Andskotans demókratar og Trump-hatarar

Peter Navarro á blaðamannafundi sínum á bílastæði verslunarmiðstöðvar í Miami …
Peter Navarro á blaðamannafundi sínum á bílastæði verslunarmiðstöðvar í Miami í Flórída. AFP

Fyrrverandi viðskiptaráðgjafi Donald Trumps á meðan hann gegndi embætti forseta, Peter Navarro, gaf sig fram við fangelsisyfirvöld í Flórída í dag til að hefja fjögurra mánaða afplánun sína. 

Navarro var dæmdur til fangelsisvistar í september í fyrra fyrir að vanvirða þingnefnd Bandaríkjanna en hann neitaði að bera vitni fyrir nefndinni í tengslum við rannsókn hennar á árás stuðningsmanna Trumps á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar 2021. 

Navarro er einnig hönnuður „Green Bay Sweep“-áformanna svokölluðu sem áttu að koma í veg fyrir að bandaríska þingið myndi staðfesti kosningaúrslitin 2020. 

„Eitt mun þó veita mér styrk: Donald John Trump er …
„Eitt mun þó veita mér styrk: Donald John Trump er framboðsefni Repúblikana í forsetakosningunum,“ sagði Navarro. AFP

Segir Donald Trump veita sér styrk

Er Navarro hæst setti fyrrum starfsmaður Trump-stjórnarinnar sem mun eyða tíma bak við lás og slá í tengslum við tilraunir fyrrverandi forsetans til að hnekkja úrslitum kosninganna 2020.

Var beiðni Navarro um að vera frjáls ferða sinna á meðan hann áfrýjaði sakfellingunni hafnað af hæstaréttardómaranum John Roberts í gær og mun hann afplána fangelsisvist sína í lágmarksöryggisfangelsi í Miami. 

Á leið sinni í fangelsið stoppaði Navarro á bílastæði verslunarmiðstöðvar í Miami til að ræða við blaðamenn og kvaðst vera fórnarlamb „flokksbundinnar vopnvæðingar“ á bandaríska réttarkerfinu enda sé hann fyrsti háttsetti ráðgjafi Hvíta hússins til að vera ákærður fyrir þennan „meinta glæp“.

„Sérhver manneskja sem hefur komið mér á þessa leið í fangelsið er andskotans demókrati og Trump-hatari,“ sagði Navarro. 

„Eitt mun þó veita mér styrk: Donald John Trump er forsetaefni repúblikana í forsetakosningunum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert