Látnir og særðir brátt 500.000

Úkraínskir hermenn og kirkjugarðsstarfsmenn láta kistu Andrii Veremíenkó síga ofan …
Úkraínskir hermenn og kirkjugarðsstarfsmenn láta kistu Andrii Veremíenkó síga ofan í dimma gröf í gær. Hann féll í bardaga við Rússa í Dónetsk. AFP/Roman Pilipey

Tala látinna og særðra á báða bóga í Úkraínustríðinu nálgast nú 500.000 ef marka má tölur sem bandarískir embættismenn gefa upp. Segja þeir Úkraínumenn hafa misst tæplega 70.000 hermenn í dauðann en særðir úr þeirra röðum séu á bilinu 100 til 120 þúsund.

Hins vegar segja þeir tölurnar mun hærri í röðum innrásarhersins rússneska þar sem allt að 120.000 hermenn hafi fallið og á bilinu 170 til 180 þúsund særst. Þetta sé hins vegar erfitt að staðfesta þar sem frá Moskvu berist mun lægri tölur um mannfall en raunin sé. Úkraínumenn gefi ekki upp neinar opinberar tölur.

Mikið mannfall í vetur

Talið er að þrefalt fleiri rússneskir en úkraínskir hermenn séu á vígvöllunum í Úkraínu og endurspeglar sú tala nokkurn veginn heildarherafla nágrannaþjóðanna, greinendur telja úkraínska herinn um 500.000 manns að öllum mannskap töldum en þann rússneska 1.330.000, einnig að öllu meðtöldu, þar með Wagner-málaliðasveitunum.

Tala fallinna og særðra tók mikinn kipp í vetur og hefur hækkað til muna síðan bandaríski hershöfðinginn Mark A. Milley lagði fram matstölur í nóvember en þá var talið að fallnir og látnir til samans væru rúmlega 100.000 úr röðum hvors hers, þess rússneska og úkraínska.

Blóðugur og langdreginn bardaginn um borgina Bakhmút í vetur sem leið hækkaði dánartölurnar ört enda féllu þar nokkur hundruð manns á dag vikum saman eftir því sem bandarískir greinendur meta það.

Gagnsóknin gerði minna gagn

Gagnsókn Úkraínumanna í vor, sem dróst úr hömlu, reyndist svo ekki það bylmingshögg sem áætlað var. Úkraínski herinn átti erfitt með að samræma notkun fótgönguliðs og nýrra bandarískra hátæknivopna sem hermenn höfðu nýlega lært á. Þótt þeim auðnaðist að brjótast gegnum víglínu Rússa töpuðu þeir mannskap og búnaði ört á jarðsprengjuökrum andstæðingsins auk þess sem stórskotahríð og skeyti frá gríðarstórum rússneskum orrustuþyrlum dundu á þeim.

Talið er að fimmtungur þess vopnabúnaðar, sem Úkraínumenn héldu út á vígvöllinn með, hafi laskast eða eyðilagst á fyrstu viku gagnsóknarinnar. Síðustu vikur hefur úkraínski herinn því horfið aftur til fyrri hernaðartækni, stórskotaliðs og langdrægra flugskeyta, í stað þess að sækja yfir jarðsprengjuakra í harðri orrahríð Rússa.

New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert