Bætur greiddar vegna hlerana yfirvalda

Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður segir bótakröfur stundum verða að dómsmálum.
Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður segir bótakröfur stundum verða að dómsmálum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í vikunni hefur ríkislögmaður greitt út bætur í ellefu málum vegna hlerana yfirvalda í málum sem tengjast hruninu. Um 300 til 350 þúsund krónur hafa verið greiddar út í hverju máli og því er um tæpar 4 milljónir að ræða. Fleiri kröfur í sambærilegum málum hafa komið inn á borð ríkislögmanns en ekki er búið að taka afstöðu til þeirra. Þetta staðfestir Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður í samtali við mbl.is. Vísir.is greindi fyrst frá málinu. 

Um er að ræða hlutlæga bótareglu að sögn Fanneyjar. Ekki er því verið að greiða bætur vegna þess að hleranirnar voru ólöglegar, heldur vegna þess að sýknað var í málum þar sem hleranir voru notaðar eða þau felld niður.

„Svo getur bótaréttur fallið niður ef það er einhver eigin sök. Ef það er ljóst að viðkomandi hefur  stuðlað að aðgerðum gegn sér. Stundum lendir þetta í dómsmálum. Það eru oft vafatilvik en sum tilvik eru alveg skýr,“ útskýrir Fanney.

Í þeim málum sem greiddar hafa verið út bætur hefur bótaskylda verið skýr. Það fer hins vegar eftir eðli þeirra mála sem á eftir að fara yfir, hvort bætur verði greiddar út í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert