c

Pistlar:

2. apríl 2024 kl. 18:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Óþekka stúlkan Giorgia Meloni

Allajafnan hefði ég eytt dymbilvikunni á Ítalíu í lífslangri tilraun til að meðtaka anda þessa fagra lands og grípa hluta af menningunni sem er svo yfirþyrmandi að það verður ekki gert almennilega nema með rauðvíni og pasta. En það varð ekki að þessu sinni. Það breytir því ekki að Ítalía er alltaf í huga þeirra sem þangað hafa komið og nú eru ferðirnar komnar á vel á annan tug og sumum hefur verið gerð skil hér í pistlum. Ég hef stundum gaman af því að benda á að ég hef aldrei heimsótt nágranna okkar í Noregi enda hafi Noregur alltaf tapað í samanburði við Ítalíu. Flestir Íslendingar sækja suður á bóginn og margir taka ástfóstri við eitthvert af löndum Miðjarðarhafsins enda margt að sækja þangað fyrir veðurbarða Íslendinga.Pres_Meloni_bio_0

Ítalía er land mótsagnanna og það eru ekki nema um það bil 150 ár síðan Ítalíuskaginn var sameinaður í eitt land undir forystu skáldsins og byltingamannsins Giuseppe Garibaldi (1807-1882) sem í anda rómantískrar þjóðernisstefnu þeirra tíma vildi berja saman þjóðríki. Enn má rekast á Ítali sem bölva Garibaldi fyrir þetta framtak sitt og benda á hve ólík norðrið og suðrið í raun eru. Þeir sem fylgjast með gengi knattspyrnuliðsins í Napólí skilja að þetta er dauðans alvara og Napólíbúar telja sig enn hafa verið snuðaða með sameiningunni.

En Ítalía verður kennd við allt annað en stjórnmálalegan stöðugleika og stjórnmál landsins eru óreiðukennd í meira lagi. Nú hefur hins vegar Giorgia Meloni stýrt landinu í bráðum eitt og hálft ár. Hún var til þess að gera óþekkt þegar hún var kosin og fjölmiðlar kynntu hana gjarnan til leiks sem öfgahægrimann með „rætur í nasisma“. Ríkisútvarpið sagði í sinni kynningu að hún hefði verið höll undir Mussolini sem dó reyndar 32 árum áður en hún fæddist. BBC, breska ríkisútvarpið, hamraði á því að hægri öfgakona væri að verða forsætisráðherra á Ítalíu, í mestu hægri öfgastjórn sem komist hefði til valda í landinu frá seinustu heimsstyrjöld! En þrátt fyrir ýmsar bölbænir hefur hún komið mörgum á óvart og gert sig gildandi í heimsmálunum og á síðasta ári tilnefndi Forbes hana sem fjórðu valdamestu konu heims.ítalia1

Guð, föðurland og fjölskylda

Það fór augljóslega fyrir brjóstið á mörgum þegar hægribandalag Giorgiu Meloni vann stóran kosningasigur á Ítalíu 2022. Hún lýsti sjálfri sér sem kristnum íhaldsmanni og sagðist verja, „Guð, föðurland og fjölskyldu“. Samsetning sem hefur öðlast nýja merkingu í seinni tíma transstríðum. Meloni hafði haft uppi harða gagnrýni á aðgerðir í kóvid-faraldrinum, svo sem stofufangelsi, lokanir fyrirtækja og skóla. Sumir sögðu þær aðgerðir fasískar í eðli sínu. Meloni barðist af hörku fyrir málfrelsi og gegn þöggun í nafni vakrar („woke“) hugmyndafræði. Að því leyti má segja að hún hafi staðið í fylkingarbrjósti þegar kom að persónulegu frelsi og tjáningarfrelsi, sem er ekki endilega það sem fasísk öfl standa fyrir þegar þau ná völdum. Færri og færri kenna því Meloni við fasisma þegar horft er til verka hennar. Þá hefur hún reynst traustur stuðningsmaður Nató og stutt aðkomu bandalagsins að stríðinu í Úkraínu og tilheyrandi refsiaðgerðir. Hún vill vera áfram í ESB og evrusamstarfinu.ítalia2

Hefta innflutning hælisleitenda

Meloni vildi hefta innflutning hælisleitenda og átti það sameiginlegt með fjölda flokka í Evrópu, jafnt til hægri og vinstri. Flokkur hennar er þjóðernissinnaður, hún leggur áherslu á að styrkja sjálfsmynd og menningu þjóðarinnar sem á nú undir högg að sækja að hennar mati.

Meloni gagnrýndi stefnu fyrri ríkisstjórna í málefnum ólöglöglegra innflytjenda og hefur mótað harðari stefnu þó erfitt sé að koma henni í framkvæmd. Vandinn er að Ítalía er vegna legu sinnar fyrsti áfangastaður gríðarlega margra þeirra sem leggja af stað yfir Miðjarðarhafið, oftast frá Líbýu. Ítalskar hafnir eru fyrir vikið fullar af farandfólki á flótta. Um leið er fæðingartíðni á Ítalíu mjög lág og fólki fækkar, sérstaklega á landsbyggðinni. Meloni hefur tengt ólöglegan innflutning fólks og glæpi og komu flóttamanna við mansal og vændi. Var ekki á það bætandi í landi sem átt hefur glímt sínar glímur við mafíuna. Meloni kvartaði yfir hættunni á breyttri þjóðernissamsetningu í bók sinni frá 2019 um nígerísku mafíuna sem hefur reynt að gera sig gildandi á Ítalíu og hefur í sumum tilfellum gert samkomulag við mafíuna í Napólí og á Sikiley. Fleiri og fleiri Ítalir amast við miklum fjölda innflytjenda sem eru orðnir áberandi víða í landinu eftir gríðarlegt innstreymi þeirra undanfarin ár. Þarna er að verða til einn helsti átakaflötur ítalsks samfélags.