Klámmyndaleikkona í 60 Minutes í kvöld

Donald Trump og Stormy Daniels á samsettri mynd.
Donald Trump og Stormy Daniels á samsettri mynd. AFP

Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels mun í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS í kvöld greina frá sambandi sínu við Donald Trump Bandaríkjaforseta, áratug áður en hann tók við embættinu.

Margir bíða spenntir eftir að heyra hvað Daniels hefur að segja um samband þeirra.

CBS hefur, þvert á það sem venjan er, ekki birt búta úr viðtalinu fyrirfram.

Daniels hefur áður talað um samband þeirra, þar á meðal í færslu á Twitter þar sem hún sagði: „Tæknilega séð svaf ég ekki hjá POTUS (forseta Bandaríkjanna) fyrir 12 árum síðan. Það var ekki mikið sofið (hehe) og hann var bara aulaleg raunveruleikastjarna.“

Lögmaður hennar, Michael Avenatti, hefur einnig tjáð sig um viðtalið á Twitter.

Stormy Daniels, eða Stephanie Clifford eins og hún heitir réttu …
Stormy Daniels, eða Stephanie Clifford eins og hún heitir réttu nafni. AFP

Daniels fékk greidda 130 þúsund dollara af lögfræðingi Trumps, Michael Cohen, fyrir að segja ekki frá neinu, samkvæmt samkomulagi sem var gert fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Avenatti höfðaði mál fyrir hönd Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford, fyrr í þessum mánuði þar sem hann bað um ógildingu samkomulagsins. Þar kemur fram að Daniels hafi byrjað „náið samband“ við Trump sumarið 2006 sem hafi staðið yfir til ársins 2007.

Cohen, lögmaður Trumps, segir að Daniels eigi að greiða að minnsta kosti 20 milljónir dollara fyrir að brjóta samkomulagið.

Hvíta húsið hefur neitað því að Trump og Daniels hafi átt í kynferðislegu sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert