Kannast ekki við að hafa ritað sig á mótmælalista gegn göngugötu

Kormákur Geirharðsson kaupmaður í Kormáki & Skildi.
Kormákur Geirharðsson kaupmaður í Kormáki & Skildi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það kom Kormáki Geirharðssyni, öðrum stofnanda herrafataverslunarinnar Kormáks & Skjaldar, á óvart að heyra af því að verslun hans væri á lista yfir rekstraraðila við Laugaveg og nágrenni sem birtur var í umtalaðri auglýsingu Miðbæjarfélagsins í Morgunblaðinu í dag.

Þar eru nöfn hluta þeirra fyrirtækja sem voru á mótmælalista gegn göngugötum í miðborginni birt. Umræddur listi var tekinn saman af Miðbæjarfélaginu og afhentur borgarstjóra í byrjun apríl.

„Nei, ég vissi það ekki og ef við erum á honum hefur bara einhver sett okkur á hann eða verið að ljúga því um hvað hann fjallaði,“ segir Kormákur um veru Kormáks & Skjaldar á þessum lista. Hann segir þá sem að rekstri verslunarinnar standa vera á báðum áttum með Laugaveg sem göngugötu, hvorki með né á móti. Gatan sé frábær sem göngugata, en á illviðrisdögum eins og í dag sé gott að hafa götuna opna fyrir bílaumferð.

Kormákur segir að honum lítist þó ágætlega á fyrsta áfanga að nýju deiliskipulagi um að neðri hlutar Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs verði gerðir að varanlegum göngugötum, en hann segist efast um að Laugavegur beri sig sem göngugata alveg upp að Hlemmi.

„Við höfum bara ekki mannfjölda í það að fylla upp í svona langa göngugötu,“ segir Kormákur. Hann segir umræðuna um miðbæinn heilt yfir vera allt of neikvæða og skýtur því að blaðamanni að sumir þeirra sem láti á sér bera í umræðunni hljómi eins og þeir séu að vinna að því að auka veg verslunar í Kringlunni, en ekki í miðbænum.

„Ég skil ekki af hverju menn sem eru að vinna í því að byggja miðbæinn upp vilja vera með neikvæðar fréttir,“ segir Kormákur.

Samþykkt hefur verið í borgarstjórn að hluti Laugavegar verði göngugata …
Samþykkt hefur verið í borgarstjórn að hluti Laugavegar verði göngugata til frambúðar. mbl.is/Eggert

Kormákur telur einnig að Íslendingar þurfi þó að fara að læra að notfæra sér bílastæðahúsin í miðborginni. „Það er fullt af bílastæðahúsum, það er eitt við hliðina á versluninni okkar, sem er minnst notaða bílastæðahús í Reykjavík. Það er alltaf laust og það er miklu auðveldara – og ódýrara líka. Það er eins og Íslendingar geti bara notað bílastæðahús erlendis, því þar er ómögulegt að leggja, en á Íslandi þá vilja þeir bara fá gamla stæðið sitt því að þegar þeir ólust upp fyrir 30 árum þá voru ekki nema 50.000 færri bílar eða eitthvað. Þetta eru svo skrítin rök,“ segir Kormákur.

Fleiri rekstraraðilar kannast ekki við að hafa sett sig á listann

Jón Bjarni Steinsson, eigandi og framkvæmdastjóri Dillon við Laugaveg, sagði í viðtali við Vísi að hann hefði verið settur á listann án þess að veita fyrir því samþykki. „Ég var búinn að neita að skrifa undir,“ sagði hann.

Þá hefur Hörður Ágústsson, eigandi Maclands, sagt að hann viti til þess að fleiri rekstraraðilar séu á þessum lista án þess að hafa veitt samþykki sitt. Í samtali við Fréttablaðið segist hann hafa frétt frá fyrirtækjum að þau hafi fengið misvísandi skilaboð um hvað mótmælin fælu í sér.

Á Twitter-síðu sinni segir Hörður að eyðileggingin sem neikvæð orðræða um stöðu mála í miðbænum hafi skapað sé „mjög alvarleg“ og að sem rekstraraðili í miðbænum hafi hann verið „gríðarlega vonsvikinn“ með að sjá auglýsingu Miðbæjarfélagsins í dag.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert