan vegna pólitískrar óeiningar og þjóðernisátaka. Talið er að um 400.000 manns hafi verið drepnir í átökum síðustu sjö ára. Friðarsamkomulag var gert árið 2020 og ný ríkisstjórn sór embættiseið, þó að greint hafi verið frá því að ofbeldi milli ýmissa vopnaðra vígahópa haldi áfram.christian

Kristni á sér langa sögu á því svæði sem nú heitir Suður-Súdan. Talið er að í dag séu um 60% íbúa Suður-Súdan kristnir. Meðal mótmælenda eru Anglican Church og Presbyterian Church stærstu söfnuðirnir. Þeir sem iðka einhvers konar trú frumbyggja eru um 30% en um 6% íbúanna eru múslímar. Landið virðir trúfrelsi í stjórnarskrá.

En aðskilnaðurinn við múslima í norðri hefur ásótt kristna meirihlutann í suðrinu en þar er meirihluti fórnarlambanna. Margir hafa flúið heimili og átthaga í leit að skjóli. Kristni óx hratt á tímabili, innan um ofbeldi, hernað - og ofsóknir á hendur kristnum samfélögum. Sumir gengust kristni á hönd með því að hafna íslam sem þröngvað var upp á þá í norðri en múslimir taka því illa ef menn skipta um trú. Trúardeildir kristinna hafa átt erfitt með að starfa og alvarleg mannúðarkrísa hefur ríkt í landinu sem kemur eðli málsins samkvæmt hart niður á kristnum íbúum.