Samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskóla - Yales´s Environmental Performance Index (EPI), er Ísland önnur umhverfisvænasta þjóð heimsins á eftir Finnlandi, en EPI vísitalan metur stöðu þjóða gagnvart náttúrunni. Norðurlandaþjóðirnar koma vel út úr þessari mælingu. Næst á eftir Finnum og okkur koma Svíar og Danir en Norðmenn reka lestina í 17. sæti. Þau lönd sem efst eru á þessum lista, komast næst því að geta talist kolvetnishlutlaus. Það sem gerir að verkum að við erum á eftir Finnum eru loftgæði og svifryksmengun, sem tengist væntanlega einkum bílaumferð og notkun nagladekkja.
Þessi niðurstaða er vissulega ánægjuleg tíðindi fyrir okkur Íslendinga. Hins vegar er umræðan um umhverfismál hér á landi ekki alveg í takti við hana. Þar er oftar en ekki gert lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í vistvænni orkunotkun og umhverfisvörnum hér á landi. Sérstaklega hafa spjótin beinst að orkusæknum iðnaði og þá sérstaklega áliðnaði. Þetta er eftirtektarvert þegar litið er til þess að íslensku álverin eru í hópi þeirra iðjuvera á heimsvísu sem bestum árangri hafa náð í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hér á landi hefur losun á hvert framleitt tonn t.d. minnkað um 75% frá árinu 1990.
Í erindi dr. Þrastar Guðmundssonar, háskólakennara, á ársfundi Samáls vorið 2015 kom fram að heildarlosun frá íslenskri álframleiðslu væri sexfalt minni en frá sambærilegum álverum sem reist hefðu verið í Mið-Austurlöndum og knúin væru gasorku. Þá væri hún tífalt minni á Íslandi en frá álverum sem knúin væru með kolaorku í Kína.
Almennt tengist losun í álframleiðslu mest orkuþættinum en framleiðslan krefst mikillar orkunotkunar. Á Íslandi er eingöngu notuð endurnýjanleg orka við álframleiðslu, sem þýðir að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna álframleiðslu hérlendis er hlutfallslega margfalt minni en víðast hvar annars staðar í heiminum. Heildarlosun ræðst að verulegu leyti af losun frá raforkuframleiðslunni. Þannig getur heildarlosun frá álveri, sem knúið er raforku frá kolaveri, numið allt að 17 tonnum á hvert framleitt tonn af áli. Á Íslandi er þetta hlutfall ekki nema 1,64 tonn.
Þröstur benti einnig á að stór hluti áls, sem framleitt væri á Íslandi, væri notaður í samgöngutæki í Evrópu. Þar sem aukin notkun áls léttir farartæki, dregur hún mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum. Sparnaðurinn væri tvöfalt meiri en sem næmi losuninni við frumframleiðslu álsins hér á landi. Ef tekið væri með í myndina að ál má endurvinna endalaust, mætti reikna með að sparnaðurinn í losun væri sextánfaldur á við losunina sem yrði við frumframleiðslu álsins hér á landi.
Umhverfisvöktun með álverum á Íslandi er með umfangsmestu umhverfisrannsóknum sem gerðar eru á Íslandi. Rannsóknirnar eru meðal annars framkvæmdar af Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Matvælastofnun, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri óháðum aðilum.
Í skýrslunni „Aðgerðir í loftlagsmálum“, sem unnin var af samstarfshópi fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra 2013, sést að stóriðjan losaði samtals 1,8 milljónir tonna af koltvísýringi (CO2) út í andrúmsloftið árið 2010 en koltvísýringur er að magni til veigamesta gróðurhúsalofttegundin. Til samanburðar losaði sjávarútvegur 0,58 milljónir tonna af koltvísýringi og landbúnaður 0,65 milljónir tonna. Þar er reyndar undanskilin stórfelld CO2 losun vegna framræsts votlendis sem hækkar tölu landbúnaðarins margfalt.
Eins og greinarhöfundur hefur áður bent á eru flugvélar orkufrekustu farartækin og jafnframt þau sem menga mest. Auk þess virðast engar umhverfisrannsóknir vera framkvæmdar á þessu sviði. Hver þota á flugi losar, að því er talið er, á bilinu 100 til 200 grömm af CO2 að meðaltali á kílómetra og farþega. Sé þetta heimfært á fjölda farþega, sem fóru um Leifsstöð árið 2014, er heildarmagn CO2 sem flugið losar a.m.k. 8,5 milljónir tonna á ári. Þá eru ótaldar þær flugvélar sem hér fljúga yfir án þess að lenda. Flugið mengar þar af leiðandi margfalt á við stóriðjuna hér á landi. Þessi staðreynd hefur einhverra hluta vegna ekki enn ratað inn í umræðuna um umhverfismál.