Rökstyðji eftirlitsgjald með rafrettum

Innflytjendur og seljendur rafrettna eru krafðir um 75.000 króna eftirlitsgjald …
Innflytjendur og seljendur rafrettna eru krafðir um 75.000 króna eftirlitsgjald með hverri tegund rafrettuvöru.

Umboðsmaður Alþingis hefur krafið heilbrigðisráðuneytið um rökstuðning fyrir því að 75.000 kr. gjald vegna tilkynninga um markaðssetningu á rafrettum standist lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um þjónustugjöld. Félag atvinnurekenda greinir frá þessu á vef sínum og segir þetta gert í framhaldi af kvörtun samtakanna.

„Umboðsmaður segir í erindi sínu til ráðuneytisins að ýmsir kostnaðarliðir, sem ráðuneytið hefur tínt til að gjaldið eigi að standa undir, virðist almenns eðlis og ekki ljóst að þeir falli til í öllum tilvikum,“ segir í fréttinni.

Fram komi í erindi umboðsmanns til heilbrigðisráðuneytisins að þjónustugjald „verði ekki innheimt án heimildar í lögum og verði eingöngu nýtt til að standa straum af kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin tekur til“.

Aðeins megi taka gjald fyrir „beinan kostnað eða kostnað sem sé í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu sem sé sérstaklega tilgreind í gjaldtökuheimildinni“.

Segir umboðsmaður að leggja beri þann skilning í gjaldtökuheimild laga um rafrettur að „hver eftirlitsskyldur aðili geti aðeins borið kostnað af því eftirliti sem að honum getur beinst og telst til kostnaðar við móttöku tilkynninga og geymslu, meðhöndlun og greiningu upplýsinga sem Neytendastofa tekur við“.

Þeir kostnaðarliðir, sem Neytendastofa og ráðuneytið tilgreindu sem forsendur gjaldsins séu aðeins „að nokkru leyti almenns eðlis eða ekki ljóst að þeir falli til í öllum tilvikum“. Þess í stað séu gjaldendur líka látnir standa straum af öllum áætluðum kostnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert