Veita afslátt af fargjöldum í strætó

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., og Hannes Rúnar Hannesson, …
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., og Hannes Rúnar Hannesson, sölustjóri Meninga. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga og Íslandsbanki hófu nú í júní samstarf við Strætó þar sem markmiðið er að leggja einkabílnum og styðja þannig við vistvænar samgöngur. Samstarfið felur í sér að fyrirtækin bjóða viðskiptavinum sínum endurgreiðslutilboð í Strætó allan júnímánuð. Þetta er í fyrsta sinn sem veittur er afsláttur af fargjöldum Strætó hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Tilboðinu er ætlað að hvetja fólk til að prófa að taka Strætó og tilboðið, sem gildir út júní, er 50% endurgreiðsla af tveimur stökum ferðum keyptum í gegnum Strætó appið. 

„Við hjá Strætó erum mjög spennt fyrir þessu verkefni og vonum að sem flestir geti nýtt sér tilboðið,“ segir Markús Vilhjálmsson, sölustjóri Strætó, í tilkynningu. Bent er á að árskort í strætó kostar 66.400 kr. en samkvæmt útreikningum FÍB kostar um milljón krónur að reka bíl. 

„Hjá Meniga leggjum við mikla áherslu á að hjálpa fólki að bæta fjárhagslega heilsu sína og rekstur bíls er einn af stóru útgjaldaliðunum á mörgum heimilum.“ Þetta segir Guttormur Árni Ársælsson, þjónustustjóri hjá Meniga, í tilkynningu. 

Samhliða átakinu mun Meniga vera með þema-áskorunina Leggðu bílnum þar sem notendur eru hvattir til þess að taka áskorun í Meniga appinu og eyða minna í eldsneyti með því að labba, hjóla eða taka strætó.

Hér er hægt að kynna sér frekari upplýsingar um endurgreiðsluátakið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert