Blásarar æfa göngulag

Samræmt göngulag og leikur. Lúðrasveit verkalýðsins á æfingu í bílakjallara …
Samræmt göngulag og leikur. Lúðrasveit verkalýðsins á æfingu í bílakjallara Höfðatorgs í Reykjavík í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

Félagar í Lúðrasveit verkalýðsins æfðu stíft í gærkvöldi fyrir tónlistarflutninginn sem þeir verða með á morgun, 1. maí, sem er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Lúðrar voru þeyttir og trumbur slegnar í eina klukkustund, en síðan var farið í bílakjallara Höfðatorgs í Reykjavík þar sem sveitin æfði meðal annars að spila við samræmt göngulag.

Mikilvægt er að fipast hvergi í spilverkinu þó að beygt sé fyrir horn eða ef þörf er á að snarstoppa á Laugaveginum, þar sem lúðrasveitin fer fremst í kröfugöngunni og gefur tóninn í orðsins fyllstu merkingu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Maístjarna og roði í austri

„Þessi dagur er einn af hápunktunum í starfi okkar og alltaf jafn skemmtilegur,“ segir Rannveig Rós Ólafsdóttir, formaður lúðrasveitarinnar. Sjálf spilar hún á þverflautu og hefur verið í lúðrasveit í rúmlega tuttugu ár – með hléum þó.

„Við kunnum auðvitað Nallann, Sjá roðann í austri, Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns og Maístjörnu Jóns Ásgeirssonar alveg leikandi, en sveitin æfir þó alltaf vel fyrir þennan dag. Við reynum líka að taka ný lög inn á efnisskrána fyrir 1. maí hvert ár, höfum meðal annars verið með Stál og hnífur eftir Bubba Morthens og Stúlkan sem Todmobile gerði vinsælt á sínum tíma. Í útsetningu fyrir lúðrasveit hljóma þessi lög afar skemmtilega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert