Thunberg samviskusendiherra Amnesty

Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg  og loftslagshreyfingin Fridays for Future, eða Föstudagar til framtíðar, hlaut í gær verðlaun mannréttindasamtakanna Amnesty International sem svo nefndir „samviskusendiherrar“.  Segir Amnesty verðlaunin að þessu sinni hafa verið veitt fyrir það starf sem unnið hefur verið til að beina athygli að þörfinni fyrir bráðaaðgerðir til að forða heiminum frá hamfarahlýnun.

Thunberg, sem er 16 ára tók sér ár frá skóla og er nú stödd í Bandaríkjunum. Hún fékk standandi lófaklapp frá nemendum George Washington-háskólans þar sem verðlaunaathöfnin fór fram.

Greta Thunberg tekur til máls á loftslagsmótmælum framan við Hvíta …
Greta Thunberg tekur til máls á loftslagsmótmælum framan við Hvíta húsið í Washington síðasta föstudag. AFP

„Sú pólitík sem við þurfum á að halda á til að taka á þessu hættuástandi er ekki til staðar í dag,“ sagði Thunberg.

„Það er ástæða þess að hvert og eitt okkar verður að þrýsta á þá sem bera ábyrgðina frá öllum mögulegum stöðum og fá fólk til að bregðast við.“

Thunberg kvað verðlaunin þá ekki eingöngu vera sín, heldur ekki síður allra þeirra milljóna ungmenna sem hafa tekið þátt í vikulegum skólaverkföllum sem hófust með mótmælasetu Thunberg framan við sænska þingið hvern föstudag í ágúst í fyrra.

Næsta skólaverkfall fer fram föstudaginn 20. september og er þá búist við að Thunberg og þúsundir námsmanna í New York streymi út á göturnar, ásamt mótmælendum víða um heim, sem hluta af „alþjóðlegu loftslagsverkfalli“.

Á laugardag verður svo haldin fyrsta loftslagsráðstefna æskunnar hjá Sameinuðu þjóðunum og á mánudag hefst loftslagsaðgerðaráðstefna sem Sameinuðu þjóðirnar hafa boðað til í tilefni þess að þau ríki sem menga mest eru langt á eftir með aðgerðir til að draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda.

Hafa gert eitthvað sem okkur tókst ekki

Kumi Naidoo, framkvæmdastjóri Amnesty International, hafði áður greint frá því að samtökin hefðu ekki ætlað sér að veita verðlaunin í ár og hafði sú ákvörðun verið tekin í kjölfar þess að þau sviptu Aung San Suu Kyi á síðasta ári verðlaununum sem hún hafði hlotið. Var það gert á grundvelli „skammarlegra svika við þau gildi sem hún eitt sinn stóð fyrir“, en Suu Kyi hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að gera lítið til að stemma stigu við árásum búrmíska hersins á rohingja-múslima í landinu.

Naidoo sagði samtökin hins vegar hafa hrifist af þeim áhrifum sem Thunberg og aðrir ungir aðgerðasinnar hefðu. „Verðlaunin eru viðurkenning á að þau hafa þegar náð að gera eitthvað sem mörg okkar sem höfum tekið þátt í þessu áratugum saman höfum ekki getað gert. Þeim hefur tekist að hrífa með sér mikinn fjölda fólks,“ sagði hann.

„Þessir ungu framhaldsskólanemar leika stóran þátt í því að fræða foreldra sína,“ bætti hann við og sagði loftslagsvána verða í síauknum mæli mannréttindamál. Þess utan þá „ógnar hamfarahlýnun veru manna á jörðinni og án mannkyns eru engin mannréttindi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert