Festu bíl í utanvegaakstri við Kleifarvatn

Tveir menn festu bifreið sína í sandinum við Kleifarvatn, en …
Tveir menn festu bifreið sína í sandinum við Kleifarvatn, en vildu ekki kannast við það í fyrstu að hafa ekið utan vegar. Mynd úr safni. Árni Sæberg

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í fyrradag tilkynning um utanvegaakstur við Kleifarvatn. Þegar lögreglumenn komu á staðinn blasti við þeim bifreið sem sat föst í sandinum við vatnið, auk þess sem búið var að tæta og spóla upp á svæðinu í nágrenninu. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að tveir menn voru við bifreiðina og vildu þeir í fyrstu ekkert kannast við að hafa valdið skemmdunum, einungis fest bifreiðina.

Í viðtölum við lögreglu viðurkenndu þeir svo utanvegaaksturinn en héldu þó stíft við þá frásögn að fleiri hefðu verið á ferð á svæðinu og hefðu þeir einnig rótað upp sandinum. Málið er í ferli hjá lögreglu.

Hélt á sex mánaða gömlu barni í farþegasæti

Meðal annarra verkefna í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum síðustu daga má einna helst nefna hraðakstur en átján ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu á undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 153 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Næstmesti hraði sem mældur var reyndist vera 147 km þar sem hámarkshraði er einnig 90 km. Í báðum tilvikum var um að ræða erlenda ferðamenn.

Þá hafði lögregla afskipti af bifreið þar sem farþegi hélt á sex mánaða barni í fanginu og var það þar af leiðandi ekki í  tilskildum öryggisbúnaði.

Fáeinir ökumenn voru teknir úr umferð vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur og skráningarnúmer voru fjarlægð af nokkrum bifreiðum sem voru ótryggðar eða óskoðaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert