Skiptar skoðanir á nýrri stjórn FKA

Stjórn FKA 2019-2020: Áslaug Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður Aradóttir, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, …
Stjórn FKA 2019-2020: Áslaug Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður Aradóttir, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, Lilja Bjarnadóttir, Sigríður Hrund Pétursdóttir en á myndina vantar Huldu Bjarnadóttur sem var erlendis sem og Margrét Jónsdóttir Njarðvík. Ljósmynd/FKA

Eva Magnúsdóttir fráfarandi formaður LeiðtogaAuðar, deildar innan Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, segir mikla óánægju innan FKA með nýja stjórn félagsins vegna áherslubreytinga. Í Morgunblaðinu í dag var rætt um mögulegan klofning FKA eftir kosningu nýrrar stjórnar. Nýkjörinn formaður, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, kannast ekki við þessa óánægju og segir að engum áherslum hafi verið breytt. Þó hafi fimm konur vissulega sagt sig úr félaginu frá síðasta aðalfundi. 

„Ég get alveg staðfest það að það er mikil óánægja hjá mörgum konum innan LeiðtogaAuðar og reyndar fleirum innan FKA sem ætla að segja sig úr félaginu og hafa nú þegar gert það. Þetta snýst ekki bara um það hverjar eru búnar að skrá sig úr félaginu heldur líka um þær sem ætla að gera það,“ segir Eva.

Hún vék nýverið úr sæti sínu sem formaður LeiðtogaAuðar en deildinni er meðal annars ætlað að efla tengslanet kvenna í stjórnunar- og áhrifastöðum í atvinnulífinu.

Eva Magnúsdóttir
Eva Magnúsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Óánægjan á rætur sínar í meintum breyttum áherslum, að sögn Evu. „Við erum ekki að samsvara okkur við þær áherslur sem nýr formaður FKA boðar en auðvitað þarf hver og ein aðildarkona að skýra það út með sínum eigin orðum. Ég myndi segja að stutta svarið sé það að við sem erum ekki sáttar eigum ekki samleið með nýrri forystu.“

Hulda Ragnheiður er ekki sammála því að ný stjórn ætli sér að breyta áherslum FKA. „Það er eitthvað sem ég kannast alls ekki við þar sem við höfum ekki breytt áherslum sem hafa verið í gildi á neinn hátt og það er ekki fyrirhuguð nein breyting á þeim verkefnum sem hafa verið í gangi hjá félaginu.

Aftur á móti hef ég kynnt hugmyndir að viðbót við þá flóru sem hefur verið í gangi og kynnt almennari þátttöku og að félagskonum verði gefinn kostur á að koma að fleiri verkefnum. Það er frekar verið að horfa á að fleiri og öðruvísi verkefni verði stofnuð til viðbótar við það sem er verið að gera.

Það eru 1200 konur í félaginu og það hefur ekki verið ein einasta stefnubreyting varðandi Jafnvægisvogina eða fjölmiðlaverkefnið frá þeirri stjórn sem nú er komin,“ segir Hulda sem kannast ekki við óánægjuraddir. Hún ræddi við núverandi formann LeiðtogaAuðar eftir að umfjöllunin birtist í Morgunblaðinu og hafði óánægja þá ekki verið rædd þar innanborðs.

„Hljómar eins og ákveðin kvenfélagsvæðing

Aðspurð segir Eva að mýkri áherslur séu hjá nýrri stjórn. „Þetta hljómar eins og ákveðin kvenfélagsvæðing, án þess að vera að særa nokkurn með þeim orðum. Við höfum talið okkur vera samtök sem eru að vinna að hagsmunum kvenna í rekstri og atvinnulífinu en í dag þá eru ákveðnar þungavigtarkonur sem vilja skoða hvort það sé ekki réttara að beita sínum kröftum í einhverju öðru en FKA.“

Eva tekur þó fram að hún sé ekki talsmaður LeiðtogaAuðar og tali út frá sinni eigin sannfæringu. „Ég vil alls ekki gera lítið úr kvenfélögum því þau sinntu auðvitað allt öðru hlutverki í gamla daga. Upplifun margra kvenna innan FKA er að það sé verið að stíga skref aftur á bak á meðan við erum auðvitað bara viðskiptakonur sem hugsa um hag kvenna í atvinnulífinu.“

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, er nýr formaður Félags …
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, er nýr formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Ljósmynd/FKA

Í umræddri grein Morgunblaðsins er haft eftir heimildarmanni að eins konar „hallarbylting“ hafi átt sér stað við kosningu nýrrar stjórnar. Nokkrar konur buðu sig fram eftir að Hulda hlaut kjör og einhverjar drógu sín framboð til baka. Hulda segir það ekki óeðlilegt. 

„Þessi framboð voru alla vega ekki skipulögð af mér en ég get alveg staðfest það að ég vissi af tveimur þeirra áður en þau komu fram. Annað þeirra var frá sitjandi stjórnarkonu sem hafði áhuga á að starfa áfram með nýjum áherslum og það var ekkert sem hefði þurft að koma neinum stórkostlega á óvart.“

Óhjákvæmileg skoðanaskipti

Fimm konur hafa sagt sig úr félaginu frá aðalfundi en Hulda minnir á að mikil hreyfing sé á félögum FKA. 

„Ég fékk það staðfest í morgun að það eru fimm úrsagnir frá aðalfundi og það hafa fimm konur gengið í félagið frá aðalfundi. Mér þykir mjög leitt að þessar konur skulu vera að yfirgefa félagið vegna þess að þetta eru mjög öflugar og hæfar konur. Það er synd að okkur hafi ekki lánast að setjast niður og tala saman til þess að átta okkur á stöðunni.

Það er þó líka gott að hafa í huga að á síðasta ári voru 215 úrsagnir úr félaginu en 315 konur gengu í félagið svo það er mjög mikil hreyfing á konum inn og út úr félaginu. Það er óhjákvæmilegt í félagi sem þessu að starfsemi þess sé ekki öllum félögum að skapi.“

Rakel Sveinsdóttir, fyrrum formaður FKA.
Rakel Sveinsdóttir, fyrrum formaður FKA.

Þegar mbl.is hafði samband við Rakel Sveinsdóttur, fráfarandi formann FKA, í dag sagði Rakel að hún væri ekki best til þess fallin að svara til um hvort óánægju gætti með nýja stjórn, en játaði þó að nýr formaður boðaði aðrar áherslur en Rakel hafði gert.

„Ég er að kveðja FKA eftir tólf skemmtileg ár og er kannski ekki sú manneskja sem get svarað þessu. Ég er afar stolt af Jafnvægisvoginni og fjölmiðlaverkefninu og boðaði í minni framboðsræðu aðgerðir fyrir atvinnulífið vegna loftslagsmála. Þó meirihluti fundar hafi kosið aðrar áherslur en mínar kveð ég sátt og óska nýrri forystu góðs gengis með þetta flotta félag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert