„Við getum komist í úrslitin, við getum unnið þetta“

Gunnlaugur Hans Stepensen, Jóel Ísak Jóelsson og Guðrún Kristín Kristinsdóttir …
Gunnlaugur Hans Stepensen, Jóel Ísak Jóelsson og Guðrún Kristín Kristinsdóttir komu sáu og sigruðu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ vann spurningakeppnina Gettu betur í fyrsta skipti í sögu skólans í kvöld. Liðið skipa þau Jóel Ísak Jóelsson, Guðrún Kristín Kristinsdóttir og Gunnlaugur Hans Stephensen. Þau hafa vakið talsverða athygli í gegnum keppnina fyrir mikla ástríðu og innlifun. Blaðamaður mbl.is náði tali af þeim skömmu eftir sigurinn í kvöld.

Jóel hefur aldrei liðið jafn vel, Guðrún tekur undir það og segir þetta kvöld seint verða toppað. „Þetta er það sem maður er búinn að bíða eftir og hefur dreymt um alla ævi,“ segir Gunnlaugur. Það er augljóst að þríeykið hefur lagt mikla vinnu í þetta augnablik. 

Liðið vakti athygli fyrir mikla innlifun í gegnum keppnina.
Liðið vakti athygli fyrir mikla innlifun í gegnum keppnina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þau hafa unnið saman á hverjum einasta degi í 6-7 tíma í rúmt hálft ár. 

„Svo má ekki gleyma því að Jóel byrjaði að vinna með liðinu fyrir fjórum árum, ég fyrir þremur árum og Guðrún tveimur,“ segir Gunnlaugur. Öll eru þau sammála um að sú vinna sé vel þess virði. 

„Vitum ekki hvort fólk þekkir okkur“

Nú unnuð þið Gettu betur í fyrsta skipti í sögu skólans, þið hljótið að vera hetjur?

„Við erum ekki búin að mæta í skólann í svo langan tíma að við vitum ekki hvort fólk þekkir okkur,“ segir Jóel kíminn. Lið FG verður seint sakað um stærilæti. 

Þar sem þau hafa vakið talsverða athygli fyrir mikla innlifun lék blaðamanni forvitni á að vita hvort það hefðu verið samantekin ráð að fagna hverju réttu svari svona innilega. 

„Nei,“ segja þau öll í kór án þess að hugsa. „Við bara erum bara rosalega tilfinningarík,“ segir Guðrún. „Og bara gleymum stundum áhorfendunum,“ skýtur Gunnlaugur inn. 

„Tilfinninga-Tómas er náttúrlega búinn að þjálfa okkur mikið í því að sýna tilfinningar,“ segir Jóel. „Já, við erum alin upp við góð skilyrði,“ samsinnir Guðrún og hlær. 

„Við bara erum rosalega tilfinningarík.“
„Við bara erum rosalega tilfinningarík.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Fannst þetta óskhyggja

En þegar þið fóruð í fyrstu keppnina, hverjar voru væntingarnar þá?

„Við höfðum engar væntingar þá, við vorum skíthrædd um að tapa,“ segir Guðrún.

„Í desember sagði ég við Gunnlaug: Við getum komist í úrslitin, við getum unnið þetta. Við þurfum bara að vinna og leggja ógeðslega mikið á okkur,“ segir Jóel. Guðrún minnist þess að Gunnlaugur hafi ekki alveg haft trú á því. 

„Já, ég viðurkenni að ég vildi trúa því en mér fannst þetta vera meiri óskhyggja hjá honum. En hvar erum við núna?“ 

Guðrún gæti snúið aftur á næsta ári

Gunnlaugur og Jóel útskrifast í vor en Guðrún gæti snúið aftur í Gettu betur að ári. „Hver veit,“ segir hún og brosir. „Ekki nema hún vilji hætta á toppnum,“ segir Jóel og öll þrjú skella upp úr.

Liðið vill koma á framfæri þakklæti til Sigurlaugs Ingólfssonar sem þau segja sinn læriföður. Sigurlaugur var í liði MS sem komst í úrslit Gettu betur 2002. „Hann er okkar maður. Við eigum honum mörg stig að þakka,“ segir Guðrún. 

Lið Kvennaskólans í Reykjavík stóð sig frábærlega í vetur.
Lið Kvennaskólans í Reykjavík stóð sig frábærlega í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lið FG hafði betur gegn liði Kvennaskólans í Reykjavík sem sigraði í keppninni í fyrra og hafði því titil að verja í kvöld. Í liði Kvennaskólans voru Fjóla Ósk Guðmannsdóttir, Ragna Dúa Þórsdóttir og Sigurjón Ágústsson.

Keppnin í ár var sú 33. í röðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert