Spennandi kosningar á Grænlandi

Nýleg skoðanakönnun á Grænlandi bendir til þess að lítill munur sé á fylgi tveggja stærstu flokka landsins, jafnaðarmannaflokksins Siumut og vinstriflokksins Inuit Ataqatigiit. Útlit er því fyrir að þingkosningar, sem fram fara í landinu í dag, verði spennandi. Könnunin bendir til þess að miðjuflokkurinn Demókratar sæki í sig veðrið og bæti við sig tveimur þingsætum.

Siumut fékk mest fylgi í þingkosningum í Grænlandi fyrir fjórum árum og ellefu þingsæti af 31, jafnmörg og Inuit Ataqatigiit. Formaður Siumut, Kim Kielsen, myndaði fyrst stjórn með Demókrötum og hægriflokknum Atassut sem er andvígur því að Grænland verði sjálfstætt ríki. Hún var við völd til ársins 2016 þegar Siumut myndaði nýja landstjórn með Inuit Ataqatigiit og miðjuflokknum Naleraq.

Inuit Ataqatigiit er með ívið meira fylgi en Siumut samkvæmt könnun sem gerð var fyrir grænlenska ríkisútvarpið og blaðið Sermitsiaq dagana 11. til 15. apríl. Gangi hún eftir missir Siumut tvö þingsæti og Inuit Ataqatigiit eitt.

IA í stjórn með Demókrötum?

Ekki þarf mörg atkvæði til að staðan breytist og Siumut hefur oft aukið fylgi sitt á lokasprettinum. Fái Inuit Ataqatigiit mest kjörfylgi verður flokknum að öllum líkindum falið að mynda næstu stjórn. Hugsanlegt er að stærstu flokkarnir tveir haldi samstarfinu áfram og myndi nýja stjórn með traustan meirihluta á þinginu. Gangi niðurstaða könnunarinnar eftir gæti þó Inuit Ataqatigiit einnig myndað tveggja flokka stjórn með Demókrötum en hún hefði nauman meirihluta, 16 sæti af 31.

Vilji Siumut ekki halda áfram samstarfinu við Inuit Ataqatigiit þyrfti hann að mynda stjórn með tveimur öðrum flokkum, ef marka má niðurstöðu könnunarinnar. Ekki verður hægt að mynda meirihlutastjórn nema Inuit Ataqatigiit eða Siumut eigi aðild að henni.

Grænlenski stjórnmálaskýrandinn Kuupik Kleist telur að umdeilt frumvarp um veiðigjöld, sem verður afgreitt á næsta kjörtímabili, geti ráðið úrslitum um hvers konar stjórn verður mynduð. Forystumenn Demókrata hafa sagt að flokkurinn ætli að leggja áherslu á kröfu sína um að skattar verði lækkaðir. Flokkurinn gæti myndað stjórn með Inuit Ataqatigiit og Atassut.

Í kosningabaráttunni hefur m.a. verið fjallað um möguleikann á sjálfstæði Grænlands þótt flestir flokkanna telji að ekki sé tímbabært að lýsa yfir sjálfstæði landsins. Meira hefur verið rætt um önnur mál, t.d. skort á félagslegu húsnæði, menntamál og hvernig fjármagna eigi byggingu alþjóðaflugvallar og fleiri verkefni til að fjölga ferðamönnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert