Neitað um gögn sem gætu leyst málið

Páll segist ekki fá gögn sem gætu varpað skýrara ljósi …
Páll segist ekki fá gögn sem gætu varpað skýrara ljósi á mál Sunnu.

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki viljað afhenda mér tiltekin gögn sem geta varpað ljósi á og skýrt aðstöðu Sunnu, og að ég tel leyst málið að mörgu leyti,“ segir Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem liggur lömuð á sjúkrahúsi í Sevilla á Spáni eftir að hún féll á milli hæða á heimili sínu í Marbella fyrr á þessu ári.

Páll segir lögmann Sunnu á Spáni hafa lagt áherslu á að fá þessi gögn afhent og að þau skipti verulega miklu máli um framhald málsins. „Nú standa öll spjót að lögreglunni.“

Páll segir lögregluna bera fyrir sig rannsóknarhagsmuni og því sé ekki hægt að afhenda gögnin. „Fyrst var það lögreglan á Spáni sem bar fyrir sig rannsóknarhagsmuni og nú er það farið að snúast við. Ég var bara rétt í þessu að heyra í þeim og þeir sögðust ekki geta afhent mér þessi gögn.“

Páll gerir því ekki ráð fyrir að fá gögnin nema lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sjái að sér og skipti um skoðun. „Ég tel ekki að þetta skipti nokkru máli fyrir rannsóknina á Íslandi, þar sem búið er að opna málið úti á Spáni. Þetta eru bara ákveðnar útskýringar sem við þurfum, sem endurspeglast fyrst og fremst í tungumálaerfiðleikum og misskilningi í þýðingum á milli landa.“

RÚV greindi frá því fyrr í dag og hafði eftir heimildum að íslensk yfirvöld hefðu fengið jákvæð viðbrögð frá yfirvöldum á Spáni um að Sunna fái að koma til Íslands.

Páll hefur hins vegar ekki heyrt af neinum hreyfingum í því máli, en yfirvöld hér á landi sendu réttarbeiðni til spænskra yfirvalda um miðjan febrúar þar sem óskað var eftir því að íslenska lögreglan tæki yfir rannsókn málsins.

Sunna hefur verið í ótímabundnu farbanni á Spáni frá því hún slasaðist, en eiginmaður hennar, Sigurður Kristinsson, er grunaður um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli, og hefur setið í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna rannsóknar málsins.

Sunna var lá fyrst á sjúkrahúsi í Malaga, en var í lok febrúar flutt á sérstakan bæklunarspítala í Sevilla þar sem hún hefur verið í endurhæfingu. „Hún er í raun bara í sömu stöðu og áður nema hún er komin á betra sjúkrahús,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka