Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, segir í samtali við Viðskiptapúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, að líkur séu á því að Icelandair muni á næstu misserum taka Airbus-vélar inn í flota sinn. Þá verði félagið að gera upp við sig, vari kyrrsetning MAX-vélanna margumræddu út árið, hvernig brugðist verður við fyrir háönnina næsta sumar.
„Þeir verða að ákveða hvort þeir ætla að halda þessum fimm vélum sem þeir eru nú þegar með. Vélarnar verða ekki hér yfir veturinn en þegar háönnin kemur næst þurfa þeir að ákveða hvort þeir vilji draga inn fleiri leiguvélar og hvort þeir geri það aftur með svona blautleigu,“ segir Sveinn sem telur þó líklegast að félagið muni þess í stað byrja að bæta Airbus-vélum við flotann.
„Þá myndu þeir byrja þessa sviðsmynd þar sem þeir bæta Airbus-vélum jafnt og þétt við flotann. Flotinn samanstæði þá af 737, þegar hún kemur til baka, og Airbus. Allar nýjar vélar sem koma þá inn eru Airbus-vélar auk þess sem haldið er eftir þeim 737-flota sem þeir eru með núna. Samhliða þessu myndu þeir reyna að segja sig úr samningunum og sleppa því að fá inn fleiri vélar. Mér finnst þetta líklegasta niðurstaðan í dag,“ segir Sveinn og bætir við að kaup eða leiga á Airbus-vélum verði í raun eini kostur Icelandair fari svo að kyrrsetningin dragist á langinn og vari jafnvel langt inn á næsta ár.
Samkvæmt upplýsingum frá flugmálayfirvöldum í Bandaríkjunum og Boeing á kyrrsetning 737 MAX-véla síðarnefnda aðilans að vara út október. Icelandair vinnur nú flugáætlun sína í samræmi við framangreindar upplýsingar og ráðgera því að MAX-vélarnar verði komnar í loftið í upphafi nóvermbermánaðar. Að mati Sveins eru litlar líkur á því slíkar spár gangi eftir.
„Ég er ekkert viss um að Icelandair trúi því þó þeir vinni eftir ákveðinni tímalínu. Ef staðan er óbreytt í október og alltaf verið að ýta boltanum áfram þá þarf félagið væntanlega að bregðast við næsta sumar og fara í einhvers konar Airbus-fasa. Það myndi felast í því að kaupa eða leigja einhverjar vélar,“ segir Sveinn sem sjálfur hefur enga trú á því að 737 MAX-vélar verði komnar í loftið á ný áður en árið er úti.
„Mín persónulega skoðun er sú að þessi vél verður ekki farin að fljúga á þessu ári.“
Líkt og áður hefur komið fram má rekja tvö mannskæð flugslys, í Eþíópíu og Indónesíu, til hugbúnaðargalla í MAX-vélum Boeing. Flugvél Lion Air steyptist niður í Jövuhaf með 189 manns um borð þann 29. október 2018 og 157 manns létust er flugvél Ethiopian Airlines fórst á leið frá Addis Ababa til Naíróbí sex mínútum eftir flugtak. Spurður hvort hann sjái fyrir sér að fólk muni treysta vélunum á ný jafnvel þó gengið hafi verið með fullnægjandi frá framangreindum galla kveður Sveinn nei við.
„Þetta eru hræðileg og gróf slys þar sem kerfið tók yfir, sem er alls ekki gott. Að laga þetta er kannski einfaldara en maður heldur, en óöryggið er svo mikið að þarf að byggja upp traust. Mögulega verður þetta öruggasta flugvél heims í árslok en það er traustið sem skiptir mestu,“ segir Sveinn.
Hlusta má á tuttugasta þátt Viðskiptapúlsins hér að neðan. Þá má einnig nálgast þáttinn í gegnum helstu podcast-veitur hjá Itunes, Spotify og Google Play.