Reiðubúnir að auka pressuna

Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna í kjaraviðræðum.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna í kjaraviðræðum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við renndum yfir stöðu mála. Það gerðist svo sem ekkert á fundinum. Við fengum ekkert í hendurnar á þeim fundi. Við munum reyna til þrautar í næstu viku, dagana eftir páska, og sjá hversu langt við komumst í þessu. Ef málin fara ekkert að skýrast heildstætt í þeirri viku munum viðfara í undirbúning að einhvers konar aðgerðum.“

Þetta segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður framkvæmdastjórnar Rafiðnaðarsambands Íslands og talsmaður iðnaðarmanna í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, í samtali við mbl.is en fundað var í deilunni í húsakynnum ríkissáttasemjara í morgun. Boðað hefur verið til annars fundar að morgni miðvikudags eftir páskahátíðina.

„Það er ekkert í höfn þannig séð, við erum bara að reyna að vinna með heildarmálin hjá okkur og að koma einhverjum þáttum í höfn,“ segir Kristján ennfremur aðspurður. „Það hefur bara ekki gengið nægjanlega vel hjá okkur.“ Kristján bendir á að komið hafi fram að verulegs pirrings og óþreyju gæti í baklandinu hjá iðnaðarmönnum.

„Menn vilja fara að fá samninga á borðið og eru reiðubúnir að auka pressuna en þetta fer ekki að breytast núna á næstu viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert