Hefði líklega bjargast í bílbelti

Myndir sýnir aksturleið bifreiðarinnar.
Myndir sýnir aksturleið bifreiðarinnar. Mynd/Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Talið er að ökumaður Ford-sendibifreiðar, sem lést í umferðarslysi á Miklubraut við Skeiðarvog í Reykjavík í lok nóvember 2017, hefði lifað slysið af hefði hann verið í öryggisbelti. Maðurinn kastaðist út úr bifreiðinni á ferð og lést við það.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í dag. Þar segir að ökumaðurinn, 23 ára gamall karlmaður sem verið hafi undir áhrifum áfengis og fíkniefna, hafi misst stjórn á bifreiðinni þar sem hann hafi ekið Miklubraut í austur. Með honum í bifreiðinni var farþegi sem varð fyrir nokkrum meiðslum slysinu.

Rann stjórnlaus eftir götunni

„Vitni greindu frá því að rétt fyrir slysið hefði Ford-sendibifreiðinni verið ekið hraðar en öðrum bifreiðum á ferð austur Miklubraut. Skyndilega hafi hún byrjað að rása á milli akreina og farið upp á miðeyju á milli akreina í gagnstæðar áttir og rekist þar á vegrið. Þar kastaðist ökumaðurinn út úr bifreiðinni og á girðingu sem var á miðeyjunni á milli vegriða. Litlu mátti muna að hún hefði rekist utan í aðra bifreið.“

Mynd/Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Bifreiðin hafi síðan runnið stjórnlaus eftir götunni og stöðvast á vegriði austan við gatnamótin um 120 metra frá þeim stað þar sem ökumaðurinn hafi kastast út úr henni. Haft er eftir eiganda ökutækisins að ökumaðurinn hefði tekið bifreiðina án hans vitneskju, en ökumaðurinn hafði ekki öðlast ökuréttindi. Enn fremur kemur fram að bifreiðin hafi verið í óökuhæfu ástandi sökum ryðskemmda.

„Mikið ryð var í undirvagni bifreiðarinnar og ummerki um að reynt hefði verið að fela ryðskemmdir með frauðplasti og plötum sem festar voru með kítti. Ryðvörn hafði svo verið úðað yfir, sennilega til að hylja ófullnægjandi viðgerð. Þá kom einnig fram að hjólabúnaður að aftanverðu var laus. Fjaðrafesting var sundurryðguð.“

Ryðskemmdir hugsanleg ástæða

Fram kemur að ekki sé hægt að útiloka að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bifreiðinni vegna þess að hjólabúnaður hafi losnað vegna ryðskemmda. „Öryggisbelti voru í lagi og þrír hjólbarðar bifreiðarinnar voru lítið slitnir ónegldir vetrarhjólbarðar, hjólbarði hægra megin að aftan var slitinn vetrarhjólbarði en með fullnægjandi mynstursdýpt.“

Þá hafi verið talsverð vanhöld á því að færa bifreiðina til skoðunar. Bifreiðin hefði þannig ekki verið færð til skoðunar árin 2007, 2009, 2011 og 2016. Tíð eigendaskipti hefðu verið á bifreiðinni á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert