Hólmfríður sinnir hjálparstarfi í Sýrlandi

Hólmfríður Garðarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, er á leið til Al …
Hólmfríður Garðarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, er á leið til Al Hol-flóttamannabúðanna í Sýrlandi á vegum Rauða krossins þar sem hún mun meta aðstæður og samhæfa viðbrögð Rauða krossins á sviði heilbrigðismála í búðunum. Ljósmynd/Rauði krossinn

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent Hólmfríði Garðarsdóttur sendifulltrúa til Sýrlands til þess að sinna hjálparstarfi í Al Hol-flóttamannabúðunum í norðaustur-Sýrlandi.

Í tilkynningu frá Rauða krossinum kemur fram að Hólmfríður er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir með meistaragráðu í lýðheilsufræðum þróunarlanda og hefur starfað á hamfara- og átakasvæðum á vegum Rauða krossins í yfir 20 ár. Hólmfríður tekur þátt í að meta aðstæður og samhæfa viðbrögð Rauða krossins á sviði heilbrigðismála í Al Hol-flóttamannabúðunum.

Flóttamannabúðirnar Al Hol eru staðsettar í norðausturhluta Sýrlands. „Athygli hefur vakið að í fjölmiðlum hafa birst staðhæfingar um að þarna séu niðurkomnir svokallaðir „erlendir vígamenn‘“ (e. Foreign Fighters) stríðandi fylkinga og fjölskyldur þeirra. Raunin er þó sú að flóttamannabúðirnar hýsa um 74.000 einstaklinga og um 90% af því fólki eru konur og börn, sem mörg hver eru fylgdarlaus og yfirgefin,“ segir í tilkynningu frá Rauða krosstinum. Fjöldi flóttamanna í búðunum hefur fjölgað mikið á stuttum tíma og ljóst að aðgengi að almennri heilbrigðisþjónustu er ábótavant. Slæmur aðbúnaður og mikill kuldi á svæðinu hefur því miður orðið til þess að mikill fjöldi barna hefur látið lífið á undanförnum vikum.

Rauða kross hreyfingin útvegar flóttafólki í búðunum 9.000 máltíðir á dag, ferjar um 100.000 lítra af hreinu drykkjarvatni daglega og hefur komið upp 176 salernum í Al Hol-búðunum.

„Það er algjört forgangsatriði að koma mannúðaraðstoð inn á svæðið, óháð því hver uppruni fólksins er,“ er haft eftir Atla Viðari Thorstensen, sviðsstjóra hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi.

Hægt er að leggja starfi Rauða krossins lið með því að gerast Mannvinur Rauða krossins á heimasíðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert