Segja fullyrðingar Hjálmars ekki standast

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við komuna á sáttafund í …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við komuna á sáttafund í Karphúsinu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök atvinnulífsins segja fullyrðingar formanns Blaðamannafélags Íslands um að blaðamenn séu með „lægstu laun háskólamenntaðra í landinu“ ekki standast. SA segir að samkvæmt launaupplýsingum Hagstofu Íslands hafi miðgildi reglulegra launa blaðamanna verið 603.000 kr. á mánuði árið 2018.

Þetta kemur fram á vef SA í pistli sem ber yfirskriftina „Rangfærslur um laun blaðamanna leiðréttar“.

Vísað er til þess að í kjölfar sáttafundar sem fór fram í gær hafi verið haft eftir Hjálmari Jónssyni, formanni Blaðamannafélags Íslands, á mbl.is að blaðamenn væru með „lægstu laun há­skóla­menntaðra í land­inu“.

Í samtali við Fréttablaðið ítrekaði hann staðhæfinguna: „Við erum náttúrulega lægst launaða háskólastéttin í landinu [...] Og ég fullyrði það að það sé engin háskólastétt í landinu jafn illa launuð.“

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök atvinnulífsins segja að fullyrðingar Hjálmars standist ekki.

„Samkvæmt launaupplýsingum Hagstofu Íslands var miðgildi reglulegra launa blaðamanna 603 þús. kr. á mánuði árið 2018, eins og sést á meðfylgjandi súluriti. Miðgildi reglulegra launa þeirra 29 starfsgreina þar sem háskólamenntunar er krafist var 599 þús. kr. þannig að blaðamenn voru í miðju launadreifingarinnar,“ segir í pistli SA. 

Þá segir að það sama gildi sé litið til grunnlauna, sem sé þrengra launahugtak en regluleg laun.

„Miðgildi grunnlauna blaðamanna var 580 þús. kr. en miðgildi grunnlauna allra sérfræðinga var 588 þús. kr., þannig að miðgildi grunnlauna blaðamanna var einnig í miðju dreifingarinnar. Loks þegar litið er til heildarlauna, þ.e. þegar yfirvinnugreiðslum er bætt við regluleg laun, kemur fram að 10 starfsgreinar voru með lægri heildarlaun og 18 með hærri,“ segir SA jafnframt.

Súlurit/SA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert