Mesta mildi að ekki fór verr

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

12 ára gömul stúlka var hætt komin í Eiðavatni á Austurlandi í gær. Stúlkan, sem sótti sumarbúðir Kirkjumiðstöðvar Austurlands við Eiðavatn, er flogaveik og fékk flogakast í vatninu þar sem börnin höfðu verið að leika sér við að stökkva í vatnið og svamla þar um. Mesta mildi þykir að ekki fór verr, en bekkjarsystir stúlkunnar kom henni til bjargar. Hún sá í hvað stefndi, þekkti flogaveikieinkenni stúlkunnar og náði að koma stúlkunni upp úr vatninu með aðstoð starfsmanna sumarbúðanna. Austurfrétt greindi fyrst frá málinu.

Að sögn Evu Daggar Sveinsdóttur sumarbúðastjóra hafa flestöll börnin fengið fræðslu í skyndihjálp í skólanum og vita því hvernig skuli bregðast við í slíkum aðstæðum. „Krakkarnir fóru niður að vatni eins og við gerum reglulega og voru að leika sér að því að stökkva út í. Stúlkan var með þeim og stökk sjálf út í. Eftir að hafa svamlað um í 4-5 mínútur í vatninu var eins og hún áttaði sig á því hvað væri að gerast, að hún væri að fá flogakast. Hún leit til vinkonu sinnar sem var þar með henni og kallar til hennar. Vinkonan áttaði sig, stökk út í og um leið fór höfuð stúlkunnar undir yfirborð vatnsins. Viðbrögð vinkonu hennar voru þó svo snögg að stúlkan var ekki í vatninu nema í um 1-2 sekúndur.“

Stúlkan var flutt með sjúkrabíl á heilsugæsluna á Egilsstöðum en þaðan fór hún með sjúkraflugi til Reykjavíkur til nánari skoðunar. Eva segir aðstæðurnar í vatninu hafa verið góðar. „Já, það var bara hlýtt og gott veður og krakkarnir hafa gert þetta í gegnum árin. Þarna voru tveir starfsmenn á bátum og tveir starfsmenn í landi og allir viðbúnir ef eitthvað skyldi gerast.“ Hún segir jafnframt að vinkona stúlkunnar hafi unnið þrekvirki við björgunina. „Það er lærdómsríkt fyrir þau að sjá að skyndihjálp geti skipt sköpum þó að þau séu ung.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert