Stukku í sundskýlum upp á ísjakann

Tveir erlendir ferðamenn sem stukku út í sjóinn neðan við Jökulsárlón og syntu út að ísjaka sem þar rak um og klifruðu upp á hann vöktu þó nokkra athygli meðal annarra gesta Lónsins.

Adolf Ingi Erlingsson birti myndir og myndband af atvikinu á síðu Facebook-hópsins Bakland ferðaþjónustunnar. 

„Þeir komu brunandi á bílaleigubíl og stukku út úr honum á sundskýlunum. Svo hlupu þeir niður í fjöru, stungu sér út í og syntu að jakanum og klifruðu upp á hann,“ segir Adolf Ingi í samtali við mbl.is.

Það flæddi að þegar mennirnir voru þar á ferð og því flaut jakinn í átt að landi og reyndist þeim því ekki vera hætta búinn.

Uppátæki mannanna vakti athygli annarra ferðalanga.
Uppátæki mannanna vakti athygli annarra ferðalanga. Ljósmynd/Adolf Ingi

„Þannig að þeir húkkuðu sér far með jakanum,“ segir hann. „Það er náttúrulega vafasamt að gera svona, en fólk stundar svo sem sjósund og gerir alls konar vafasama hluti,“ bætir Adolf Ingi við og kveður þetta greinilega hafa verið djók hjá þeim.

Aðrir ferðamenn á staðnum söfnuðust að og horfðu á aðfarirnar en kipptu sér ekkert upp við uppátækið.

Mennirnir komu brunandi á bílnum, hlupu beint út, íklæddir sundskýlum …
Mennirnir komu brunandi á bílnum, hlupu beint út, íklæddir sundskýlum og í sjóinn. Ljósmynd/Adolf Ingi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert