Sendiherra segir af sér vegna ummæla Trump

Fleiri erindrekar segja af sér vegna ummæla og stefnu Trump.
Fleiri erindrekar segja af sér vegna ummæla og stefnu Trump. AFP

James D. Melville, sendiherra Bandaríkjanna í Eistlandi, ætlar að segja af sér vegna óánægju með ummæli Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu. Melville greindi frá þessu í færslu á Facebook, en Foreign Policy sagði fyrst frá.

Sagði hann ummæli Trump um NATO og Evrópusambandið hafa orðið til þess að hann tók þessa ákvörðun. En forsetinn lagði nýlega verndartolla á vörur frá Evrópu og hefur verið duglegur að gagnrýna bandamenn Bandaríkjanna í NATO.

Melville sagði í færslu sinni að það forsetinn segði að Evrópusambandið hefði verið sett á fót til að notfæra sér Bandaríkin eða ráðast að sparibauk landsins, og að NATO væri jafnslæmt og NAFTA, væri ekki bara rangt, heldur sannaði það að það væri kominn tími á hann að segja af sér.

Melville er ekki eini bandaríski erindrekinn sem sagt hefur af sér vegna stefnu eða ummæla Trump, en sendiherrann í Panama sagði af sér snemma á árinu og sagðist ekki geta starfað undir forsetanum. Skömmu áður hafði starfsmaður bandarísku utanríkisþjónustunnar í Naíróbí hætt vegna þess að hann taldi að Bandaríkin hefðu væru hætt að forgangsraða í þágu mannréttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert