„Börn eru ekki farangur“

Halldóra Geirharðsdóttir og Benedikt Erlingsson eru í aðalhlutverkum í myndböndunum.
Halldóra Geirharðsdóttir og Benedikt Erlingsson eru í aðalhlutverkum í myndböndunum. Ljósmynd/Aðsend

„Börn eru ekki farangur“ er átak á vegum nýstofnaðra félagasamtaka sem kallast Réttur barna á flótta. Tilefni þess er sá mikli fjöldi barna á flótta sem vísað hefur verið úr landi á undanförnum árum í mikilli andstöðu við fólkið í landinu. Talsmaður átaksins er Guðmundur Karl Karlsson, formaður Réttar barna á flótta. 

„Markmið átaksins er fyrst og fremst að vekja athygli á málefnum barna á flótta og þrýsta á Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála um að fylgja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnalögum, stjórnarskrá Íslands og lögum um útlendinga. Einnig er þess krafist að stjórnvöld hætti að vísa börnum brott og senda þau til landa sem sjá þeim ekki fyrir grunnlífsgæðum og að mál barna verði ávallt tekin til efnislegrar meðferðar þar sem sérfræðingar um velferð barna skoði stöðu þeirra.“ Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Bent er á að börn á flótta séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu og hér á landi séu börn sem þurfi alþjóðlega vernd. „Til að sækja um slíkt þurfa þau að fara í gegnum langt ferli áður en ákvörðun er tekin um hvort taka eigi mál foreldra þeirra til skoðunar. Vegna þessa er sjaldgæft að börnin fái að sækja um vernd því þeirra framtíð er ákveðin út frá niðurstöðu foreldra.“

Stutt myndbönd með Benedikt Erlingssyni og Halldóru Geirharðsdóttur í aðalhlutverkum voru framleidd vegna átaksins. „Um er að ræða grafalvarlegt grín þar sem skotspæninum er beint að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála,“ segir í tilkynningu. 

Hér fyrir neðan er hægt að skrifa undir:



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert